Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Klukkan er 22.55 og ég er baksviðs. Ætli Eluveitie séu ekki sirka hálfnuð.
Flexi.
Ég lifði lengst í nótt og við Robert spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Við þekkjumst orðið ansi vel og eigum gott skap saman. Við þokuðum okkur rólega inn í Belgíu og lentum fyrir utan tónleikastaðinn Trix kannski um klukkan sex. Þá var vel farið úr viskíflöskunni hans Baldurs. Flexi hélt okkur reyndar selskap síðustu kílómetrana en þegar við komum á leiðarenda fórum við að sofa. Ég svaf svo eitthvað framyfir hádegi og valt síðastur á lappir. Ég komst ekki að því fyrr en ég steig innfyrir að við höfum spilað hér áður, sennilega var það 2011. Og hér er gott að vera. Öll aðstaða til fyrirmyndar, sturtur og allskonar herbergi og fínerí, sviðið stórt og maturinn algerlega stórbrotinn. Þetta var kærkomið eftir misjafnan kost síðustu daga. Ég heyrði stuttlega í vini mínum Aðalbirni Tryggvasyni en hann er á svipuðum túr og við með sveit sinni Sólstöfum. Þeir spiluðu víst í Köln í gær en verða svo nákvæmlega hér á þessum stað á morgun. Skemmtileg tilviljun.
Ég tók það rólega frameftir degi, sýslaði á ágætis interneti og svaraði eins og einu blaðaviðtali. Sándtékk dróst á langinn. Bæði byrjuðum við seint vegna þess að Rússarnir, sem tékka á undan okkur, voru ekki alveg á tánum. Þannig var trommarinn þeirra, Andre, týndur þegar að þeim var komið. Tíminn var svo sem nægur og við hinkruðum bara. Tékkið okkar var svo ekki alveg áfallalaust heldur því hljóðkerfið var í einhverju lamasessi. Það tafði fyrir pirruðum Flexanum og raunar komst þetta ekki lag á þetta fyrr en eftir að tónleikarnir okkar voru byrjaðir. Þá loksins hafði einhver lókallúðinn fyrir því að ýta á einhvern takka sem þurfti að vörka. Eða eitthvað svoleiðs. Eitthvað fasamál. Eitthvað tækn.
Við fengum svo liðsauka í dag. Chrigel, söngvari Eluveitie spilar líka á allskonar, þar á meðal flautur. Hann og Nicole , sem spilar á fiðlu í bandin ...
(Klukkan er 00.29. Ég var rifinn frá blogginu til að mingla við pöpulinn. Við reynum að gera það á hverju kvöldi, bæði vegna þess að það er alls ekki leiðinlegt, en kannski líka vegna þess að það selur varning. Myndatökur, áritanir og svoleiðis nokkuð. Gaman, en líka þreytandi. En hey, við seldum vel í dag.)
... u, stigu með okkur á svið og spiluðu aðalstefið í Kvaðningu. Það var gaman. Það var mjög gaman og þau brosandi allan hringinn. Ég er alveg til í að gera þetta oftar á túrnum. Eluveitie. Þetta er fallegt fólk.
Ruslan, bassaleikari Arkona er 42 ára í dag. Við sungum reyndar bara fyrir hann þegar bílalestin stoppaði á bensínstöð í nótt. Við sungum á íslensku með rómi sem hvaða íslenski sauðfjárbóndi hefði verið stoltur af. Ruslan fór að gráta. Það var fallegt.
Stijn er Belgi og hann er líka umboðsmaðurinn okkar. Hann kom á tónleikana í kvöld og var svona óskaplega kátur. Hann dílar líka með Hot Sauce og gaf okkur lítersgímald af svoleiðis. Hann var ánægður með allt saman, tónleikarnir voru góðir og hann finnur jákvæðan víbring kringum allt sem Skálmöld gerir þessa dagana. Og við auðvitað líka, nýja platan er að fá frábæra dóma og hjólin snúast á fullu. Gott að hitta Stijn, hann er vinur okkar og meistarasnillingur.
Þráinn Árni Baldvinsson úr Torfunesi í Kinn (var það komið fram?) sést hér með skæri. Líklega manager að pirra.
Giggið gekk ljómandi, en svo sem ekkert meira en það. Hljóðið var ekki alveg með okkur í liði og Belgarnir ekki svona óskaplega til í stuðið eins og Frakkarnir síðustu daga. Við þurftum að hafa meira fyrir hlutunum og ég kom alveg dauðuppgefinn af sviði. Um leið og giggi lauk fór ég í sturtu og var þar lengi. Svo skipti ég um föt, brók og bol og sokka og allskonar. Æi, þetta er svo mikil snilld. Litlu hlutirnir, þeir eru alltaf bestir.
Núna sitjum við í rútu og bíðum eftir því að leggja í hann. Á morgun er frídagur en eftir það spilum við í London. Þangað ætlum við núna og ætlum að taka ferjuna til Dover klukkan hálf5. Planið er að lenda í Lundúnaborg sirka um miðjan dag á morgun og eyða því sem eftir lifir við partýhöld. Gunnar Ben á nefnilega afmæli á morgun, eða strangt til tekið í dag. Hann ætlar að leiða samkomuna og sjá til þess að okkur leiðist ekki. Hann bjó um tíma í London og þetta á að verða eitthvað svona nostalgíurunk held ég. Það verður örugglega osom. Nú fjölgar í rútunni um einn því Cat, varningssölustelpan okkar og Arkona, ætlar að fljóta með. Rússarnir ætla ekki strax til London en hún ferðast venjulega með þeim. Cat er vinaleg og þetta verður örugglega alveg ljómandi.
Ásgeir heitir maður og er búsettur hér í borg. Hann kom á tónleikana með félaga sínum og skemmti sér vel. Við áttum við hann ágætis spjall um heima og geima og hann talaði mikið. Skemmtilegur gaur og vinnur á bar hér í borg sem svo aftur hefur snertiflöt við áhuga hans á bjór. Og hann kom með svoleiðis. Eftir tónleikana vatt hann sér út í bílinn sinn og kom til baka með nokkrar flöskur af belgískum eðalbjór handa okkur. Falleg gjöf frá fallegum manni.
Klukkan er 00.49 og við erum ekki enn farnir af stað enda þótt planið hafi verið að fara klukkan hálf. Baldur er sennilega úti að leita að Cat. Hálf5 já, þá fer ferjan. Nú er spurningin hvort maður leggur sig fyrir ferju eða ekki. Í það minnsta sagði Þrábi hér stundarhátt að hann hlakki óskaplega til að kaupa sér enskan morgunverð í ferjunni, bara til þess að leifa rúmlega helmingnum. Morgunmaturinn í ferjunni er hreinasta ógeð, en það er alltaf eitthvað við hann. Cat var að hlamma sér inn með farangurinn sinn. Klukkan er 00.55 og við erum lögð af stað.
Það eru áður óþekkt hvolpalæti í rútunni. Sætt.
Meistaralegt dagsins: Skálmöld ft. Eluveitie.
Sköll dagsins: Lókallúðinn.