Fjármálaráðherra Namibíu, Iipumbu Shiimi, segir að ríkisstjórn landsins sé sannfærð um að uppboð á kvóta verði áfram rétta fyrirkomulagið til þess að úthluta kvóta til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð landsins.
Hann tjáð namibíska þinginu í vikunni að í nýlegum uppboðum á alls rúmlega hundrað þúsund tonnum af kvóta í þremur fisktegundum hefðu alls fengist 408 milljónir namibískra dala, jafnvirði tæplega 3,5 milljarða íslenskra króna, fyrir tímabundin afnot aflaheimilda.
Frá þessu segir í fréttum miðlanna Namibian Sun og The Namibian, en athygli vakti fyrir rúmu ári síðan er fyrsta tilraun stjórnvalda í Namibíu til þess að standa fyrir uppboði á aflaheimildum fór gjörsamlega í vaskinn og skilaði sáralitlum tekjum.
Uppboðið átti að vera leið til aukins gagnsæis varðandi úthlutun aflaheimilda til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, eftir að Fishrot-skandallinn, eða mál Samherja í Namibíu, kom upp á yfirborðið.
Klúðrið í fyrra uppboði fólst í því að nær allir þeir aðilar sem buðu í aflaheimildirnar reyndust tómhentir þegar á hólminn var komið og komið var að því að greiða fyrir þær – og skildu ríkisstjórnina eftir með „egg á andlitinu“, eins og það var orðað í umfjöllun The Namibian.
Komist var hjá þessum vanda nú með því að innheimta tryggingafé af þeim aðilum sem buðu í kvótann.
Ríkisstjórn Kongó tók rúm 27 þúsund tonn
Alls voru boðnar upp aflaheimildir fyrir 15.948 tonn af lýsingi, 87.500 tonn af hrossamakríl og 392 tonn af skötusel á uppboðum sem fóru fram frá því í júní og fram í lok ágúst, samkvæmt orðum ráðherrans.
Ekki tókst þó að selja allan hrossamakrílkvótann á uppboði til innlendra aðila, en samningar náðust við ríkisstjórn Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó um að kaupa þann 27.300 tonna kvóta sem út af stóð fyrir 85,7 milljónir namibískra dala.
Samkvæmt frétt namibíska blaðsins New Era frá því í september var ekki full sátt með söluna á kvótanum til Kongómanna hjá aðilum í namibískum sjávarútvegi, en þó var búist við því að namibísk fyrirtæki yrðu fengin til að veiða aflann, þrátt fyrir að honum yrði síðan landað í hafnarborginni Matadi í Kongó.
„Ágóðinn af uppboðunum mun renna til forgangsverkefna stjórnvalda, sérstaklega í heilbrigðisgeiranum, sem þarf á auknum fjármunum að halda til að glíma við COVID-19,“ sagði ráðherrann þinginu.
Fréttin hefur verið uppfærð: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var því ranglega haldið fram, vegna villu í útreikningum blaðamanns, að ríkisstjórn Kongó hefði keypt hrossamakrílskvóta á því verði sem var meðalverð á þeim uppboðum sem namibísk stjórnvöld stóðu fyrir. Hið rétta er að Kongómenn greiddu hærra verð en fékkst í uppboðunum.