Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Brottför
Ég á von á barni. Það voru fréttirnar sem ég tók með mér á túrinn. Ég á ekkert svoleiðis fyrir. Ég er himinlifandi og dauðskelkaður.
Við lögðum í hann um fjögur að morgni. Eins og venjulega voru menn ýmist mjög lítið eða ósofnir. Á Leifsstöð tók svo við þetta venjulega streð, að tékka inn heila þungarokkshljómsveit. Talsverðum tilfæringum og 385 kílóum af farangri síðar settumst við svo upp í flugvélina. Sumir sváfu, þar á meðal ég sem náði því í svona 40 mínútur. Þá var ég þó búinn að horfa á kvikmyndina Hross í oss. Ég er enn að melta hvort mér fannst hún fullkomið kjaftæði eða fullkomin meistarasnilld. Í það minnsta kemur ekkert annað en þetta tvennt til greina. Ég mynda mér betri skoðun á þessu fljótlega. Við flugum til München og lentum þar um hádegisbil. Þar sótti bílstjórinn okkur.
Robert bílstjóri er vinur okkar. Hann keyrði okkur allan Evrópu-túrinn í fyrra og þannig kynntumst við honum. Robert er Tékki, á okkar reki í aldri og eitt það almesta ljúfmenni sem hægt er að hugsa sér. Hann hafði ekki hugsað sér að taka þennan túr með okkur, hann er orðinn svolítið þreyttur á djobbinu. Þegar nær dró höfðum við samband við hann og þá féllst hann á að taka hálfan túrinn. Þegar enn nær dró lét hann okkur vita að hann skyldi keyra hann allan, fyrst þetta værum nú við. Auðvitað eru það örugglega svolítið uppfærð sannindi, en þó er það svo að okkur er óskaplega vel til vina, og að vera fastur á svona túr með fólki sem þér líkar ekki við er ekkert grín. Að hafa þennan snilling við stýrið er algerlega ómetanlegt því hann er ekki aðeins skemmtilegur og vel gefinn, hann er líka besti bílstjóri í vetrarbrautinni. Við verðum á ferðinni í tæplega 50 daga og slík ferð með bílstjóra sem þú treystir ekki er hreint ógeð, sér í lagi þar sem við sofum í kojum í bílnum og ferðumst á meðan. Á ferðum sínum hittir maður oft svefnvana þungarokkara sem hvílast ekki vegna þess að bílstjórinn er fáviti, keyrir harkalega og illa, og eins er erfitt að festa svefn á fleygiferð eftir misjöfnum vegum ef maður finnur til vantraust. Ég gæti skrifað ritgerð um Robert. Kannski geri ég það bara. Seinna.
Bíllinn sem við erum á er mjög áþekkur þeim sem við vorum á í fyrra. Fremst er bílstjórinn (döh), þar fyrir aftan eru átta sæti, fjögur á hlið í hægra megin, og tvö og tvö með borði á milli vinstra megin. Þar fyrir aftan er örlítil eldhúsaðstaða, kaffimaskína, örbylgjuöfn og kælir. Beint á móti er neyðarklósett sem ber að nota sem minnst. Í fyrra var ekkert klósett. Þá pissuðum við í þartilgerðar þvagflöskur, nema reyndar ég og Þrási sem héldum bara í okkur. Aftast í bílnum eru svo kojurnar, níu talsins, þrjár aftast sem liggja þvert og þrjár og þrjár meðfram sitthvorri hliðinni. Aftan í bílnum hangir svo þokkaleg kerra sem geymir tæki og tól og boli og diska og farangur og allskonar. Þessi lýsing hljómar auðvitað eins og hér sé á ferðinni risastór rúta en það nú ekkert þannig, því þetta er bara svona ferkar stór kálfur sem búið er að breyta. Það var gert í Tyrklandi og Robert er ekkert nema passlega ánægður með þá aðgerð. Þetta er samt ágætis bíll og hér líður okkur vel. Sem er gott, því hér verðum við næstu 6-7 vikurnar.
Ég fékk endanlegar staðfestingar um væntanlegt barn fljótlega eftir að við lögðum af stað frá flugvellinum og var hylltur í kjölfarið. Í München fórum við á veitingastað hvar ég pantaði mér steik og rauðvín. Eftir það fékk ég mér vindil. Og svo duttum við eiginlega bara í það. Við hlustuðum á tónlist og stoppuðum í vegasjoppum, keyptum okkur vistir og vín og héldum áfram. Stefnan var sett á Feneyjar. Klukkan sirka 11 að staðartíma (við erum klukkutíma á undan Íslandi) lognaðist ég út af í kojunni minni, sæll og glaður með á að giska 250 samofnar hugsanir í kollinum. Þá hafði ég reyndar þegar notað neyðarklósettið einu sinni, sem er bagalegt því ég var búinn að rífa svo mikið kjaft og berja mér á brjóst að ég gæti haldið í mér endalaust. Ég pissaði ekkert á síðasta túr. Núna tók mig svona 5 tíma að gefast upp.
Robert stoppaði í nótt til að leggja sig. Ég var sofandi og man ekki nákvæmlega hvenær, en ég rumskaði stuttu eftir að hann lagði i hann aftur. Þá var klukkan kannski hálf8. Eins og fyrr segir settum við stefnu á Feneyjar, en þar spilum við reyndar alls ekki í kvöld. Fyrsta giggið er í Treviso núna á eftir, en þar sem Feneyjar eru ekki nema í 45 kílómetra fjarlægð tókum við þá ákvörðun að túristast smá þar. Og það var alveg ljómandi. Við röltum og sigldum og átum og skoðuðum svo vitanlega þessa fáránlegu borg. Það verður nú seint sagt að þetta sé praktískt. Ég er ekkert hissa á því að malbik sé vinsælla til gatnagerðar en vatn, en þetta er auðvitað sérstakt og skemmtilegt. Ég bjóst samt við meiru held ég. Túrisminn er algerlega að sliga borgina, líkt og heiminn allan. Ég sá engan syngjandi gondólaræðara og skranbúðirnar eru voða fráhrindandi. En jájá, þetta er mjög töff og göngutúrinn mjög hressandi.
Núna sitjum við í bílnum á leið til Treviso. Nú tekur við að hitta fólk, endurnýja kynni við suma og kynnast öðrum. Það er alltaf smá spenna svona í upphafi túrs en það er nú yfirleitt skemmtilegt. Ég pantaði fána fyrir ferðina, svokallað Back Drop, sem við hengjum fyrir aftan okkur meðan við spilum. Ég var auðvitað með allt niðrum mig tímalega og lét því framleiðandann senda fánann beint á tónleikastaðinn í Treviso. Af reynslu get ég sagt að Ítalinn er ekki ábyggilegasta skepna jarðarinnar. Það er því aðeins fiðringur í mér með þetta. Ef fáninn finnst ekki erum við pínu fokkt.
Hólí kræst, ég er að verða pabbi.
Meistaraleg dagsins: Barn
Sköll dagsins: Flugvellir og farangur