Meirihluti byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar fer fram á að Alþingi breyti framkominni þingsályktunartillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar á þann veg að Skagafjarðarvirkjanir fari í biðflokk og verði þar með rannsakaðar til fulls, sem aftur verði grundvöllur ákvarðanatöku síðar meir um hvort þessir kostir verði hagnýttir til orkuöflunar eða þeir látnir njóta verndar.
Þrjár virkjanahugmyndir í Héraðsvötnum, Skatastaðavirkjanir C og D og Villinganesvirkjun eru í verndarflokki þingsályktunartillögu rammaáætlunar sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi. Hann er fjórði umhverfisráðherrann sem leggur fram sömu tillöguna sem byggir á lokaskýrslu og tillögu verkefnisstjórnar sem skilað var í ágúst árið 2016.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá því í nóvember er að finna loforð um að lokið verði við þriðja áfanga rammaáætlunar. Því er hins vegar bætt við, í sömu setningu, að kostum í biðflokki verði fjölgað.
Hægt er að hreyfa við flokkun virkjanakosta í rammaáætlun svo lengi sem Orkustofnun hefur ekki gefið út virkjanaleyfi fyrir kosti í nýtingarflokki og svæði í verndarflokki hafi ekki verið friðlýst með lögum.
Í nýrri umsögn byggðarráðs sveitarfélagsins Skagafjarðar við þingsályktunartillöguna er bent á að einn virkjanakostur á vatnasviði á Norðurlandi vestra sé í orkunýtingarflokki og einn virkjanakostur í vindorku. Er þar um að ræða annars vegar veituleið Blönduvirkjunar og hins vegar Blöndulund, kosti á vegum Landsvirkjunar. Fjórar séu hins vegar í verndarflokki, allir einnig á vegum Landsvirkjunar, en auk virkjanna í Héraðsvötnum er kosturinn Blanda – veita úr Vestari Jökulsá, sem er reyndar einnig á vatnasviði Héraðsvatna, þar einnig að finna.
Svokölluð Skatastaðavirkjun C er í biðflokki núgildandi rammaáætlunar sem samþykkt var á Alþingi árið 2013 þar sem talin var þörf á frekari upplýsingum um áhrif á lífríki flæðiengja nærri árósum. Vatnasvið Héraðsvatna fékk hins vegar hæsta verðmætamat allra landsvæða sem fjallað var um af faghópi þriðja áfanga rammaáætlunar.
Virkjunarkosturinn er á svæði sem er óbyggt víðerni samkvæmt lagalegri skilgreiningu. Virkjun á svæðinu myndi hafa í för með sér umtalsvert rask á hálendi, svo og á sífrerarústum og fleiri fyrirbærum sem Íslendingar bera alþjóðlega ábyrgð á. Virkjun myndi slíta sundur vistkerfi og samfélög lífvera, hafa mikil neikvæð áhrif á vistgerðir með verulegt verndargildi skv. náttúruverndarlögum og valda mikilli röskun vegna breytinga á rennsli og framburði, sérstaklega á flæðiengjum sem hafa mikið vistfræðilegt gildi og eru þær umfangsmestu á landinu. Þá gætu framkvæmdirnar spillt stórum minjaheildum í Austur- og Vesturdal frá árunum 870-1400, sem jafnvel eru einstakar á heimsvísu. Einnig yrði mikil skerðing á sjónrænni fjölbreytni og á fágætum landslagsgerðum.
Í niðurstöðum annars faghóps kemur fram að jökulsárnar í Skagafirði séu bestu ár á landinu, og jafnvel í Evrópu, til flúðasiglinga og að Jökulsá eystri sé sú eina á landinu þar sem hægt er að fara í tveggja daga siglingu. Árnar séu því mjög mikilvægar fyrir ferðaþjónustu bæði á landsvísu og í héraði. Virkjun þessara vatnsfalla myndi því í raun hafa meiri áhrif en meðaltal áhrifaeinkunna faghópsins gefur til kynna.
Í kynningu Landsvirkjunar á Skatastaðavirkjunum kemur fram að minna rennsli að sumarlagi geti haft áhrif á fljótasiglingar í Austari Jökulsá en „aðgengi að hálendinu mun batna til muna“.
Í kafla um setmyndum og aurburð segir að stór hluti aurs í Austari Jökulsá muni falla út í Bugslóni (líklega minnst 80 prósent) og sömuleiðis mun eitthvað draga úr framburði aurs í Vestari Jökulsá vegna Fossáarveitu. „Minni framburður grófefnis gæti minnkað eða stöðvað framgang strandar við botn Skagafjarðar.“ Lónið yrði 26 ferkílómetrar, lengd stíflu 2,4 km og mesta hæð stíflu 75 metrar. Til samanburðar er Hallgrímskirkja 74,5 metrar á hæð.
Skatastaðavirkjun D er tilbrigði við Skatastaðavirkjun C. Með henni yrði lægra fall virkjað og þannig haldið opnum möguleika á annarri virkjun í Héraðsvötnum, Villinganesvirkjun. Báðir þessir kostir eru einnig í biðflokki núgildandi rammaáætlunar.
Fjórði virkjanakosturinn í Skagafirði sem er í verndarflokki þingsályktunartillögunnar, Blanda – veita úr Vestari Jökulsá, var ekki kominn til sögunnar er 2. áfangi var samþykktur.
Byggðarráðið bendir á í umsögn sinni að með því að setja virkjanakostina fjóra í verndarflokk er stjórnvöldum ekki lengur heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum. „Með öðrum orðum, nái tillaga ráðherra fram að ganga, verður með öllu óheimilt um ófyrirséða framtíð að stunda orkurannsóknir á þeim virkjunarkostum sem lagðir eru til að fari í verndarflokk á Norðurlandi vestra, nema fyrir Orkustofnun til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu, í samanburðartilgangi eða öðrum almennum tilgangi,“ segir í umsögninni. „Er grafalvarlegt að umhverfisráðherra horfi í þingsályktunartillögu sinni með öllu fram hjá þeirri staðreynd að orkuskortur hefur orðið víða um land og að virkjanir og flutnings- og dreifikerfi raforku anna ekki eftirspurn víða á landsbyggðinni. Orkuskortur kann því að hamla bæði atvinnuuppbyggingu og orkuskiptum, s.s. rafbílavæðingu.“
Gísli Sigurðsson Sjálfstæðisflokki og Ingibjörg Huld Þórðardóttir Framsóknarflokki samþykktu bókun byggðarráðsins þar sem farið var fram á að Alþingi breyti þingsályktunartillögunni á þann veg að Skagafjarðarvirkjanirnar fari í biðflokk rammaáætlunar. Ólafur Bjarni Haraldsson, fulltrúi Byggðalistans, sat hjá. Álfhildur Leifsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna og óháðra sat einnig hjá en lét bóka að hún fagnaði tillögu verkefnisstjórnar að færa Héraðsvötn í verndarflokk. „Héraðsvötnin eru verðmæt náttúruauðlind fyrir héraðið og koma til með að auka verðmæti sitt óspillt til framtíðar.“