Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Frídagur í gær og við eyddum honum í Berlín. Eftir bugunina daginn áður og stuttan svefn vöknuðum við snemma og héldum niður í bæ með lestinni. Þegar miðsvæðis kom skildum við við Þráinn sem hélt upp í reisu til Heidelberg á undan okkur en hér á hann allskonar fólk sem hann heimsótti sem svo aftur kom á tónleikana í kvöld. Hann skilaði sér svo bara hreinn, strokinn, sofinn og vel ilmandi með hreint lín í tösku í sándtékk í dag. Lúxus.
Við byrjuðum þetta á því að fá okkur árbít á einhverjum gervi-Starbucks. Það var svona líka ljómandi og hollt. Svo bara röltum við um í skítakulda og skoðuðum þetta helsta í Berlín. Ég kemst betur og betur að því að ég veit ekki rassgat um sögu veraldarinnar. Hér er allt fullt af stórum hliðum og veggjum sem ég veit ekkert um. Mér er hætt að vera alveg sama. Ég hafði engan áhuga á svona dóti fyrir nokkrum árum en það er að breytast. Ég þarf að lesa sögu heimsins. Kannski er það verkefnið fyrir næsta túr. Þetta var frekar stefnulaust hjá okkur og enginn asi á neinu. Seinnipartinn enduðum við svo á einhverjum Mexíkóveitingastað sem var alveg sérlega ljómandi ljómandi. Síðasta verkefni fyrir brottför var svo að finna hljóðfærabúð og kaupa hljómborðsstatíf. Það gekk sem betur fer, en mátti engu muna. Statífið sem okkur vantaði var ekki til en góði maðurinn í búðinni lét sig ekki muna um að púsla þessu saman úr allskonar hlutum og við enduðum með nákvæmlega það sem þurfti. Einu vandamálinu færra og Halli getur þá tekið rétta stöðu á ný. Við tókum svo bara lestarkerfið í rútuna og lögðum af stað. Mikið var nú gott að drulla sér örlítið í menninguna og slæpast, fá loft í lungun og aðeins horfa upp úr klofinu á sér. Mjög mikilvægt.
Ég bloggaði þarna í gær og þá var klukkan sirka hálf8. Böbbi stakk upp á einum bjór sem ég tók vel í. Þá voru hinir svona að kíkja í og úr kojum, flestir tóku smá kríu þar sem við höfðum jú sofið frekar lítið og farið snemma af stað. Þegar ég var kominn niður í hálfan bjór hugsaði ég með mér að ég ætti nú sennilega bara að fara í kojuna og láta hreinlega ráðast hvað gerðist næst. Þá stoppaði Robert í sjoppu. Tólf tímum síðar fór ég að sofa.
Á þessum tólf tímum tókst mér að drekka alveg voðalegt magn af allskonar sem var bæði gott og gaman. Í fyrsta skipti á túrnum tókum við fram spilastokk og spiluðum Kana í erg og gríð. Ég var lélegastur af okkur fjórum, en með mér spiluðu Halli, Böbbi og Flex. Það fór minna í taugarnar á mér en ætla mætti. Ég er góður í Kana. En í gær var ég of ákafur. Ég sagði of oft og of mikið. Ég fer fram á rímadds í kvöld. Gaman að spila Kana.
Ég man nú ekki alveg í hvaða röð menn fóru til svefns en við komum á leiðarenda kannski svona fimm. Held ég. Og þá var Robert alveg til í bjór. Og svo drukkum við viskí. Og spjölluðum tveir um öll heimsins mál til sirka hálf8. Þá fór ég að sofa. Og svaf til fimm, vaknaði merkilega óþunnur og drullaði mér inn á tónleikastaðinn hér í Heidelberg.
