„Ég á Eggerti mikið að þakka og ég vona að hann viti það,“ segir Vítalía Lazareva í færslu á Twitter. Í færslunni birtir hún hlekk á umfjöllun Mannlífs þar sem ýjað er að því að nokkuð óvænt tíðindi um starfslok Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra Festi, tengist frásögn Vítalíu af kynferðisofbeldi í janúar þar sem hún sagði sig hafa orðið af hendi þriggja manna. Einn þeirra, Þórður Már Jóhannesson, var stjórnarformaður Festi.
Kjarninn fjallaði um málið í byrjun janúar en Vítalía steig fram og greindi frá meintu ofbeldi í viðtali hjá Eddu Falak í hlaðvarpinu Eigin konum þann 4. janúar síðastliðinn.
Hún nafngreindi ekki mennina í viðtalinu en í kjölfarið voru þeir nafngreindir í fjölmiðlum. Auk Þórðar var um ræða Ara Edwald, forstjóra Ísey skyr, og Hreggvið Jónsson, stjórnarformann og aðaleiganda Veritas. Í dag hafa allir þrír stigið til hliðar úr ábyrgðarstöðum.
Einn fárra sem hlustaði
Í færslu sinni á Twitter dag segir Vítalía að Eggert Þór hafi verið einn fárra sem talaði við hana án þess að þekkja hana eftir að hún greindi frá kynferðisofbeldinu. Hann hafi hlustað og gefið henni tækifæri til að segja hennar hlið þegar Þórður „var búinn að leggja allt aðra sögu á borðið hjá stjórninni.“ Vítalía segist eiga Eggerti mikið að þakka og vonar hún að hann viti það.
Einn af þeim fáu mönnum sem talaði við mig án þess að þekkja mig, hlustaði og gaf mér tækifærið á að segja mína hlið þegar ÞMJ var búinn að leggja allt aðra sögu á borðið hjá stjórninni.
— Vítalía Lazareva (@LazarevaVitalia) June 4, 2022
Ég á Eggerti mikið að þakka og ég vona að hann viti það.
Þetta er spilling og ekkert annað pic.twitter.com/VeNXLdmrTJ
Kjarninn hóf að spyrjast fyrir um ásakanirnar í október í fyrra eftir að Vítalía birti frásögn á Instagram af kynferðisofbeldi. Þar sagði hún þrjá menn hafa beitt sig ofbeldi í heitum potti og í sumarbústað. Í frásögninni fer hún yfir aðdraganda þess að hún endaði með þeim þennan dag og í lok hennar nefnir hún þá alla á nafn. Auk þess nefndi hún á nafn giftan mann, einkaþjálfarann Arnar Grant, sem hún átti í ástarsambandi við, og fékk hana til að koma á þann stað sem meint brot fóru fram.
Færslan var síðar tekin niður af Instagram en hluti hennar er enn aðgengilegur á Twitter-síðu Vítalíu. Þar voru nöfn mannanna hins vegar ekki birt. Þar segir meðal annars að henni hafi verið ráðið frá „því að segja frá og leita lengra vegna þess að aðilar þessir eru valdamiklir í samfélaginu og allir fjölskyldumenn“.
Almannatengill ráðlagði mönnunum að þegja málið af sér
Skjáskot af frásögn hennar fóru sem eldur í sinu um íslenskt samfélag. Í stórum hópum var fátt annað rætt í margar vikur á eftir en hvar þetta mál stæði. Ekkert var hins vegar fjallað um málið í fjölmiðlum, þrátt haft hafi verið samband við mennina fjóra, meðal annars frá blaðamanni Kjarnans. Viðbrögðin voru engin. Þeir svöruðu ekki.
Heimildir Kjarnans herma að það hafi verið gert að ráði almannatengils sem hafi sagt mönnunum að segja að þetta væri kjaftasaga. Best væri að þegja málið af sér.
Kjarninn leitaði svara hjá stjórn Festi strax í nóvember og spurði hvort vitneskja væri innan stjórnar varðandi þetta mál og hvort stjórnin hyggðist bregðast við með einhverjum hætti. Eftir margar ítrekanir svaraði Guðjón Reynisson varaformaður stjórnar þann 17. desember. Í svari hans sagði: „Það er rétt að umfjöllunin sem spurt er um hefur verið til skoðunar, en við getum ekki tjáð okkur að svo stöddu.“ Vísar hann þarna í umfjöllun Stundarinnar frá 17. nóvember.
