„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur ítrekað komið skoðunum sínum á framfæri við Arion banka varðandi rekstur kísilversins,“ segir Friðjón Einarsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarstjórninni og formaður bæjarráðs. Hann segir enn mikla andstöðu við hugmyndir bankans um að endurræsa starfsemina bæði meðal bæjarfulltrúa og íbúa. „Við höfum óskað formlega eftir samstarfi við bankann um að rífa verksmiðjuna og hefja samstarf um atvinnuþróun í Helguvík. Því miður hefur það ekki gengið eftir.“
Mati á umhverfisáhrifum á þeim áformum Stakksbergs, sem er í eigu Arion banka, að endurbæta, endurræsa og stækka kísilverksmiðjuna í Helguvík lauk með áliti Skipulagsstofnunar sem gefið var út á gamlársdag. Friðjón segir hljóðið í bæjarbúum „mjög dapurt“. Afstaða til verksmiðjunnar hafi verið könnuð reglulega undanfarin ár og hefur alltaf verið á sama veg: Íbúarnir eru alfarið á móti endurræsingu kísilversins.
Fyrirhugaðar endurbætur Arion banka á kísilverksmiðjunni eru að mati Skipulagsstofnunar líklegar til að fækka tilvikum sem ljósbogaofn er stöðvaður og stytta tíma sem hann keyrir á skertu afli. Þá segir hún áform um að losa útblástur um skorsteina en ekki um rjáfur síuhúss, sem bætt var við vegna aðfinnslu Umhverfisstofnunar, líkleg til að leiða til mun betri dreifingar útblástursefna, stöðugri reksturs verksmiðjunnar og stuðla að bættum loftgæðum frá því sem áður var. Engu að síður er það álit stofnunarinnar að áhrif við rekstur 1. áfanga verði nokkuð neikvæð og áhrif fullrar framleiðslu fjögurra ofna talsvert neikvæð.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur ekki enn fengið ósk Arion banka um breytingu á deiliskipulagi né aðrar óskir bankans um formlega afstöðu, segir Friðjón. Slíkra umsókna er nú beðið. „Við erum í flókinni stöðu þar sem vald sveitarfélagsins liggur fyrst og fremst í skipulagi lóða,“ segir hann spurður um hvernig bæjaryfirvöld geti stigið inn í málið á þessu stigi. Hann bendir á að engir samningar séu í gildi í dag, hvorki við höfnina né sveitarfélagið.
„Við munum reyna allt sem við getum til að stöðva endurræsingu og munum áfram biðla til bankans að hætta við hana,“ segir Friðjón. „Að mínu mati á bankinn engan rétt í þessu máli og fáránlegt í raun að bankinn hlusti ekki á íbúa svæðisins.“
Hann minnir á að það hafi verið Arion banki sem fjármagnaði rekstur verksmiðju United Silicon á sínum tíma „verkefni sem mistókst hrapalega og ber sem slíkur mikla ábyrgð hvernig fór. Ég trúi ekki að fjárfestar komi að verkefninu vitandi að sveitarfélagið og íbúar flestir eru alfarið á móti rekstri þess í túnfætinum.“
Bæjaryfirvöld Í Reykjanesbæ hafa að sögn Friðjóns heyrt af áhuga erlendra aðila sem vilja kaupa verksmiðjuna og flytja úr landi. „Sveitarfélagið hefur lýst yfir áhuga á að fylgja því máli eftir en bankinn dregur fæturna.“
Kjarninn greindi frá því í morgun að PCC SE, meirihlutaeigandi PCC BakkiSilicon hf., kísilversins á Húsavík, hefur áhuga á að kaupa kísilmálmverksmiðjuna í Helguvík. Friðjón sagðist í samtali við Kjarnann í gær hafa heyrt af þeim áformum og hafa tjáð forsvarsmönnum PCC „að áhugi sveitarfélagsins er enginn né heldur íbúa. Við munum berjast til síðasta blóðdropa“.
Hann segir það hlutverk yfirvalda að gæta að heilsu íbúa og það hlutverk taki bæjarstjórnin alvarlega. „Bæjaryfirvöld munu skoða sína stöðu og beita öllum leiðum til að stöðva endurræsingu.“