Umboðsmaður Alþingis, Skúli Magnússon, mun ekki hafa frekari afskipti af ákvörðun menningar- og viðskiptaráðherra að skipa Skúla Eggert Þórðarson ríkisendurskoðanda í embætti ráðuneytisstjóra nýs ráðuneytis. Ástæðan er sú að Alþingi kom að ákvörðuninni og tók afstöðu til hennar. Því er það mat umboðsmanns að það sé utan starfssviðs embættisins að fjalla um flutninginn.
Skúli Eggert, sem verið hefur ríkisendurskoðandi frá árinu 2018, var í lok janúar skipaður ráðuneytisstjóri nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis og hóf þar störf þann 1. febrúar. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði í embættið.
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu í lok janúar kom fram að ákvörðun um flutning Skúla Eggerts í embætti ráðuneytisstjóra hafi verið tekin á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um heimild til flutnings embættismanna ríkisins milli starfa.
Óljóst hvaða lagalegi grundvöllur væri fyrir skipununum
Sama dag og Skúli Eggert hóf störf óskaði umboðsmaður Alþingis eftir skýringum á lagalegum grundvelli fyrir skipan eða tímabundinni setningu nýs ráðuneytisstjóra. Sams konar bréf sendi hann á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra vegna ákvörðunar hennar að skipa Ásdísi Höllu Bragadóttur í tímabundið embætti ráðuneytisstjóra í sínu nýja ráðuneyti.
Af bréfum umboðsmanns til ráðherranna tveggja mátti merkja að hann áttaði sig ekki fyllilega á því hvaða lagalegi grundvöllur hafi verið fyrir þessum skipunum og setningu í embætti – að minnsta kosti óskaði hann skýringa og höfðu ráðuneytin frest til 11. febrúar til að skýra á hvaða lagagrundvelli ákvarðanirnar voru teknar.
Í bréfi sem menningar- og viðskiptaráðuneytið sendi umboðsmanni 10. febrúar kemur fram að Lilja hafi óskað eftir því við forseta Alþingis að Skúli Eggert yrði fluttur úr embætti ríkisendurskoðunar til forseta Alþingis sem fallist var á með bréfi 27. janúar með vísan til 36. greinar laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem segir meðal annars að stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, geti flutt embættismann í annað starf án auglýsingar, enda liggi fyrir ósk eða samþykki embættismannsins sjálfs.
Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingar vakti athygli á skipan ríkisendurskoðanda á Alþingi, daginn sem Skúli Eggert hóf störf. Jóhann Páll fullyrti að verið væri að misbeita fyrrnefndri 36. grein laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með skipan ríkisendurskoðanda í ráðuneytisstjóraembættið og setja „hættulegt fordæmi“.
Utan starfssviðs umboðsmanna að fjalla um málið vegna aðkomu Alþingis
Umboðsmaður sendi Lilju Alfreðsdóttur bréf á fimmtudag þar sem fram kemur að athugun hans á skipan þáverandi ríkisendurskoðanda í embætti ráðuneytisstjóra nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis sé lokið.
Í tilkynningu á heimasíðu Umboðsmanns Alþingis kemur fram að eftir að umboðsmaður hóf athugun sína barst honum tilkynning frá Alþingi þar sem aðkomu þingsins að ákvörðuninni að skipa Skúla Eggert ráðuneytisstjóra var lýst, auk þess sem fram kom afstaða til þeirra lagasjónarmiða sem byggt var á við flutninginn.
Í bréfinu segir meðal annars að í ljósi aðkomu og afstöðu þingsins verði ekki hjá því komist að líta svo á að það falli utan við starfssvið umboðsmanns, þar sem það taki ekki til starfa Alþingis, að fjalla um ákvörðun ráðherra að skipa viðkomandi með þeim hætti sem gert var og án undangenginnar auglýsingar. Ekki séu því lagaskilyrði til þess að embætti umboðsmanns geti haldið athugun sinni áfram.
Umboðsmaður tekur þó fram að með niðurstöðunni hefði engin efnisleg afstaða verið tekin til atvika málsins eða þeirra skýringa sem hefðu verið færðar fram vegna þess.
Engin aðkoma Alþingis í skipun Ásdísar Höllu í nýtt ráðuneyti
Niðurstaða í máli háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem skipaði Ásdísi Höllu Bragadóttur, fyrrverandi bæjarstjóra í Garðabæ, sem ráðuneytisstjóra til þriggja mánaða án undangenginnar auglýsingar, var hins vegar allt önnur. Þar kom Alþingi ekki að ákvörðuninni og komst Umboðsmaður Alþingis að því að Áslaug Arna hafi brotið lög með því að setja Ásdísi Höllu sem ráðuneytisstjóra.
Áslaug Arna setti Ásdísi Höllu í embættið í lok janúar. Starfið var svo auglýst laust til umsóknar 3. febrúar og er Ásdís Halla meðal þeirra átta sem sækjast eftir starfinu. Áður hafði Ásdís Halla verið ráðin verkefnastjóri við undirbúning ráðuneytisins, sem er nýtt, í byrjun desember í fyrra.
Í áliti umboðsmanns segir að aðrar leiðir hefðu verið færar til að ekki væri gengið gegn ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. „Við stofnun ráðuneytisins hefði orðið til nýtt embætti og ekki yrði séð að lögbundnar undantekningar frá því að auglýsa það laust til umsóknar, og setja tímabundið í embættið á þeim grundvelli sem ráðuneytið byggði á, ættu við um þá stöðu sem var uppi.“