Þrjú mál er varða kynferðislega áreitni eða ofbeldi hafa borist á borð stjórnenda Golfsambands Íslands (GSÍ) á síðustu tíu árum. Fyrsta málið varðar gamalt brot en GSÍ hefur í tveimur málum hvatt aðila til þess að fara með sín mál til sérstaks samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem tók til starfa árið 2020.
Þetta kemur fram í svari GSÍ við fyrirspurn Kjarnans.
Í svarinu segir að fyrir 10 árum hafi verið óskað eftir fundi með forsvarsfólki GSÍ vegna kynferðisofbeldis. „Um var að ræða einstakling sem hafði verið misnotaður um 40 árum áður af manni sem starfaði innan golfhreyfingarinnar. Með fundinum vildi þolandinn upplýsa Golfsambandið um brotið og þau áhrif sem atburðurinn hafði haft á líf hans. Þolandinn hafði þá þegar leitað aðstoðar fagaðila.“
Fram kemur hjá GSÍ að á sama fundi hafi einnig verið upplýst um annað fórnarlamb sama geranda. „Brotamaðurinn hafði þá verið ákærður og hlaut síðar dóm fyrir kynferðisbrot gegn þriðja einstaklingnum. Stjórn Golfsambandsins ákvað í framhaldi af málinu að setja verklagsreglur um mál af þessum toga. Þar sagði meðal annars að ef tilkynningar eða erindi bærust á borð sambandsins er vörðuðu hverslags ofbeldi innan golfhreyfingarinnar væri viðkomandi þolanda bent á að hafa samband við fagaðila og/eða lögreglu.“
Úrbótavinna er hafin – GSÍ fordæmir allt ofbeldi og stendur með þolendum
Samkvæmt svari GSÍ tók sérstakur samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs til starfa árið 2020 og nú skal öllum málum sem berast Golfsambandinu vísað til hans.
GSÍ hefur í tveimur málum hvatt aðila til þess að fara með sín mál til samskiptaráðgjafans, eins og áður segir, en þau snúa bæði að samskiptum einstaklinga við golfklúbba. Einnig hefur Golfsamband Íslands notast við forvarnarefni frá ÍSÍ, að því er fram kemur í svarinu.
„Atburðir síðustu vikna hafa leitt það í ljós að bæta má enn frekar ferla, viðbrögð og fræðslu innan íþróttahreyfingarinnar bæði hvað varðar forvarnir gegn ofbeldi sem og viðbrögð við tilkynningum um atvik og meðhöndlun þeirra. Hafin er ýmis úrbótavinna til að tryggja að allir innan vébanda hreyfingarinnar hafi þau tól og tæki sem þarf til að bregðast rétt við atvikum er upp koma í starfi hreyfingarinnar og auka öryggi allra innan hennar,“ segir í svari GSÍ og vísar þarna í umfjöllun um ásakanir um kynferðislega áreitni og ofbeldi innan KSÍ.
Golfsamband Íslands segist að endingu fordæma allt ofbeldi og standa með þolendum.