Allir leiðtogar Evrópusambandsríkjanna 27 samþykktu á fundi leiðtogatáðs ESB í dag að veita Úkraínu og Moldóvu formlega stöðu umsóknarríkis hjá Evrópusambandinu. Tillaga þess efnis var samþykkt á fundi leiðtogaráðs sambandsins í Brussel í dag.
Framkvæmdastjórn ESB samþykkti á fundi sínum í síðustu viku tillögu þess efnis að Úkraína og Moldóva fengju formlega stöðu umsóknarríkis. Georgía hefur einnig sótt um aðild en framkvæmdastjórnin lagði ekki til að Georgía fái formlega stöðu umsóknarríkis.
„Sögulegt samkomulag, söguleg ákvörðun,“ skrifar Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, á Twitter, en hann greindi frá ákvörðun leiðtogaráðsins að loknum fundi þess í dag. Tveggja daga fundarlota ráðsins stendur nú yfir.
Historic agreement. Historic decision.
— Charles Michel (@CharlesMichel) June 23, 2022
Today, we have decided to grant candidate status to Ukraine and Moldova.
And we are ready to grant candidate status to Georgia once priorities will be addressed.
🇪🇺🇺🇦🇲🇩🇬🇪#EUCO pic.twitter.com/c5JikGSSyE
Úkraína og Moldóva bætast í hóp Albaníu, Norður-Makedóníu, Svartfjallalands, Serbíu og Tyrklands sem einnig hafa formlega stöðu umsóknarríkis.
Að fá formlega stöðu umsóknarríkis er fyrsta formlega skrefið í átt að Evrópusambandsaðild.
Aðildarríki Evrópusambandsins eru 27 eftir að Bretland sagði skilið við sambandið í ársbyrjun 2020 eftir rúmlega þriggja ára úrsagnarviðræður. Aðildarríkjum fjölgaði síðast árið 2013 þegar umsókn Króatía um aðild var samþykkt árið 2013.
Vsevolod Chentsov, sendiherra Úkraínu gagnvart Evrópusambandinu, segir samþykkt leiðtogaráðsins gefa úkransku þjóðinni andlegan styrk, þó „alvöru innleiðingarferli“ geti ekki hafist fyrr en stríðinu í Úkraínu lýkur. Chentsov segir áræðni Úkraínu í aðildarferlinu eiga að setja fordæmi fyrir önnur ríki sem hafa formlega stöðu umsóknarríkis.
Aðildarumsókn Úkraínu að Evrópusambandinu var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta á Evrópuþinginu nokkrum dögum eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst í lok febrúar. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði innrásina marka nýtt upphaf í Evrópu en ljóst er að aðildarferlið fram undan verður langt og strangt, óháð stríðsátökum.
Úkraína mun til að mynda þurfa að gera ýmsar breytingar, allt frá dómskerfinu til spillingar í stjórnkerfinu. En ljóst er að með hverju skrefinu færist Úkraína skrefi nær Evrópusambandsaðild.