Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Ég er orðinn þreyttur. Mig langar heim. Dagarnir eru tíðindalitlir fyrir utan tónleika hvert skiptið og allt skítugt, rakt og ómögulegt. Ég er auðvitað að mála þetta of svart, hvern dag gerist allskonar sem gaman er að taka þátt í. Svínsökklinn í boði Hjartar í gær var til dæmis alveg sérlega ánægjulegur, bæði maturinn sjálfur sem og félagsskapurinn og skreppið. Hjörtur er afskaplega góður maður. Hann hélt okkur selskap alveg þar til rútan fór í nótt og hann gerði það einstaklega skemmtilega. Svona menn er gaman að þekkja.
En já. Klukkan er 23.23 og ég sit í einhverjum hliðarsal við tónleikasalinn en hér er aðeins þunnt tjald sem skilur á milli. Ég er með eyrnatappa því Eluveitie eru á fullu. Ég horfi hér gegnum glufu á tjaldinu niður á sviðið sem er í kannski tíu metra fjarlægð frá mér. Við þekkjumst ansi vel orðið og þó svo að þau gefi allt í sviðsframkomuna sé ég á þeim að þau eru orðin þreytt. Þau túra endalaust og stanslaust en eygja núna sex vikna frí fram að túrnum sem við tökum með þeim í febrúar. Þetta er orðið svakalegt úthald og ég get ekki beðið eftir að faðma sófann minn, Agnesi og bumbuna eftir rúma viku. Svo verða þetta bestu jól í heimi heima hjá mömmu með öllum hennar afkvæmum og viðhengjum þeirra. Og eins og það sé ekki nógu stórkostleg höldum við áramótin með tengdaforeldrum Baldurs einhverstaðar nálægt Akranesi held ég. Þar verður öll hersingin og fleira fólk að auki. Ég ætti ekki að kvarta, lífið sem ég lifi er fullkomið. Það er bara svolítið lýjandi akkúrat núna.
Ég vaknaði svona tvö. Þá var ég að pissa á mig. Ég komst hjá því undir húsvegg rétt við rútuna. Og ég var í Geiselwind. Þessi staður markar svolítið merkilega stund í sögu Skálmaldar. Hér spiluðum við fyrsta giggið á fyrsta túrnum okkar árið 2011. Það kvöld kynntumst við Gazz og Alestorm-strákunum, Finntröllunum öllum og auðvitað Arkona sem nú túra með okkur á ný. Já, hér byrjaði þetta eiginlega allt saman, þetta útlandavesen á okkur.
Að því sögðu er þetta nú ekki merkilegur staður. Þetta er eiginlega eitt risastórt trökkstopp. Hér er bílastæði fyrir flutningabíla, eldsneytisaðstaða, KFC, Burger King, Subway, McDonalds, klámbúlla og svo þessi tónleikastaður. Ég hef ekki enn fengið botn í hvers vegna þessi staður er hér. Ég er soddan sauður að ég veit í raun ekkert hvar ég er, nema að jú, ég er í Þýskalandi. Mig grunar að við séum miðsvæðis, á milli einhverra borga sem svo hópast hingað. Svona eins og Húsvíkingar, Laugamenn og Akureyringar á Ýdalaball. Og þetta varð hörkuball og engin slagsmál.
Dagurinn var svo auðvitað tíðindalaus. Ég sá mig reyndar knúinn til þess að skrifa eins og einn pistil um þær ótrúlegu árásir sem Ríkisútvarpið okkar verður nú fyrir ef ruglið nær fram að ganga. Þar liggja önnur þúsund orð sem hægt er að lesa hér.
Baldur Ragnarsson. Þetta er hann.
Eftir það var þetta hefðbundna sándtékk. Það gekk vel, lókallinn með á nótunum og Flexi eins og hann gerist bestur. Djöfull óskaplega er gott að hafa þennan mann með sér á svona túr. Hann er ekki bara besti hljóðmaður í heimi, hann er líka vandamálaleysir og svo auðvitað stórskemmtilegur. Okkur lenti reyndar aðeins saman í gærkvöldi rétt þegar rútan var að fara. Við Baldur eigum svolítið af hákarli í rútunni, eitthvað sem stelpurnar komu með til Köln fyrir sirka 70 vikum síðan. Okkur þótti tilvalið að opna seinni dósina í gær og gefa með okkur því allt saman leystist upp í svolítið partý eftir giggið. Hjörtur þurfti líka hákarl. Upp úr sauð svo þegar Baldur fór með hálfa dolluna aftur inn í rútu. Böbbi og Axel voru ekkert ánægðir með það. Böbbi er dipló, Flex alls ekki. Ég er ekki viss um að neinn hafi haft rétt fyrir sér en Kana-plönin fóru algerlega út um þúfur og sumir fóru reiðir að sofa. Það var svo vitanlega bara leyst í dag og engir eftirmálar. Já, nú er þetta farið að taka í. Litlu vandamálin geta orðið stór þegar allir eru þreyttir og alla langar heim.
Eftir sándtékk fórum við hér yfir götuna hvar við fengum að borða. Og það var svona ljómandi. Þar rak ég augun í plakat frá tónleikum gærdagsins. Í gær spilaði ameríska dauðarokkssveitin Deicide á þessum sama stað. Ég hef hlustað á Glen Benton og félaga frá því snemma á tíunda áratugnum og tel mig mikinn aðdáanda. Og sama sviðinu stóðum við nú, bara með kannski 21 tíma millibili. Já, mér finnst þetta gaman.
Og svo gigg. Það var þýskt. Allir stóðu upp á endann og létu skemmta sér. Að því sögðu spiluðum við alveg sérlega vel og vorum í miklu stuði. Við erum orðnir alveg einstaklega vel smurðir eftir þetta úthald og gerum hlutina blindandi. 45 mínútur liðu á nótæm og við hamingjusamir eftir allt saman. Ljómandi ljómi. Við fórum svo aðeins fram áðan eftir að Arkona kláruðu og hittum fólkið. Þau eru skemmtileg hér í Þýskalandi. Þýsk, en mjög skemmtileg.
Eluveitie eru rétt í þessu að hefja fyrra lag í uppklappi. Mér sýnist að þetta klárist klukkan tólf. Brottför klukkan tvö og mig grunar að stemmarinn verði mjög rólegur fram að því. Og eitthvað segir mér að einhver reyni að draga mig á einhvern skyndibitastaðinn. Ég reyni hvað ég get.
Meistaralegt dagsins: Mjög skemmtilegt gigg.
Sköll dagsins: Mig langar heim.