Ásakanir á hendur Þórði Má ítrekað ræddar í stjórn Festi
Stjórn Festi hélt stjórnarfund fimmtudaginn eftir að málið komst í hámæli í fjölmiðlum og greindi stjórnin frá því samdægurs að Þórður Már hefði óskað eftir því að láta af störfum sem stjórnarmaður í félaginu og um leið sem stjórnarformaður. „Stjórn féllst á erindið. Í kjölfarið skipti stjórn með sér verkum upp á nýtt. Guðjón Reynisson var kjörinn nýr formaður stjórnar og Margrét Guðmundsdóttir varaformaður,“ sagði í tilkynningu frá Festi.
Heimildir Kjarnans herma að ásakanir á hendur Þórði Má hafi ítrekað verið ræddar í stjórn Festi en hann vildi ekki stíga til hliðar sem stjórnarformaður þrátt fyrir þrýsting þar um. Auk þess voru hluthafar í félaginu í sambandi við stjórnarmenn og þrýst á aðgerðir, en án árangurs.
Í tilkynningu eftir stjórnarfund félagsins 6. janúar, tveimur dögum eftir að Vítalía greindi frá kynferðisofbeldinu í hlaðvarpinu Eigin Konum, greindi stjórnin frá því að Þórður Már hefði óskað eftir því að láta af störfum sem stjórnarformaður í félaginu og um leið sem stjórnarformaður.
„Stjórn Festi fordæmir allt ofbeldi“
Viku seinna barst Kauphöllinni tilkynning frá Festi þar sem fram kom að fyrirtækið ætlaði að endurskoða starfsreglur. Í tilkynningunni sagði að þungbært hefði verið að heyra um reynslu Vítalíu. „Skýr skilaboð hafa komið frá samfélaginu um að fyrirtæki sem tengjast slíkum málum bregðist fyrr við og taki á málum með skýrari og ákveðnari hætti. Stjórn Festi fordæmir allt ofbeldi og telur mikilvægt að hlustað sé á þolendur. Það er skylda okkar að breytast með samfélaginu og í sameiningu eigum við að búa til öruggara umhverfi fyrir okkur öll,“ sagði meðal annars í tilkynningunni.
Síðastliðinn fimmtudag greindi Festi frá því í tilkynningu til Kauphallarinnar að Eggert Þór hafi sagt starfi sínu lausu frá 1. ágúst næstkomandi og að gert hafi verið samkomulag um starfslok hans.
Eggert Þór hóf störf hjá N1 árið 2011 sem fjármálastjóri og varð forstjóri félagsins árið 2015. N1 keypti svo gamla Festi, þ.e. ELKO, Krónuna, Festi fasteignir og Bakkann vöruhótel árið 2018 og tók nýja móðurfélagið upp nafnið Festi. Haft er eftir Eggert í tilkynningu að það hafi verið „stefnumótandi og mikilvæg kaup til að undirbúa félagið að orkuskiptum og þeim breytingum sem eru að verða í okkar samfélagi.“
„Ég hef verið lánssamur að vinna með frábæru samstarfsfólki á þessum árum sem hafa gert Festi og dótturfélög af því sem þau er í dag. Ég mun sakna þess að vinna með þessu fólki en er einnig spenntur fyrir því sem framtíðin ber í skauti sér,“ er einnig haft eftir Eggerti.
„Þetta er spilling og ekkert annað,“ segir Vítalía í færslu sinni. Sem fyrr segir deilir hún frétt Mannlífs þar sem gefið er í skyn að starfslok Eggerts tengist frásögn Vítalíu af kynferðisofbeldinu.
Vítalía hefur lagt fram kæru á hendur Þórði, Hreggviði og Ara. „Ég ætla ekki skilja málin eftir í lausu lofti og þetta er stórt og mikilvægt skref í rétta átt fyrir mig. Hræðsla og óöryggi er ekki í boði fyrir mig og ég kem til með að standa upprétt og einbeita mér að réttlætinu,“ sagði hún í samtali við Kjarnann eftir að hún lagði fram kæruna í mars.