Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Mér finnst eins og síðasta blogg hafi verið fyrir þremur tímum síðan. Þetta var hinn týpíski túrdagur þar sem ekkert gerist og allt er eins. Sennilega hefur nú allskonar gerst, en í svipinn ekki neitt. Ég ætla að prófa að rekja atburðarásina.
Ég man að þegar ég stóð upp frá tölvunni í gær var ég mun hellaðri en mér fannst. Í það minnsta las ég bloggskrifin frá því þá einhvern tímann áðan og var hreinlega ekki viss um að ég hefði skrifað allt saman sjálfur. En það er svona, það sem stendur skal standa. Ritskoðun er ekki leyfð í þessum bálki. Ég sofnaði stuttu eftir þetta allt saman og svaf þangað til Robert ræsti okkur í ferju. Þá var klukkan að verða átta. Vitandi að við ættum eftir talsverða keyrslu eftir ferjuna lagði ég á ráðin og afréð að halda mér vakandi meðan við sigldum. Stímið tók tæpa fjóra tíma (eða þrjá kannski?) sem ég eyddi að mestu við spjall heim yfir alnetið. Það var alveg sérlega ánægjulegt. Ég var svo kominn í kojuna áður en bíllinn keyrði upp úr ferjunni. Og þar var ég mestan hluta úr deginum. Undir það síðasta hef ég verið hálfvakandi því ég heyrði hvernig sjónvarpsþátturinn Fóstbræður mallaði hér frammí. Ég veit ekki hverjir voru að horfa eða hvernig. Í það minnsta var enginn í koju nema ég. Skömmu seinna nam rútan staðar.
Tónleikarnir í kvöld hófustu klukkan átta. Við uppsetningu dag hvern hvílir aðalábyrgðin á tækniliði Eluveitie, þetta er jú þeirra túr og hverfist kringum þau. Yfirleitt reyna þau að komast inn á tónleikastaðina um hádegi og þannig er nokkuð tryggt að allt hafi náðst á settum tíma. Oft má þó engu muna eins og áður hefur komið fram í þessu bloggi. Þar sem keyrslan eftir ferjuna var áætluð kannski fimm til sex tímar í dag höfðu þau bókað sitt far yfir sundið klukkan tvö í nótt. Við Skálmeldingar þurfum yfirleitt alls ekki að mæta jafnsnemma og þau og létum okkur nægja brottförina klukkan átta. Þó fór svo að ferjan sem átti að fara klukkan tvö var biluð og sat í slipp í alla nótt. Við þessu var ekkert að gera og þannig kom stóra rútan með okkur í átta-ferjuna, sem síðan orsakaði að hersingin skilaði sér ekki til Bristol fyrr en milli fimm og sex. Auglýstur opnunartími á staðnum var hálf8, við áætlaðir á svið klukkan átta. Við þennan túr vinnur sjóað fólk og um leið réðust allir í að rusla dótinu upp. Þrátt fyrir allt þetta stress vorum við eiginlega óþarfir því við komumst ekki að dag hvern fyrr en allt hefur verið sett upp. Við röltum því af bæ í súrrealískum rólegheitum miðað við allt stressið. Eftir skamma göngu fundum við þýskt jólaþorp sem Bristol-búar hafa ákveðið að staðsetja þarna miðsvæðis. Þýskur Johnny King með alpahúfu mundaði skemmtarann, jólaglögg, ristaðar hnetur og sykurpúðar, bekkir, borð og Weinachtenschwein. Og risastórar pylsur af grillinu. Við átum þær, fengum okkur svo kaffi í bakaleiðinni og kíktum upp á venju. Hálftími í gigg og alls ekki komið að okkur.
