Í næstu viku, nánar tiltekið þann 8. ágúst, er síðasti dagurinn sem hægt er að heita á verkefnið The Infertility App á Karolina Fund. Á bak við IVF Coaching-verkefnið standa Gyða Eyjólfsdóttir sálfræðingur og Berglind Ósk Birgisdóttir hjúkrunarfræðingur en þær hafa spáð í ófrjósemi í mörg ár. Berglind hefur persónulega reynslu af ófrjósemi, glasameðferðum og rannsóknum í nokkrum löndum, auk þess sem hún er í stjórn Tilveru - samtaka um ófrjósemi og hefur stutt við konur í glasameðferðum með ýmiss konar upplýsingaráðgjöf í nokkur ár. Hægt er að lesa allt um söfnun verkefnisins á vef Karolina Fund hér.
Gyða hefur starfað með Tilveru undanfarin níu ár. Hún heldur fyrirlestra fyrir félagið um ýmislegt tengt ófrjósemi en auk þess hittir hún um 20% af þeim konum og pörum sem fara í glasameðferðir á hverju ári hjá Art Medica, sem er eina glasameðferðarstöð Íslands.
Gyða hefur tekið eftir því að konur sem þjást af ófrjósemi þarfnast oft frekari upplýsinga um áhrif ófrjósemi á líðan, samskipti og samband við maka, auk fræðslu um meðferðir og önnur úrræði sem skipta máli varðandi ófrjósemi. Hún einsetti sér í doktorsnámi sínu að mæta þessari þörf en komst fljótt að því að konur og pör þora oft ekki að mæta á fyrirlestrana þar sem ófrjósemin er mikið feimnismál. Þessi hópur fólks vill oft ekki að aðrir viti af ófrjóseminni og þjáist því í einrúmi.
Leiðbeiningar og tillögur
Fyrir um þremur árum fékk Gyða þá hugmynd að útbúa app með fræðslu um ófrjósemi og upplýsingum um það hvernig auka megi líkur á þungun. Appið er auk þess einhvers konar leiðbeining í gegnum glasaferlið þar sem notandinn getur fengið nýjar upplýsingar daglega um hvað hann getur gert til að bæta líðan sína í glasameðferðinni og aukið líkur á þungun. Gyða fann að sig vantaði samstarfsaðila sem hefði betri þekkingu á líffræðilega hluta meðferðanna og þekkti betur inn á mismunandi tegundir meðferða og rannsókna sem eru í boði. Hún fékk því Berglindi í lið með sér og saman mynda þær teymið á bakvið IVF Coaching-appið.
Smáforritið er hannað fyrir enskumælandi markað. Þær stöllur hafa reiknað út að árlega séu um 2.000.000 glasameðferðir framkvæmdar á konum eða pörum sem tala ensku. Á Íslandi eru framkvæmdar um 600 meðferðir á ári og gætu flestar af þeim konum/pörum nýtt sér appið, sér til stuðnings í meðferðinni. Talið er að eitt af hverjum sex pörum eigi í erfiðleikum með að eignast barn, ekki bara á Íslandi heldur í öllum heiminum. Því er ljóst að stór hópur fólks glímir við ófrjósemi og upplýsingaþörfin er mikil. Það sést einnig af því að orðin infertility og IVF (glasameðferð) eru gúggluð um 2.500-2.800 sinnum á sólarhring á Google-leitarvélinni. Þá eru aðrar leitarvélar ekki inni í þessum tölum.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_31/54[/embed]
Nytsamlegar upplýsingar
Í IVF Coaching-appinu hefur konan, eða parið, aðgang að vísindalega studdum upplýsingum um hvernig hægt er að undirbúa sig sem allra best undir glasameðferðina. Þannig fær notandinn upplýsingar um ýmiss konar spurningar sem notandanum er ráðlagt að spyrja lækninn sinn að, upplýsingar um hvað sé gott að hafa í huga þegar glasameðferðarstöð er valin, hvaða próf er hægt að fara í og hvaða vítamín hafa sýnt bestu þungunartíðnina. Þá eru slökunarupptökur í appinu en þær konur sem stunda djúpslökun eru líklegri til að verða barnshafandi en þær sem ekki stunda slökunina. Þá hefur djúpslökun góð áhrif á sæðisfrumur og í óformlegri athugun Gyðu á þungunartíðni hjá sínum skjólstæðingum kom fram að hún var um 52%, í samanburði við 30-35% auglýstan árangur hjá Art Medica. Ýmislegt fleira má finna í smáforritinu. Meðal annars má nefna að notandinn fær „upplýsingamola“ í símann sinn á hverjum degi meðan á meðferðarferlinu stendur, en það getur tekið allt að sex vikur.
Upplifa meiri vellíðan
Fræðsla eins og appið veitir hefur sýnt að konurnar og pörin upplifa meiri stjórn, vellíðan og slökun og líkurnar á að verða barnshafandi eftir glasameðferð aukast. Þar sem hver meðferð getur kostað allt frá nokkur hundruð þúsund krónum og upp í milljónir (fer eftir löndum) skiptir miklu máli að undirbúa sig vel og hámarka líkur á þungun í hvert sinn. Meðferðirnar taka mjög svo á tilfinningalega og eftir um tvö ár af árangurslausum barneignartilraunum þjáist ríflega helmingur kvenna af klínísku þunglyndi og kvíða, og um þriðjungur karlmanna. Upplýsingarnar sem koma fram í appinu hafa hins vegar aldrei áður verið teknar saman og gerðar aðgengilegar þeim sem á þurfa að halda. Appið er því nýtt á sínu sviði og hefur hlotið styrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands - Átaki til atvinnusköpunar.
Eins og kom fram í upphafi greinarinnar er síðasti dagur til að styrkja verkefnið 8. ágúst. Þeim sem vilja kynna sér verkefnið nánar er bent á síðu verkefnisins.