Fyrirtækið Qair Iceland ehf. áformar að reisa um 78-95 MW vindorkuver innan 3.528 hektara svæðis að Hvammi í Borgarbyggð á Vesturlandi. Verkefnið kallast Múli og liggur Þjóðvegur 1 meðfram jaðri hins fyrirhugaða framkvæmdasvæðis. Nokkur bóndabýli og sumarhús eru einnig í jaðri þess, og fáein býli eru innan þess. Næsti þéttbýlisstaður er Borgarnes, í um 39 kílómetra fjarlægð til suðvesturs og Háskólinn á Bifröst er 10,5 kílómetra til vesturs af þróunarsvæðinu.
Gert er ráð fyrir að reistar verði í kringum 13-17 vindmyllur í einum áfanga. Í matsáætlun framkvæmdarinnar, sem lögð hefur verið fram til Skipulagsstofnunar, kemur fram að vindmyllurnar verði um 200 metra háar. Hæst nær framkvæmdasvæðið upp í um 750 metra hæð yfir sjávarmáli en lægst er það í 150 metra hæð. Í matsáætluninni, sem er eitt fyrsta skrefið í umhverfismati framkvæmda, kemur fram að fjarlægð vindmylla frá mannabústöðum verði að lágmarki 500 metrar.
Ekkert vindorkuver hefur verið reist á Íslandi ef frá eru taldar tvær vindmyllur sem reistar voru í Þykkvabæ árið 2014. Þær skemmdust báðar í eldi nýverið. Þá reisti Landsvirkjun tvær vindmyllur í Hafinu, hraunsléttu norðan við Búrfell, í rannsóknarskyni árið 2013.
Fjölmörg vindorkuverkefni eru á teikniborðinu um allt land en ágreiningur hefur verið um hvort að þau eigi að fara í ferli rammaáætlunar eður ei. Verkefnisstjórn 4. áfanga áætlunarinnar bárust 34 vindorkukostir til mats og var verkefnið Múli í Borgarbyggð eitt þeirra. Stjórnin taldi hins vegar nægjanleg gögn aðeins hafa fylgt fimm þeirra og Múli var ekki þar á meðal.
„Þótt vindurinn sé óþrjótandi er land undir vindorkuver það ekki,“ skrifaði Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnarinnar, í inngangi skýrslu stjórnarinnar síðasta vor. „Landið er hin takmarkaða auðlind í þessu tilfelli. Vindmyllur eru nú um 150 m háar og fara hækkandi. Þær eru því afar áberandi í landslagi og sjást víða að. Vindorkuver munu valda miklum breytingum á ásýnd landsins ef ekki verður varlega farið.“
Verkefnisstjórnin taldi brýnt að sett yrði heildarstefna um virkjun vindorku og að ígrunduð ákvörðun yrði tekin um hvort afmarka eigi fá skilgreind svæði fyrir vindmyllur eða setja því litlar skorður hvar vindorkuver fái að rísa. „Nú er einstakt tækifæri að setja slíka stefnu áður en framkvæmdir hefjast víða um land,” skrifaði Guðrún.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kemur fram að setja eigi sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiði að „einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku“. Leggja á áherslu á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verði að tryggja afhendingaröryggi. „Mikilvægt er að breið sátt ríki um uppbyggingu slíkra vindorkuvera og tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru. Í því samhengi verður tekin afstaða til gjaldtöku fyrir slíka nýtingu. Stefna verður mótuð um vindorkuver á hafi.“
Í matsáætlun Qair um vindorkuverið Múla segir að við val á staðsetningu hafi ekki einungis verið horft til þátta er varða rekstur vindorkugarðs, s.s. nægs vinds, nálægðar við flutningskerfi og góðs aðgengis að svæðinu, heldur var einnig áhersla lögð á þætti eins og fjarlægðir frá mikilvægum náttúru- og menningarminjum, fjarlægðir frá þéttbýlum og mikilvægum viðkomustöðum tengdum ferðaþjónustu. „Múli er talinn uppfylla þessi skilyrði, en fyrirhugaður vindorkugarður þykir vera í hæfilegri fjarlægð frá þéttbýli og eftirtektarverðum áningarstöðum en á sama tíma hæfilega nálægt tengivirki Landsnets sem staðsett er í bæði Hrútatungu og Vatnshömrum.“ Þá kemur fram að gott aðgengi sé að svæðinu sem sé mikill kostur á rannsóknar-, framkvæmdar- og rekstrartíma.
Í gildandi aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022 er ekki gert grein fyrir framkvæmdum við vindorkugarðinn Múla. Þróunarsvæðið er að stærstum hluta skilgreint sem landbúnaðarsvæði en einnig að hluta til sem frístundabyggð og óbyggt land. Á svæðinu er einnig skóglendi í eigu og umsjón Skógræktar ríkisins.
Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir fyrirhugað framkvæmdasvæði og vinna við slíkt þarf því að fara fram þar sem gerð yrði grein fyrir vindmyllum og öðrum mannvirkjum, svo sem vegum og tengingum við flutningskerfi.
Óvíst hvenær framkvæmdir myndu hefjast
Áætlað er að umhverfismatsskýrsla verði send til athugunar Skipulagsstofnunar í lok árs 2023 og að álit Skipulagsstofnunar geti legið fyrir á vormánuðum 2024. Á þessu stigi er óvíst hvenær framkvæmdir myndu hefjast. Hins vegar má gera ráð fyrir að framkvæmdatími verði um 12 mánuðir sem líklega muni dreifast yfir tveggja ára tímabil. Að því loknu er áætlað að rekstur vindorkugarðsins geti hafist og standi yfir í að minnsta kosti 25 ár. Eftir þann tíma verður rekstri annaðhvort haldið áfram eða hætt og vindorkugarðurinn þá tekinn niður, vindmyllurnar teknar í sundur og fluttar á brott.
Almenningur getur skilað inn athugasemdum við matsáætlunina og samhliða kynningunni mun Skipulagsstofnun einnig leita umsagna ýmissa stofnanna. Framkvæmdaraðili mun kynna framkvæmdina á opnum streymisfundi 10. febrúar kl. 20:00. Vefslóðin á fundinn er: www.efla.is/streymi.
Qair Iceland ehf (áður Quadran Iceland Development ehf.) er dótturfélag franska fyrirtækisins Qair SA sem sérhæfir sig í þróun, fjármögnun, byggingu og rekstri raforkuvera um heim allan. Qair SA er með aðstöðu í 16 löndum og er um þessar mundir að þróa eða byggja orkuver í Suður-Ameríku, Austur-Evrópu, Norður-Evrópu, Afríku og Austur-Asíu.
Eins og er stendur Qair Iceland ehf. að þróun nokkurra vindorkugarða á Íslandi.