Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Höfundur: Ófeigur Sigurðsson
Öræfi
Útgefandi: Mál og menning
„Maður verður svo syfjaður og þreyttur í höfðinu að vera sífellt uppnuminn af fegurðinni“
Ef Guðbergur Bergsson og Benedikt Gröndal hefðu eignast son og komið honum í fóstur til Rabelais er ekkert ólíklegt að hann hefði á endanum skrifað eitthvað eins og Öræfi. Svona óstýrláta bók þar sem ekki má á milli sjá hvort hugmyndirnar, skrifnautnin eða erindi höfundarins ræður för í flóðinu.
Upplifunin er sú að ekkert ráði för. Þegar brestur á með (fjöldi) blaðsíðna upptalningu á sjálfsvígum á íslandi frá 16 til 18 hundruð þá sættir maður sig bara við það eins og hverja aðra ótíð. Sem auðvitað býður upp á sína nautn eins og allir sem hafa verið veðurtepptir eða búið við þriggja daga rafmagnsleysi geta vitnað um.
Í Öræfum er sagt frá hrapallegri rannsóknarferð austurrísks örnefnafræðings í Öræfasveitina, sem að hætti slíkra ferða í skáldskap er jöfnum höndum fræðileg og persónuleg. Af henni er sagt í flóknu endurliti í gegnum misáreiðanlega milliliði. Eins og horft sé gegnum prisma, eða reynt að átta sig í speglasal í Tívolí.
Mannlífið í Öræfum, náttúran og hugmyndir okkar um hana, nöfnin sem við veljum henni, meðferðin sem hún sætir af okkar hendi og við af hennar. Allt er þetta undir þar sem Bernharður Fingurbjörg (já, hann heitir það) heldur í óbyggðirnar með koffort fullt af þjóðlegum fróðleik sem, drykkjusvolar og barflugur úr 101 hafa hlaðið á hann í bókabúð Braga, aðeins til að skjögra niður í Skaftafell, illa bitinn af villifé og sæta aflimun (já ég sagði það) af hendi hins kröftuga dýralæknis dr. Lassa (já hún heitir það), sem síðan skrásetur söguna, eða allavega einhverja gerð hennar. Varðveislusaga Fingurbjargarsögu er flóknari en Landnámu, sem kemur reyndar líka við sögu. Í Landnámu er samt held ég engin atvikssaga sem jafnast á við þessa:
„Einhverju sinni á fjöllum beit tófa Flosa í þumalinn og vildi ekki sleppa, kyrkti þá Flosi tófuna með hinni hendinni og gekk í heilan dag með tófuna dauða dinglandi á þumlinum, hann gerðist þreyttur á hræinu um kvöldið og skar hausinn af tófunni og svaf þannig um nóttina, daginn eftir gafst hann loks upp á hausnum líka og skar af sér þumalinn með vasahnífnum yfir morgunverðarborðinu.“
Í Landnámu er heldur ekkert sagt frá Morbid Angel, dauðarokkshljómsveit frá Tampa í Floridaríki. En hafið ekki áhyggjur, það er allt hér.
Já og Flosi þessi býr alltsvo á Svínafelli. Á einum stað er gefið lauslega í skyn að hann sé mögulega ekki til. Svo hristir sögumaðurinn (hver sem það er) sig eins og blautur hundur og ævintýraferðin heldur bara áfram.
Nú hef ég lesið þrjár bækur eftir Ófeig þennan. Hann er stórkostlega skemmtilegur á einhvern máta sem enginn leikur eftir honum. Varla einu sinni Guðbergur, Benedikt eða François. Hvort sem hann er að lýsa sálarlífi sr. Jóns Steingrímssonar, innrás pepperoni-pylsunnar í bragðheim Íslendinga eins og í Landvættum eða með þessari ótrúlegu sveitaferð og óreglusögu úr sambýli manna og náttúru.
Eina ástæðan fyrir því að þessi bók sætir ekki meiri tíðindum er að bækur sæta ekki lengur tíðindum.
Öræfi er eins og Öræfin. Ekki eins og neitt. Besta bók flóðsins.