Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík undirrituðu í dag yfirlýsingu um lagningu Sundabrautar. Í yfirlýsingunni sammælast ríki og borg um það að Sundabraut verði lögð til Kjalarness í einni samfelldri framkvæmd. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist árið 2026 og að Sundabraut verði tekin í notkun árið 2031. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Ekki er gert ráð fyrir því að ríkissjóður muni koma til með að fjármagna vegaframkvæmdina, heldur verði Sundabraut fjármögnuð með veggjöldum. Gjaldtaka á Sundabraut muni þó ekki standa lengur en í 30 ár. „Sundabraut er meðal sex samgöngumannvirkja sem falla undir lög um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir sem heimila að eiga samvinnu við einkaaðila um fjármögnun, hönnun, undirbúning og framkvæmdir ásamt viðhaldi og rekstri í tiltekinn tíma,“ segir í tilkynningunni.
Brú eða göng?
Fyrr á þessu ári greindi Sigurður Ingi frá því að niðurstaða starfshóps um legu Sundabrautar hefði verið sú að brú væri talin afgerandi betri kostur en jarðgöng til þess að tengja Sæbraut við Gufunes. Brú væri mun ódýrari kostur og hefði auk þess jákvæð áhrif umfram göng, svo sem á heildarakstur og tímasparnað umferðar á höfuðborgarsvæðinu, almenningssamgöngur, hjóla- og gönguleiðir.
Samkvæmt tilkynningunni er hins vegar ekkert ákveðið í þeim efnum hvort brú eða göng verða fyrir valinu, enda sá möguleiki enn fyrir hendi að Sundagöng verði ofan á. „Þessi yfirlýsing tryggir það og undirstrikar mikilvægi samráðs við íbúa og hagsmunaaðila í næstu skrefum. Sundagöng og Sundabrú eru áfram megin valkostirnir. Í kjölfar félagshagfræðilegrar greiningar tekur við frekari samanburður og rýni á öllum umhverfisþáttum og mótvægisaðgerðum vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa af umferð fyrir nærliggjandi hverfi,“ er haft eftir Degi B. Eggertssyni í tilkynningu stjórnarráðsins.
Samkvæmt niðurstöðum áðurnefnds starfshóps eru minni sjónræn áhrif meðal þeirra kosta sem fylgja jarðgöngum. Þá myndu brúarframkvæmdir hafa meiri áhrif á hafnarstarfsemi á framkvæmdatíma. Sama hvort verður fyrir valinu, göng eða brú, er ein af forsendum beggja leiða sú að Sæbraut verði lögð í stokk.
Alþjóðleg hönnunarsamkeppni verði brú fyrir valinu
Líkt og áður segir er næsta skref í verkefninu að ljúka félagshagfræðilegri greiningu á þessum tveimur kostum við þverun Kleppsvíkur. Þar verður greindur og metinn afleiddur kostnaður og áhrif á starfsemi í Sundahöfn og nærliggjandi íbúðarhverfi.
Eftir að þeirri vinnu lýkur verður hafist handa við að undirbúa breytingar á aðalskipulagi borgarinnar sem feli í sér endanlegt leiðarval Sundabrautar. „Stuðst verður við umhverfismat framkvæmdarinnar og rík áhersla lögð á samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila í öllum þáttum skipulags og umhverfismats,“ segir í tilkynningunni.
Ríki og borg sammælast um að Sundabraut verði lögð alla leið á Kjalarnes, í einni samfelldri framkvæmd, en ekki aðeins í Gufunes, til þess að hægt sé að ná markmiðum verkefnisins sem snúa að því að beina umferð ekki óhóflega um íbúahverfi Grafarvogs. Þá er kveðið á um það í yfirlýsingunni að framkvæmdin taki mið af umferð fyrir gangandi og hjólandi og tryggi góðar samgöngur hjólreiðafólks til og frá Kjalarnesi.
Ríki og borg eru sammála um það að ef Sundabrú verður fyrir valinu en ekki Sundagöng þá skal efna til alþjóðlegrar hönnunarsamkeppni um Sundabrú, í ljósi þess hversu áberandi brúin verður í borgarmyndinni.