Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Ég vaknaði kannski sirka tvö og þá fann ég engan. Ég ráfaði aðeins um og endaði með að róta draslinu okkar inn á venjúið með dyggri hjálp frá stórkostlegum lókalmönnum. Eftir það fann ég mér bakherbergi og settist niður. Stuttu síðar mætti mér Þráinn, hann hafði væntanlega verið sofandi í kojunni sinni en ég bara hreinlega ekki áttað mig á því. Strákarnir tíndust svo inn smám saman, flestir höfðu fundið sér kaffihús hér nálægt en Halli hafði þó fyrir því að druslast niður í bæ. Hann sá kirkju og eitthvað svona kósí og bar sig vel þegar hann kom til baka.
Ég man gærkveldið ekki vel. Við spiluðum þó Kana fram eftir öllu, Baldur tók við af Halla en sló í upphafi þann varnagla að hann kynni ekki að spila þetta spil. Það var auðvitað rangt og hann varð fljótlega óþolandi góður í þessu líkt og í öllu öðru sem hann tekur sér fyrir hendur. Við spiluðum playlistann „Íslenskt óldskúl“ sem stórvinur okkar Haukur Viðar setti saman á Spotify fyrir ekki svo löngu. Ég veit ekki af hverju ég hafði haft vit á því að hlaða honum niður á offline mode en þetta er besti playlisti í heimi. Ellý, Haukur, Raggi og allt þetta meistaralega sem við hin byggjum svo á. Endilega tékkið á þessum lista, hann hentar við hvert einasta tækifæri.
Og svo bara sofnaði ég held ég. Ég man ekkert hvað klukkan var eða hvað gerðist næst, ég bara lognaðist út af í kojunni. Og svaf bara nokkuð vel.
Það er aðeins einn Þráinn Árni Baldvinsson úr Torfunesi í Kinn. Og hann er með sólgleraugu.
Ég loggaði mig inn á alnetið þarna rétt áður en Þrási fann mig og sá þá um leið að Skálmöld er tilnefnd til 9 tónlistarverðlauna. Fyrir þunnan mann var það ákveðið áfall, ég verð alltaf meyr í þynnkunni og mér fannst þetta næstum því of mikið. Við leggjum hart að okkur með Skálmöld en búumst svo sem ekki við neinu í staðinn. En þetta er vissulega viðurkenning fyrir allt harkið. Mér þykir mest vænt um að sjá að Flexi okkar skuli vera tilnefndur fyrir pródúseringu á Með vættum og auðvitað er gaman að vera tilnefndur fyrir textasmíð. Og svo auðvitað allt hitt. Jább, þetta gladdi herbúðir Skálmaldar svona á síðustu metrunum.
Svo varð dagurinn eðlilegur. Reyndar skal nefna að við höfum spilað á þessum tónleikastað áður, það var árið 2011 og er sennilega það gigg sem við höfum blótað okkur hve mest fyrir frá upphafi. Þá einhvern veginn virkuðu hlutirnir ekki nógu vel og við vorum ekki nógu góðir. Ég setti þetta í blogg á veraldarvefinn þá en sú annars flokks bloggsíða hvarf ekki svo löngu síðar. Ég á þetta þó allt í Word-skjölum og gæti jafnvel leitað að þessu síðar. Já eða jafnvel núna?
