Innrás Rússa í Úkraínu er helsti drifkraftur hækkunar á kornverði í heiminum en verð á innfluttu korni hefur hækkað um um það bil 40 prósent síðasta hálfa árið. Þetta segir Þórir Haraldsson forstjóri Líflands í samtali við Kjarnann. Fyrirtækið starfrækir einu kornmyllu landsins í Korngörðum í Reykjavík þar sem það framleiðir hveiti úr innfluttu hveitikorni undir merkjum Kornax. Lífland framleiðir einnig fóður
„Ef þú ferð svona ríflega hálft ár aftur í tímann þá er þetta allt upp undir 40 prósent hækkun. Stóra hækkunin kom náttúrlega rétt upp úr því að stríðið byrjaði í Úkraínu, það var búin að vera smá hækkun fyrir þann tíma en stærsta hækkunin kom þar,“ segir Þórir um þróun kornverðs á undanförnum mánuðum.
Verðhækkun á innfluttu korni skilar sér eðli málsins samkvæmt út í verðið á hveiti á innanlandsmarkaði. „Það er bara þannig að okkar álagning hefur minnkað í gegnum árin og við höfum ekkert svigrúm til að taka á okkur þessar hækkanir, þær fara nánast beint út í verðið,“ segir Þórir.
Korn til hveitigerðar þarf að standast ákveðnar kröfur
Að hans sögn eru litlar líkur á því að skortur verði á innfluttu korni á komandi misserum, hvorki til hveiti- eða fóðurgerðar. Hann bendir þó á að það hafi reynst örlítið þyngra að fá gott hráefni til hveitiframleiðslu upp á síðkastið. Ólíkar kröfur eru gerðar til kornsins sem notað er til að framleiða fóður annars vegar og hveiti hins vegar. Þannig séu mun meiri kröfur gerðar til kornsins sem er malað í hveiti. „Hveitikornið sem býr til hveitið sem maður bakar úr, það þarf að standast staðla sem snúa að vatnsbindingu, glúteninnihaldi og öðrum þáttum þannig að deigið hefi sig rétt.“
Þórir á ekki von á því að verðið á korni lækki í bráð, það geti þó breyst á skömmum tíma. „Bara ef uppskeran lítur út fyrir að vera betri á þeim svæðum sem framleiða hveiti þá getur það haft einhverja þýðingu,“ segir hann og bætir því við að það sé mat birgja Líflands að verðið á hveiti muni ekki lækka fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári ef stríðsátökum í Úkraínu munni linna fljótlega.
Verðbólga og stýrivextir hafa hækkað hratt
Verð á matvöru hefur hækkað nokkuð skarpt að undanförnu. Síðasta verðkönnun ASÍ sem framkvæmd var í fyrri hluta þessa mánaðar leiddi í ljós að frá síðustu könnun þar á undan sem framkvæmd var í október í fyrra hefur matvöruverð hækkað um fimm til 16,6 prósent í þeim verslunum sem könnunin nær til en þær eru átta talsins. Verð hækkaði í öllum verslununum átta.
Þá hefur verðbólga ekki mælst hærri hér á landi í tólf ár, frá því í apríl árið 2010. Í maí mældist ársverðbólga 7,9 prósent en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,77 prósent á milli apríl og maí. Hagstofan birtir upplýsingar um þróun vísitölu neysluverðs í júní á miðvikudag í næstu viku. Til þess að stemma stigu við verðbólgunni hefur Seðlabankinn svo hækkað stýrivexti hressilega, nú síðast um heilt prósentustig. Þeir eru nú 4,75 prósent og hafa ekki verið hærri í fimm ár. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar frá því á miðvikudag var sterklega gefið til kynna að frekari vaxtahækkanir kunni að vera fram undan ef þurfa þykir til að hemja verðbólguna.