Lítil teikning eftir Leonardo da Vinci, ein af örfáum sem enn er í einkaeigu, var boðin upp hjá Christie’s í London á fimmtudag. Til marks um smæð teikningarinnar sem nefnist Bjarnarhöfuð, þá er hún aðeins minni en vinsælasta stærð Post-it miða en teikningin er sjö sentímetrar á hvora hlið. Kaupandinn mun þurfa að reiða fram tæplega 8,9 milljónir punda fyrir myndina, rúmlega einn og hálfan milljarð króna, sem er metfé fyrir teikningu eftir Leonardo. Fyrra met var sett árið 2001 þegar teikningin Hestur og knapi var seld hjá uppboðshúsinu fyrir rúmlega 8 milljónir punda.
Það verður seint sagt að slegist hafi verið um myndina sem talin er vera frá því um árið 1480 en í hana barst eitt boð úr uppboðssalnum. Fyrir uppboðið hafði uppboðshúsið gefið út verðmat sem var á bilinu átta til tólf milljónir punda, eða 1,3 til tveir milljarðar króna.
Verðið hefur rokið upp eftir sölu Salvator Mundi
„Þessi verð eru fáránleg,“ er haft eftir Jean-Luc Baronií umfjöllun New York Times um teikninguna en Baroni er listmunasali sem sérhæfir sig í teikningum gömlu meistaranna. Sjálfur hefði Baroni metið virði myndarinnar í kringum 250 milljónir króna. „Þetta snýst um að kaupa nafnið. Þetta hefur ekkert að gera með ástríðu fyrir góðum teikningum.“
Samkvæmt grein á vef uppboðshússins er teikningin í hópi átta teikninga eftir Leonardo sem enn eru í einkaeigu og þær eru því sjaldgæf sjón á uppboðum. Síðasta teikning Leonardos til að vera boðin upp var áðurnefnd mynd, Hestur og knapi. Fágæti slíkra mynda kann því að einhverju leyti að skýra hátt verðmat.
„Vissulega er þetta teikning eftir Leonardo. En teikningin er svo agnarsmá,“ segir listmunasalinn Baroni í samtali við New York Times. „Þetta er bara frímerki.“
Allt frá því að málverkið Salvator Mundi varð dýrasta málverk sögunnar þegar það var selt hjá Christie’s árið 2017 fyrir 450 milljónir Bandaríkjadala hafa nánast öll verk sem hafa einhverja tengingu við listamanninn farið fram úr væntingum uppboðshaldara. Árið 2019 var 17. aldar eftirmynd Monu Lisu seld hjá Christies á tíföldu matsverði. Myndin var seld á 2,9 milljónir evra en virði myndarinnar hafði verið metið á bilinu 200 til 300 þúsund. Á fimmtudag, sama dag og Bjarnarhöfuðið var selt hjá Christies, þá seldi Sotheby’s 20. aldar eftirmynd Monu Lisu fyrir hátt í 400 þúsund pund, um 68 milljónir króna, en fyrir uppboðið hafði verkið verið metið á átta til tólf þúsund pund eða 1,5 til tvær milljónir króna.
Tengist einu þekktasta málverki Leonardos
Í texta uppboðshússins um verkið er teikningin sögð tengjast einu af frægasta verki Leonardos, málverksins Hefðarkona með hreysikött sem er í eigu Czartoryski safnsins í Kraká í Póllandi. Þar er því haldið fram að höfuð hreysikattarins í málverkinu sé að einhverju leyti byggt á höfði bjarndýrsins í teikningunni. Þrátt fyrir að Leonardo sé annálaður fyrir einstaklega raunsæja túlkun í verkum sínum þá hafi Cecilia Gallerani, hefðarkona málverksins, aldrei setið fyrir með hreysikött í fanginu. Listamaðurinn hefur auk þess leyft sér að færa í stílinn því hreysikettir eru í raun mun minni en sá sem finna má í málverkinu.
„Þrátt fyrir að hátt í áratugur skilji að gerð verkanna Bjarnarhöfuð og Hefðarkona með hreysikött, þá hlýtur Leonardo að hafa haldið svo mikið upp á teikninguna að hann hafi á endanum stuðst við hana við gerð málverksins,“ segir í lýsingu uppboðshússins á teikningunni.