En þá fór vélin af stað fyrir alvöru. Öllum mögulegum óþarfa var sleppt, Rússarnir tóku enga hljóðprufu en unnu með okkur að því að koma draslinu okkar fyrir, þó með því skipulagi að þau gætu auðveldlega tekið við að því loknu. Okkar beinharði tæknimaður Flex vann á við fjóra og sá til þess að allt skilaði sér. Þarna kom hin íslenska vinnuskorpugeðveiki sér vel. Sennilega var neðri hæðin opnuð hálf8. Klukkan 19.58 höfðum við náð að tengja allt, tókum svo sem ekkert eiginlegt sándtékk, létum okkur hverfa og fólki streymdi í salinn. Mínútu seinna kom Tibor til okkar að sagði að tónleikunum skyldi seinka um 20 mínútur. Það var næstum því svekkjandi eftir að hafa náð að sigrast á þessum ótrúlegu tímamörkum. En sennilega hjálpaði það til því við spiluðum fyrir ansi marga sem annars hefðu mögulega ekki verið komnir.
Böbbi söngvari. Hann er ekki svona rólegur þegar hann er að öskra. Ó nei.
Giggið gekk svo sem brösulega. Strax í fyrsta lagi liðaðist sprakarinn hans Jóns Geirs í sundur en hann náði að bjarga því strax að því lagi loknu. Um miðbikið sleit Baldur streng en var vitanlega með varagítar tiltækan. Það sem var kannski undarlegast var hljóðið á sviðinu því við höfðum jú ekki haft neinn tíma til að skoða þau mál. Ég heyrði eiginlega ekkert nema bassa og óbó (ekki alvöru óbó, heldur hljómborðsóbóið hans Gunna). Það hljómaði ekkert eins og þungarokk, en þetta dugði okkur algerlega til að komast gegnum giggið. Og þetta líka stórskemmtilega gigg. Þarna sannaðist kannski hversu sjóað þetta band er orðið. Við þurfum lítið sem ekkert til að gera okkar hluti, við tökum því sem að höndum ber og afgreiðum hlutina fullkomlega. Þetta var eitt skrýtnasta gigg sem ég hef spilað, fullt af hlutum í lamasessi, en þessu rúlluðum við upp. Og mikill fjöldi fólks skemmti sér alveg konunglega, þar á meðal eðalfólkið Christine og Guðbrandur, sem ég ákvað greinlega að endurnefna í bloggi í um daginn og kallaði hann Höskuld. Það leiðréttist hér með. Ég hvet þó alla sem hann þekkja til þess að líma Höskuldar-nafnið á hann. Það fer honum ágætlega. Í það minnsta var þetta síðasta giggið af fjórum sem þau sáu með okkur hér á Bretlandseyjum, þau hafa fylgt okkur svo að segja alla vikuna og kryddað tilveruna. Eðalfólk sem við hittum svo aftur heima.
Rútan gat ekki lagt við tónleikastaðinn og því kom Robert aðvífandi um klukkan ellefu. Þá hafði hann náð að leggja sig í klukkutíma. Eluveitie voru þá nýbyrjuð að spila en við smygluðum dótinu okkar út í bíl framhjá tónleikagestum. Flexi náði að skjóta inn örstuttri heimsókn til systur sinnar sem býr í Bristol, en mig grunar að það hafi varla verið meira en hæ og bæ. Við vildum leggja strax af stað því við eigum pantaða ferju yfir á meginlandið klukkan fjögur. Við brunuðum því af stað. Klukkan er 0.58, eitt sjoppustopp búið og allir farnir í koju nema ég og Flexi. Hann er að píska Napoli-menn áfram en ég er vissulega að blogga. Ég finn á akstrinum að Robert er alveg til í að komast til Dover. Á morgun er svo frí en við vitum ekki alveg hvernig það endar. Einhver hafði stungið upp á að eyða deginum í Brugge en það hentar ferðaplönunum ekki nema ákveðið vel og yrði aldrei almennilegt stopp. Ég er að spá í að ræða þetta við Robert þegar ég loka tölvunni. Minn sólarhringur er kolrangur, ég sofna örugglega ekki aftur fyrr en hinum megin við sundið.
Meistaralegt dagsins: Christine og „Höskuldur“.
Sköll dagsins: Tímafokk.