Velkomin í Uber Health! Nýja þjónustu farveitunnar Uber sem frá og með deginum í dag verður í boði fyrir lækna í Ástralíu. Það eru þó ekki læknar sem þjónustan beinist fyrst og fremst að heldur sjúklingar þeirra.
Með Uber Health, sem þegar er í boði í Bandaríkjunum, er hægt að „skipuleggja, stjórna og borga fyrir akstur sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna á einum stafrænum stað og tryggja þannig hraðari og straumlínulagaðri þjónustu,“ segir í tilkynningu frá Uber um starfsemina.
Þetta hljómar eflaust vel. Læknirinn getur pantaðan far fyrir sjúkling sinn fram í tímann svo hann komist örugglega í bókaðan tíma. Sjúklingar sem eru ekki færir um að aka sjálfir og treysta sér ekki í almenningssamgöngur, m.a. vegna smitótta, geta beðið rólegir eftir að Uber-bílstjóri keyri þá milli staða.
Sjúklingar þurfa ekki Uber-appið, ef þeir hafa ekki snjallsímtæki, heldur geta fylgst með öllu í gegnum SMS-skilaboð. Þannig er ljóst að þessi nýja þjónusta beinist ekki síst að eldra fólki – fólki sem á ekki bíl, getur einhverra hluta vegna ekki ekið bíl og er ekki með nýjustu gerð af síma.
Margir sérfræðingar í tæknigeiranum hafa lyft brúnum yfir þessari nýju þjónustu í Ástralíu. Þeir efast um að Uber sé treystandi fyrir heilbrigðisupplýsingum væntanlegra farþega sinna. Læknar hafa einnig lagt orð í belg í þessum efnum. Einn þeirra, sem einnig er sérfræðingur í meðferð persónuupplýsinga, segir við dagblaðið Sydney Morning Herald að lög um geymslu og öryggi sjúkragagna séu almennt veikari í Ástralíu en í t.d. Evrópu. „Það er þess vegna sem mörg fyrirtæki eru að reyna að komast inn í heilbrigðisþjónustu þar sem það er mjög arðvænlegt.“
Hylmdu yfir stórum gagnaleka
Talsmenn Uber segjast lofa því að öll gögn um sjúklinga sem þeir munu fá vegna þjónustunnar verði geymd með öruggum hætti. En það róar ekki taugar allra því fyrirtækið hefur í gegnum tíðina orðið uppvíst að ósannindum og bellibrögðum. Árið 2016 varð umfangsmikill gagnaleki hjá Uber sem stjórnendur fyrirtækisins reyndu með ýmsum ráðum að hylma yfir. Hakkarar komust yfir gögn um 57 milljónir notenda farþjónustu Uber. Í þeim hópi voru m.a. Ástralar. Ekki komst upp um gagnalekann fyrr en ári seinna.
Talsmaður Uber í Ástralíu segir að með Uber Health muni skapast mörg atvinnutækifæri. Ráðnir verði fleiri bílstjórar í samræmi við eftirspurn. Uber segist hafa ákveðið að bjóða þjónustuna þar sem vöntun væri á tæknilausnum á þessu sviði.
Fyrir nokkrum árum voru sjúkraskrár gerðar rafrænar í Ástralíu. Tilgangurinn var að treysta stoðir heilbrigðisþjónustunnar svo að heilbrigðisstarfsmenn á hvaða stofnun sem er, hvar sem er í landinu, gætu nálgast upplýsingar um sjúklinga sína.
En einn af hverjum tíu Áströlum treystir ekki yfirvöldum fyrir heilbrigðisupplýsingum sínum og fór fram á að þær yrðu ekki settar í hinn rafræna gagnagrunn.
Munu þeir treysta Uber?