Upphaflega áttu tónleikarnir að vera í Darmstadt sem hlýtur þá að vera hér skammt frá, en sökum góðrar miðasölu voru þeir fluttir hingað. Þetta er nú eiginlega ekki tónleikastaður. Hér er allt í hálffokheldum skemmum, gashitarar og hráleikinn allsráðandi. En hér er nú allt til alls svo sem pláss og alveg sérlega geðslegur matur. Laxa-lasagne er eitthvað sem maður hefði kannski ekki veðjað á að væri gott en var svona djöfull mikið ágætt. Ég hef kosið að kalla þennan rétt laxagne. Eitthvað sem andmeistarakokkurinn ég bið aðra um að elda fyrir mig þegar ég kem heim. Sándtékkið var alveg stórkostlega venjulegt, sviðið meðalstórt og tækjakostur í ljóma. Einhver hljóðdraugur elti okkur þó á sviðinu og allt varð voðalega þungt og grautað. Eitthvað sem við erum samt vanir að tækla.
Svo gerðum við okkur klára og gerðum það sem maður gerir. Ég er fyrir löngu búinn að missa sjónar af Manager-mönnum. Ég man að Böbbi er að brillera með Dortmund, Halli var rekinn held ég þrisvar á fyrsta tímabili sínu, Þrási dólar þetta af öryggi með Manchester United, Flex er svo helsjúkur að hann er með tvo leiki í gangi í einu, annan í spjaldinu og hinn í símanum og Jón gerir held ég bara eitthvað. Partýin eru oft frekar súr en þetta styttir stundir. Ég er svo oftast bara að keyra tvívíðan bíl frá vinstri til hægri og Baldur fann sér einhvern fuglaleik. En já, í gallann og á svið.
„Þjóðverjar. Óttalega eru þeir þýskir,“ skrifar Bibbi.
Þjóðverjar. Óttalega eru þeir þýskir. Salurinn var ljómandi stór og allt eins og best verður á kosið. Mjög margir mættir að sjá og heyra og útlit fyrir frábært gigg. En svo bara stóðu þau. Alveg graf. Þeim fannst alveg gaman og brostu og klöppuðu og svoleiðis en þetta var svoldið eins og kammertónleikastemning. Ég náði nú alveg að klúðra einu allharkalega. Til að stilla bassann er ég með þar til gert tæki, í daglegu tali nefnt tjúner, sem ég kveiki á með fætinum, slæ á strengina og þá fæ ég upplýsingar um hvort allt sé í lagi eða hverju ég þurfi að breyta, hífa eða slaka. Tækið rýfur í leiðinni hljóðmerkið svo áhorfendur þurfi ekki að hlusta á þessa leiðinlegu aðgerð. Þegar maður gleymir að kveikja aftur fyrir lag hefur maður klunnað. Þegar maður er staddur á sviði þar sem maður heyrir ekki neitt í neinu og fattar ekki neitt fyrr en eftir heilt lag hefur maður klunnað miklu meira. Með fuglum en án bassa. Þetta var bara eitt af þessum giggum, Flexi eitthvað örlítið ósáttur við sína frammistöðu og allt hálfþungt. En þetta slapp allt fyrir horn þótt erfitt sé að öskra á fólk sem öskrar ekki til baka.
Núna er klukkan 23.23, ég er í rútu og horfi kringum mig á allan þann djöfuldóm af tuskudýrum sem Baldur er búinn að safna að sér smám saman og gefa Robert. Þetta verða bráðum tíu kvikindi. Flestir eru bara fyndnir og krúttlegir en risabangsinn sem situr hér í öryggisbelti gerir ekkert annað en taka pláss. Voðalegt er þetta.
Ég er búinn að vera að þessu bloggi í örugglega einn og hálfan tíma, með hléum þó því hér náum við smá interneti. Smá búinn að spjalla heim og bara slæpast. Ég er þreyttur, ég ætla ekki að ljúga öðru. Ég ætla bara að láta það ráðast hvað gerst næst. Á morgun spilum við í Lúxembúrg og þangað hef ég aldrei komið. Aksturinn ku víst stuttur og við leggjum í hann sennilega um fimm, jafnvel síðar.
Meistaralegt dagsins: Laxagne.
Sköll dagsins: Án bassa.