Stjórnvöld í Bandaríkjunum eru þegar farin að huga að undirbúningi þess að gefa þurfi „búst“ á bólusetningu gegn COVID-19 um 9-12 mánuðum eftir fyrstu bólusetningu. Slíkt er ekki óalgengt þegar bólusetningar eru annars vegar og kenning um að þess gæti gerst þörf í tengslum við bólusetningu gegn COVID-19 hefur verið til staðar frá upphafi.
Enn er verið að rannsaka hversu lengi vörn bóluefnanna gegn sýkingu af kórónuveirunni varir sem skiljanlega fæst ekki að fullu staðfest nema með tímanum. David Kessler, helsti vísindaráðgjafi Joes Bidens Bandaríkjaforseta sagði á fundi þingnefndar í gærkvöldi að mögulega verði þörf fyrir endurbólusetningu til að efla ónæmi gegn veirunni enn frekar. „Ég held að við ættum að búa okkur undir að það gæti orðið þörf á endurbólusetningu,“ sagði hann á fundi nefndarinnar.
Margir vísindamenn hafa sagt að ein bólusetning gegn COVID-19 muni ekki duga til varnar veirunni til lengri tíma. Þetta hafa íslenskir vísindamenn m.a. sagt.
Umræðan hefur þó orðið kraftmeiri síðustu daga. Albert Bourla, forstjóri lyfjafyrirtækisins Pfizer, sagði í gær að „líklega“ þurfi þriðja skammtinn af bóluefni fyrirtækisins, sem unnið er í samstarfi við þýska líftæknifyrirtækið BioNtech, innan við ár frá fyrstu skömmtunum tveimur. Hann telur einnig líklegt að árlegrar bólusetningar við COVID-19 gæti svo reynst þörf í framhaldinu. „Líkleg sviðsmynd“ er að sögn Bourla sú að þriðja skammtinn þurfi að gefa á bilinu 6-12 mánuðum eftir fyrstu tvo.
Bourla nefndi sem dæmi að bóluefni gegn mænusótt þyrfti aðeins að gefa einu sinni á ævinni en aðra sögu væri að segja um t.d. bóluefni gegn inflúensu. „Kórónuveiran sem veldur COVID-19 líkist meira inflúensuveiru en mænusóttarveiru.“
Kessler, sem er læknir að mennt, segir þetta til skoðunar og þætti á borð við ný afbrigði veirunnar og virkni bóluefna gegn þeim þurfi að meta sérstaklega.
Lyfjafyrirtækið Moderna er einnig að vinna að efni til endurbólusetningar og Johnson & Johnson sagði nýverið að líkur væru á því að gefa þyrfti bóluefni fyrirtækisins árlega.
Kessler segir að bóluefnin sem nú séu gefin vestanhafs séu áhrifarík, einnig gegn nýjum afbrigðum veirunnar sem þegar hafa komið fram. Hins vegar þurfi að fara að huga að þróun „næstu kynslóðar“ bóluefna sem beint verður sérstaklega gegn nýjum afbrigðum.
Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna hefur ákveðið að lyfjafyrirtækin sem þegar hafa fengið skilyrt markaðsleyfi fyrir bóluefni sín í landinu, þurfi ekki að fara aftur í gegnum tímafrekar þriðju fasa rannsóknir með bóluefnin sem verður breytt lítillega til að verjast betur nýjum afbrigðum.
Yfir 125 milljónir manna hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefnum gegn COVID-19 í Bandaríkjunum. Um 78 milljónir eru fullbólusettir.
Lyfjafyrirtækið Moderna greindi frá því í vikunni að virkni bóluefnis þess sé enn góð sex mánuðum eftir bólusetningu. Forstjóri fyrirtækisins, Stéphane Bancel, sagðist binda vonir við að „þriðja sprautan“ yrði tilbúin til notkunar í haust.