Norðmenn eru þekktir fyrir að taka þjóðhátíðardag sinn alvarlega, klæðast þjóðbúningum, koma saman og síðast en ekki síst: Flagga. Á þjóðhátíðardeginum þetta árið, hinn 17. maí, var hins vegar ekki flaggað við hvert hús á Haramseyju og á nálægum eyjum úti fyrir Álasundi. Hluti eyjaskeggja var einfaldlega ekki í hátíðaskapi heldur miklu frekar sorgmæddur. Sorgina má rekja til þess að nýverið tapaði hópur þeirra máli sem höfðað var til að reyna að koma í veg fyrir að vindorkuvirkjun með átta 150 metra háum vindmyllum verði reist á eyjunni. Á föstudag féll dómur sem staðfesti gildistöku leyfis til að reisa vindorkuverið. Því geta framkvæmdir nú hafist af fullum krafti.
Andstæðingar hins fyrirhugaða vers höfðuðu mál gegn bæði norska ríkinu og framkvæmdaaðilanum, Zephyr (áður Haram Kraft AS). „Öllum þykir vænt um landið sitt, þetta snýst ekki um það,“ hefur norska ríkissjónvarpið eftir Lisbeth Marie Austnes, íbúa á eyju skammt frá sem leiðir baráttuna gegn virkjuninni. Hún var ein þeirra sem flaggaði ekki í tilefni þjóðhátíðardagsins líkt og hún er vön. Hún segir marga sorgmædda og að þeir hafi með þessu viljað tjá þær tilfinningar sínar.
Deilurnar um vindorkuverið hafa klofið samfélagið á Haramseyju sem telur um 350 manns. Andstaðan er ekki minni á eyjunni Longva þar sem nokkru fleiri búa, m.a. Austnes. Þaðan yrði beint útsýni yfir vindorkugarðinn.
Það var þó ekki þannig að allir þeir sem eru á móti verinu hafi sleppt því að flagga. Sumir gerðu það. Aðrir ekki. Fyrir utan vonbrigðin sem fylgja því að hafa tapað dómsmálinu situr baráttuhópurinn uppi með málskostnað, um 1 milljón norskra króna. Þetta er í þriðja sinn sem málið ratar fyrir dóm. Enn geta andstæðingar versins áfrýjað en engin ákvörðun hefur verið tekin um slíkt. Það tekur bæði orku og fjármagn að standa í málarekstrinum og nú þarf að sögn Austnes að vega og meta þá þætti. Hins vegar segir hún ekki koma til greina að gefast upp.
„Óréttlætið er of mikið,“ segir hún við norska ríkissjónvarpið. „Við munum halda áfram að reyna að finna leiðir út úr þessu.“
Þeir eyjaskeggjar sem hafa barist gegn byggingu virkjunarinnar segja að deilurnar hafi tekið toll af heilsu sumra þeirra. Framkvæmdir, m.a. vegalagning upp á framkvæmdasvæðið á Haramsfjalli eru þegar hafnar. „Nei, ég er ekki farin að sætta mig við líf hér á eyjunni með vindmyllum,“ segir Austnes. Hún leyfi sér ekki að hugsa þannig – þá fyrst myndi vanlíðanin hellast yfir.
Sveitarstjórnin í Álasundi hefur beðið framkvæmdaaðilann Zephyr að meta áhrif vindorkuversins á heilsu fólks. Slík rannsókn er talin kosta um 1 milljón norskra króna sem Zephyr skal að mati stjórnvalda greiða. Þessu fagnar Austnes og segir gott að vita að stjórnvöld taki áhyggjur íbúanna alvarlega.
Leyfi fékkst til byggingar vindorkugarðsins á Haramseyju árið 2009 en það var þó ekki fyrr en tíu árum síðar, árið 2019, sem áformin komust í hámæli og áformunum var ýtt úr vör. Sú ákvörðun kom andstæðingum virkjunarinnar að óvörum. Þeir héldu að horfið hefði verið frá hugmyndinni. Fyrstu hugmyndir gerðu ráð fyrir sextán vindmyllum en síðar kom í ljós að á hluta hins fyrirhugaða framkvæmdasvæðis var of vindasamur og því ákveðið að fækka myllunum í átta. Andstæðingar versins höfðuðu mál á þessum grunni, að framkvæmdaleyfið væri ekki í takti við þá framkvæmd sem nú standi fyrir dyrum. Orkan sem verið á að framleiða er t.d. umtalsvert minni en til stóð.
Framkvæmdastjóri Zephyr í Noregi, Olav Rommetveit, segir framkvæmdirnar hafa verið á teikniborðinu í yfir tvo áratugi. Hann hefur vísað því alfarið á bug að framkvæmdaleyfið nái ekki yfir hin breyttu áform um stærð virkjunarinnar.
Andstæðingar virkjunarinnar segjast hins vegar litlar sem engar upplýsingar hafa fengið á þessum tveimur áratugum fyrr en bréf kom inn um lúguna hjá þeim sem næst búa fjallinu þar sem verið á að rísa. Leyndin er mikil, segja þeir, og svo virðist sem allt hafi verið ákveðið og íbúarnir lítið haft að segja um framhaldið.
„Þeir eru að eyðileggja eyjuna okkar,“ segir Lorgen Giske. Margir íbúar hafa að hennar sögn misst traust á yfirvöldum vegna málsins. Hún er meðal kvenna sem mótmæltu komu stórtækra vinnuvéla á bryggjunni og reyndu, með friðsömum hætti, að koma í veg fyrir að þær kæmu í land. Konurnar ganga nær daglega upp á framkvæmdasvæðið og fylgjast með gangi mála. Taka myndir og skrifa hjá sér. Samskipti þeirra við verkamennina er kurteisisleg.
„Þótt við höfum meirihluta eyjaskeggja með okkur í liði eru nokkrir landeigendur sem hafa samþykkt framkvæmdina,“ segir Austnes. „Þetta er lítið samfélag sem deilurnar hafa klofið. Við verðum að halda áfram að búa hér saman eftir þetta og við verðum að gæta þess að deilurnar verði ekki of ákafar, passa hvað við segjum og gerum því hér tengjast allir með einhverjum hætti. Þetta er flókið.“
Í nýbirtri umfjöllun Teknisk Ukeblad segir að leitað hafi verið eftir viðbrögð landeigenda. Þeir hafi hins vegar ekki viljað koma í viðtal. Segjast hafa orðið fyrir áreiti vegna afstöðu sinnar.