Rekstur Bakarameistarans hefur verið með ágætum undanfarin ár. Í nýbirtum ársreikningi fyrir árið 2020 kemur fram að hagnaður félagsins á því ári nam rúmum 22 milljónum króna. Hagnaðurinn lækkar milli ára, var tæpar 62 milljónir í fyrra. Kórónuveirufaraldurinn hafði töluverð áhrif á rekstur félagsins, líkt og segir í skýrslu stjórnar, en þar segir einnig að félaginu hafi þó ekki verið gert að loka fyrir starfsemi. Félagið hyggst greiða eigendum sínum arð fyrir síðasta rekstrarár en það er ekki tilgreint hve háar arðgreiðslurnar munu verða. Arðgreiðslur á árinu 2020 námu 15 milljónum króna fyrir rekstrarárið á undan, sem er töluverð lækkun frá 2019 þegar arðgreiðslurnar, fyrir undangengið rekstrarár, námu 55 milljónum króna.
Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi staðið af sér þau skakkaföll sem fylgdu kórónuveirufaraldrinum nýtti fyrirtækið sér hlutabótaleið stjórnvalda. Alls voru 46 starfsmenn settir á hlutabótaleið í mars og apríl í fyrra samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ekki stendur til að endurgreiða það fjármagn sem greitt var til starfsmanna fyrirtækisins í formi hlutabóta.
“Ég tel ekkert óeðlilegt við þessa hlutabótaleið sem við vorum að nýta, þannig er það. Ég tel að við séum bara með gott fyrirtæki sem stendur við sínar skuldbindingar,” segir Sigþór Sigurjónsson í samtali við Kjarnann en hann á 95 prósent hlut í fyrirtækinu og er stjórnarformaður þess.
Spurður að því hvort til greina komi að endurgreiða hlutabæturnar segir Sigþór það ekki hafa komið til tals. „Við höfum ekkert rætt það, það hefur ekkert komið upp. Ég held að það sé allt eðlilegt við það sem við erum að gera þarna,“ segir Sigþór.
Ekki ætlunin að stöndug fyrirtæki nýti úrræðið
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um hafa fyrirtæki sem standa traustum fótum og fóru klakklaust í gegnum árið 2020 nýtt sér hlutabótaleið fyrir starfsfólk sitt. Í áðurnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar var sérstaklega vikið að því að úrræðið væri hafi verið frekar opið þegar því var fyrst komið á. Skilyrði fyrir nýtingu hlutabótaleiðarinnar voru hert þegar úrræðið var framlengt en þá var gerð ríkari krafa um tekjuskerðingu fyrirtækja auk þess sem girt var fyrir það að eigendur fyrirtækja sem nýttu leiðina gætu greitt sér arð, lækkað hlutafé, greitt óumsamda kaupauka eða keypt eigin bréf til ársins 2023.
Í skýrslunni segir einnig að nokkuð frjálsræði hafi verið á túlkun laganna. „Í hópi þeirra aðila sem hafa nýtt sér hlutastarfaleiðina eru fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður sem búa að öflugum rekstri og traustum efnahag en ekki verður séð af lögunum og lögskýringargögnum að slíkt hafi verið ætlunin.“ Þar kom einnig fram að sum fyrirtæki höfðu boðað endurgreiðslur á hlutabótum. Í apríl síðastliðnum höfðu 88 fyrirtæki endurgreitt alls 380 milljónir króna sem greiddar höfðu verið í hlutabætur.
Ríkisendurskoðun gaf út aðra skýrslu um vinnumarkaðsúrræði sem kom út í desember í fyrra en í henni kemur fram að nýting hlutabótaleiðarinnar hafi minnkað um 60 prósent milli maí og júní í fyrra eftir að skilyrði fyrir nýtingu úrræðisins voru hert. Í skýrslunni segir að samdráttinn mátti að hluta til rekja til hertari reglna, að hluta til vegna nýs úrræðis um greiðslu launa á uppsagnarfresti og að hluta til vegna þess að atvinnulífið hafði, að einhverju marki, tekið við sér.
Í umfjöllun um úrræðið í síðari skýrslu Ríkisendurskoðunar kom meðal annars fram að fjármála- og efnahagsráðherra hefði ekki útilokað að farið yrði fram á endurgreiðslu frá stöndugum fyrirtækjum. Umræddur ráðherra, Bjarni Benediktsson, sagði í viðtali við Vísi í maí í fyrra að það væri eðlilegt að fyrirtæki myndu greiða til baka þann stuðning sem ríkið hefði veitt þeim þegar betur áraði. Hann sagði fyrirtæki sem ekki þyrftu á slíkum stuðningi að halda en nýttu hann samt „reka rýting í samstöðuna“ sem stjórnvöld hefðu kallað eftir.