„München, Þýskalandi 14. október 2011
Gigg kvöldsins var okkar versta hingað til. Ekki það að við höfum verið sérstaklega lélegir en eitthvað kom bara ekki heim og saman. Ekki verða þeir samorkandi þættir sem þar komu að taldir upp hér, ekki allir í það minnsta. Krádið var erfitt, en verandi fyrsta band á svið í túrnum höfum við oft staðið frammi fyrir því. Venjulega tekst okkur að draga fólkið á gólfið en það tókst ekki nema að litlu leyti í kvöld. Vitanlega á aldrei að afsaka neitt, en svo var það nú víst að margir af þeim sem voru ekki á gólfinu fyrir framan okkur voru að horfa á sjónvarpið. Og þeir voru víst inni í salnum en öllu aftar. Já þetta hljómar kannski undarlega en það sem við ekki vissum þegar við lögðum af stað í prógramið var það að aftast í salnum voru víst nokkur sjónvörp og þeim svona líka ljómandi spennandi leikur í Búndeslígunni, Werder Bremen og Buyern þeirra München-búa. Heimamönnum fannst það meira spennandi en einhver lítt þekkt hljómsveit frá Íslandi.“
Þannig hljómaði færslan sú. Þess vegna var nokkuð ljóst að við áttum harma að hefna. Við fengum mat, ástarlausan með öllu, fisk í einhverju steinraspi sem skildi ekkert eftir sig. En aldrei þessu vant varð það okkur til tekna. Það skýrist hér aðeins síðar. Og svo gigg.
Þetta gigg tókum við af alefli og gersamlega slátruðum því sem fyrir varð. Krádið ætlaði rétt að reyna að vera okkur erfitt en þau áttu séns. Við spiluðum geysilega vel, létum alla finna fyrir okkur og öllum illum látum. Á endanum fengum við ofboðslegar kveðjur frá fólkinu sem ætlaði ekki að sleppa okkur af sviðinu. Sigur, fullnaðarsigur og nú getum við komið hingað aftur án þess að skammast okkar.
Venjulega höldum við rakleiðis fram á meðal fólks eftir gigg til að blanda geði við pöpulinn. Það er í fyrsta lagi mjög gaman en í annan stað ýtir það mjög undir varningssölu. Þar áritum við það sem fyrir verður, sitjum fyrir á myndum og svörum spurningum. Þetta er ekkert alltaf gaman og raunar eitthvað sem maður nennir ekkert endilega að gera þegar maður kemur löðursveittur af sviðinu. En þetta gerum við samt og á endanum verður þetta eiginlega alltaf mjög gaman. Maður má nefnilega ekki láta þægindafíknina taka yfir skemmtilegheitin.
Þetta gerðum við hins vegar ekki í dag.
Hjörtur heitir maður og er búsettur hér í borg. Hann er móðurbróðir Þrása, er mikið snillingsmenni, er í einhverri stórkostlegri vinnu hjá fyrirtæki sem tryggir tryggingafélög og á BMW. Hann vinnur við að spá fyrir um náttúruhamfarir og hryðjuverk. Ég spila bara á bassa sko. Hann hefur komið að sjá okkur í öll þau skipti sem við erum á gigga hér í nálægð og svo var einnig nú. Hjörtur var með plan. Eftir gigg tókum við lestina tvö stopp, röltum í fimm mínútur og vorum þá komnir á mikinn stórkostlegheitastað. Ég held að ég fari með rétt mál ef ég segi að þessi staður sé aldagamalt brugghús. Þarna eru borð og bekkir sem minna á upphafsatriði í góðu D&D-ævintýri, bjór flæðir um allt og svo þessi óskaplegi matseðill. Hjörtur pantaði handa okkur líterskrúsir af öli og svínaskanka. Hér þarf ekki að fjölyrða, þetta er besti maður sem ég hef borðað síðan ég yfirgaf Seilgrandann í október. Mikið var gott að fiskurinn frá í dag skyldi vera svona ómerkilegur. Svo drukkum við aðeins meira og tókum lestina til baka.
Klukkan er 1.31 og strákarnir eru inn á venjúi, ásamt Hirti, og partýið rétt að byrja. Ég er einn í rútu fyrir utan Robert sem er sofandi. Brottför er klukkan fjögur. Ég má ekkert vera að þessu, nú pakka ég tölvunni og tek þátt í gleðinni.
Þetta var meistaralegur dagur.
Meistaralegt dagsins: Hjörtur og svínaskankinn.
Sköll dagsins: Fiskurinn sem varð meistaralegur.