Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Höfundar: Höskuldur Sæmundsson, Stefán Pálsson og Rán Flygenring
Bjór
Útgefandi: Crymogea
Ef við myndum ákveða á morgun að hætta með krónuna og taka upp Trivia - fánýtan fróðleik - sem gjaldmiðil yrði Stefán Pálsson ríkasti maður landsins. Eða eins og hann myndi vafalaust orða það, Bill Gates sinnar kynslóðar.
Góðu heilli er það trívíunördinn en ekki bjórgormurinn sem skrifar þessa fallegu og massívu bók í félagi við félaga sinn úr Bjórskólanum, Höskuld Sæmundson. Lykt- og bragðkjaftæði er afgreitt í einni línu yfirleitt, af þeirri opnu sem helguð er hverri þeirra 120 bjórtegunda sem fjallað er um. Stundum er mælt með föstu fæði sem passar við viðkomandi tegund. Annars er bara stuð í staðreyndalandi með bjór sem miðju en ekki alfa og ómega.
Þannig fræðist maður um The Greatful Dead (bls.45), blóðberg (bls. 57), hina sígildu bíómynd Cool Runnings og tengsl hennar við einkennisbjór Jamaíkumanna (bls. 137), Mídas konung (bls. 69) og hin illu áhrif flökkusagna (bls. 205).
Skemmtilegastur þykir mér textinn á bls. 213 þar sem fléttað er saman fróðleik um listamanninn Prince og bjórinn frá České Budějovice á snilldarlegan hátt, og sennilega er þetta líka skemmtilegt fyrir það skrítna fólk sem ekki þekkir góða dátann Svejk.
Sú hreinræktaða „bjórstaðreynd“ sem situr fastast í mér er svo tvímælalaust sú að 40% af Guinness-neyslu heimsins fari fram í Afríku.
Á móti textunum er stillt upp myndum Ránar Flygenring. Hún hefur skemmtilegan teiknistíl en því miður er þetta of sjaldan snjallt. Myndinar gera lítið annað en að „illústrera“ textann, oft með hjálp frá útskýringatextum sem virkar alltaf eins og hálfgerð þrautalending.
Bókinni er mjög skemmtilega kaflaskipt, og bjórtegundirnar flokkaðar eftir heimatilbúnu þemakerfi, stundum út frá nöfnum, stundum út frá lit, stundum velgengni. Það hefði samt ekki verið úr vegi að splæsa í einhverskonar millisíður til að greina kaflana að, í stað þess að fela kaflaheitin með smáu letri á myndasíðunum. Eitthvað er óhjákvæmilega um endurtekningar, sem og að sami hluturinn er útskýrður oft. Verra að það er stundum ítarlegast þegar hann kemur síðast við sögu. Þannig er oft minnst á Trappista-munkaregluna en uppruni hennar loksins tíundaður á blaðsíðu 253.
Að vanda er hönnun og frágangur til sóma hjá Crymogeu. Því meira stinga í augun prentvillur sem leynast þarna nokkrar. Já og svo er alveg bannað að fara rangt með tilvitnanir í sjónvarpsþættina Fame!
Heilt yfir er þetta samt falleg og eiguleg bók, fjörlega skrifuð og stútfull af næringarríku staðreyndasmælki um allt milli himins og jarðar. Og bjór. Örugglega samt betri til að dreypa á í hófi en að svolgra í sig í heilu lagi eins og óhjákvæmilega er hlutskipti rýnis. Þannig neytt trúi ég að hún gleðji mannsins hjarta.