Almanaksárið hefur verið viðburðaríkt í Kjaranum. Kjarninn færði sig alfarið á veraldarvefinn í lok sumars og hefur nú eitt heimilisfang í stað nokkurra. Fjöldi heimsókna á kjarninn.is síðan þá hefur verið framar vonum og því áhugavert að kanna hvaða færslur hafa verið vinsælastar meðal lesenda á þessum tíma.
10. Gámakynslóðin
Hrafn Jónsson, einn pistlahöfunda Kjarnans, átti eina af vinsælustu færslum ársins þegar hann birti pistil sinn um leigumarkaðinn og hvernig hann er dæmdur til að berjast um litla kjallaraíbúð í hungurleikum yfirstéttarinnar. Hann fullyrðir jafnframt að millistéttin sé „að leysast upp, fremja sjálfsmorð. Dýrasta kynslóð sögunnar á ekki neitt.“
Þangað til ég finn bankabókina eða kemst eitthvað áleiðis í því að fá Björgólf Thor til að afsala til mín 0,01% af eignum sínum ligg ég eins og ormur á leiguíbúðinni minni.
Ætli Björgólfur sé búinn að skrifa til baka?
9. Kærður fyrir svindl í Reykjavíkurmaraþoninu
Kjarninn flutti fyrstur miðla fréttir af því að hugsanlega hefði sigurvegarinn í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar svindlað með því að hljóta aðstoð í hlaupinu. Málið vatt hratt upp á sig og skók maraþonheiminn. Kjarninn fylgdist með til enda.
8. Partíblöðrur
Margrét Erla Maack skrifar reglulega pistla í Kjarnann. Í september skrifaði hún um þvaglát á almannafæri í borgarumhverfi og hvað það væri nú ógeðslegt.
Á galeiðunni virðist sem klósett fyrir karlpeninginn séu af skornum skammti, ekki komist allir að sem vilja og því bregði karlmenn á það ráð að merkja sér annara manna hús.
7. Útsýnið úr fílabeinsturninum
Hrafn á jafnframt sjöunda mest lesnu færsluna á árinu. Útsýnið úr fílabeinsturninum fjallaði um þá Sigmund Davíð og Bjarna Benediktsson og hvernig þeir réttlæta skuldaniðurfellingarnar og lygavef Gísa Freys Valdórssonar, sem hafði þá nýverið viðurkennt lygar sínar.
Í myrkvuðu húsi í Garðabænum hefur kveðið við annan tón þar sem Bjarni Benediktsson hefur staðið glaseygður og grábaugaður fyrir framan baðherbergisspegilinn og sagt við sjálfan sig: „Sama hvað gerist á morgun þá ertu ennþá flottur strákur,“ og hnyklað svo brjóstvöðvana á sér máttleysislega því til ósannfærðar staðfestingar.
6. Sjálfdautt mannorð
Hrafn varð enn og aftur „viral“ þegar hann skrifaði Kjaftæði í nóvember þar sem hann tók snúning á yfirtökunni á DV. Pistillinn var stórkoslegur og þar sannaði Hrafn hversu góður hann er að skella upp mynd af samfélaginu með kolsvörtum húmor.
Þeir ættu samt að fylgja fordæmi Björns Leifssonar sem loksins tókst að sanna að besta leiðin til að þagga niður í mannorðsmorðingjum sé að kaupa þá ofan í gröfina þegar hann arkaði bónaðari og bísperrtari en steypuskaufinn sem hann lét reisa fyrir utan Laugar – með 15 ára gömul Oakley-sólgleraugu eins og samblanda af hormónabættum hjólreiðakappa og aukaleikara í Dolph Lundgren-sjónvarpsmynd – inn í hluthafahóp DV og tilkynnti að hann ætlaði að bæta blaðamennsku á Íslandi með því að kaupa hana.
5. Birtið upptökuna strax
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, skrifaði leiðara í október þar sem hann fjallaði um samtal Geirs H. Haarde og Davíðs Oddssonar sem þeir áttu í miðju efnahagshrunsins 2008.
Til þess að geta horft áfram þurfum við að geta hætt að horfa afturábak. Það gerist ekki nema myndin sem blasir við í baksýnisspeglinum sé skýr. Og hún verður mun skýrari strax eftir að búið verður að spila samtal Geirs og Davíðs upphátt og fyrir alla.
4. Hinn fársjúki farsi Hönnu Birnu
Kjarnanum barst pistill frá Kristjáni Hrannari Pálssyni þar sem hann fjallar um Lekamálið og ber það saman við það þegar alkóhólistar ljúga að öllum til að komast undan fíkn sinni.
3. Benedikt Erlingsson móðgaði Illuga á verðlaunaafhendingu
Leikstjórinn og leikarinn Benedikt Erlingsson skaut föstum skotum að menntamálaráðherra á verðlaunaafhendingu í Stokkhólmi í október. Gagnrýndi hann stjórnvöld fyrir niðurskurð á fjárframlögum til kvikmyndagerðar þegar hann veitti verðlaunum fyrir Hross í oss viðtöku.
2. Leiðréttingardæmi: Fékk 50% af eftirstöðvum lánsins niðurfellt
Kjarninn birti raunveruleg dæmi um leiðréttinguna sem einstaklingar fengu í nóvember, samkvæmt aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Eitt þessara dæma var af hjónum sem keyptu sér einbýlishús fyrir 75 milljónir króna árið 2005, greiddu lánin af því að mestu upp árið 2008 og seldu húsið árið 2012 fyrir meira en uppreiknað kaupverð að viðbættum endurbótum, fá 3,6 milljónir króna í leiðréttingu.
1. Ísland er ónýtt
Pistill Braga Páls Sigurðarsonar er vinsælasta færslan á vef Kjarnans á árinu. Bragi Páll var mjög gagnrýninn á samfélagið og stjórnvöld og hefur greinilega slegið á viðkvæma strengi meðal þjóðarinnar.
En svo kom skellurinn. Hrunið sem var svo dásamlegt. Algjört wake up call. Allt í einu ferskir vindar og fólk að tala um ójöfnuðinn og brjálæðið sem hafði viðgengist. Ég trúði því í alvörunni að eitthvað gæti breyst. Til hins betra.