Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Pólland já. Við höfum spilað tvisvar áður hér í Kraká. Ég man ekki nákvæmlega hvernig viðtökur við fengum þá en ég man að allt var frekar jákvætt. En það getur ekki verið að hlutirnir hafi verið eins frábærlega snilldarlegir og í dag. Hvílíkt gigg!
Ég kláraði Black Mirror í kojunni í gærkveldi. Við náðum reyndar að verða svolítið fullir áður en að því kom en tilfinningin að skríða í kristalshreinu kojuna var jafnvel yfir væntingum. Við vorum þá reyndar í miðju stríði (þegar ég segi við þá meina ég Robert) við að sigrast á handónýtum vegaköflum. Á köflum eru vegirnir hér byggðir úr steinhellum sem lúkka ekkert svo illa þegar maður horfir út um framrúðuna. Staðreyndin er hinsvegar sú að þessar hellur rísa og síga á víxl og yfirreiðin er vægast sagt ógeð. Þráinn fullyrti að hann hefði náð fullkomnu þyngdarleysi á einhverjum tíma hvar hann skutlaðist upp af dýnunni. Þá var ég sennilega löngu sofnaður. Ég sef af mér allt sem er. Það er mín gjöf frá guðunum.
Ég vaknaði klukkan þrjú. Þá voru allir á bak og burt utan við Robert sem var kominn í hvíldina og svo Flex sem slæst við einhvern flensuskít. Ég ruslaði mér inn á tónleikastaðinn og fann þar litla bróður sem sagði mér að restin hefði haldið í bæjarferð til að skoða Kraká. Þetta er sum sé okkar þriðja heimsókn hingað og í öll skiptin hafa einhverjir okkar farið niður í bæ. En aldrei ég. Ég geymi þetta fyrir ellina, að skoða Kraká. Eða neinei. Böbbi situr hér og les yfir öxlina á mér og bendir mér á að einu sinni höfum við víst verið hér sem túristar. Þá sáum við fyrstu útgáfuna af „The Big Four“ þar sem Metallica, Slayer, Megadeth og Anthrax leiddu saman hesta sína í fyrsta skipti. Þetta var árið 2010 segir hann mér. Þetta er ljómandi falleg borg, ég man það núna. Ég eyði ellinni þá bara í annað.
Ég opnaði internetið og reyndi að sinna því sem hægt var. Svaraði einu viðtali yfir netið og reyndi að gerast nytsamlegur. Þónokkrir hafa spurt mig út í hverju þetta netleysi sæti og svarið við því er einfalt: Á tónleikastöðunum sem við spilum á er svo að segja alltaf nettenging. Og hún er oftast ljómandi ágæt. En svo hrúgast allt tónleikaferðalagið inn á staðinn, allir tengja eitt til þrjú tæki við ráterinn og þá hrynur draslið. Þannig er maður lukkulegur með eins og klukkutíma samband við netheima á dag og blóta janfhart og hinir fjörutíu að ekkert virki. Mitt fyrsta verk er yfirleitt að hlaða upp bloggi gærdagsins, en það er yfirleitt fremur auðvelt. Baldur baslar meira við að koma myndunum frá sér. Að sumu leyti er þetta mjög hollt. Heimurinn er meira en það sem gerist online. Maður fattar það ekkert endilega fyrr en manni er meinaður aðgangur.
Einhverstaðar í dag hittum við bræður á úkraínskan blaðamann sem hafði mikinn áhuga á Skálmöld og vissi heilmikið. Skemmtilegur hálftími á spjalli við afskaplega velheppnaðan mann.
Giggið í Kraká var sturlun, segir Bibbi.
Strákarnir skiluðu sér í hús og fljótlega eftir það hófust tónleikarnir. Þetta var fyrsta Póllands-giggið af þremur í röð og með á þessum legg eru þrjú aukabönd. Eitt af þeim er í það minnsta hérlenskt, annað er frá Rússlandi en ég hef ekki hugmynd um hið þriðja. Þetta hefur þó í för með sér að við fáum ekkert eiginlegt sándtékk. Eftir þriðja band rusluðum við okkur upp á svið fyrir framan fullan sal og tókum hið svokallaða línutékk. Þá er allt sett í samband en lítið annað gert en athugað hvort allt virki ekki alveg örugglega. Eftir það skutluðumst við aðeins baksviðs og biðum eftir að introið byrjaði.
Ég þarf nú samt að játa eitt. Það var mikil mannmergð í bakherberginu svo ég ákvað að klæða mig úti í rútu. Sennilega hefur það eitthvað með líferni undanfarinna daga og vikna að gera, en ég var ekki nema passlega vel stemmdur fyrir átökin. Og ég stóð ég einn í rútunni hálfómögulegur. Ég brá á það ráð að sulla svolítið úr Jack Daniels-flöskunni hans Þrába í plastglas, teygði mig í vítamínglasið sem ég keypti á Leifsstöð og notaði þetta sem nesti. Ég veit ekki hvort af þessu tvennu virkaði svona vel en ég varð alveg bærilegur strax á eftir. En já, þetta fær mann aðeins til að hugsa. Umrætt tvennt á fastandi maga er ekki endilega til eftirbreytni. En já, virkaði.
Og svo á svið. Þetta gigg var sturlun. Hrein andskotans sturlun. Hér mætir fólk til að hafa gaman, svo mikið er víst. Frá fyrsta lagi voru allir andar lausir og stappfullur salurinn gersamlega snarklikkaður. Ég man ekki eftir svona klikkun nema mögulega á Eistnaflugi. Og jújú, heima á Íslandi svo sem almennt. Við ættum að gera okkur grein fyrir því að Ísland getur af sér bæði bestu listamenn og áhangendur í heimi. Svo ég gæti nú allrar sanngirni. En að öllu gamni slepptu, þetta gigg var ótrúlegt. Pyttir af öllum mögulegum gerðum, gullfallegt fólk og heiðarleg gleði hvert sem litið var. Þetta var rooosalegt.
Eftir gigg spjölluðum við helling við pöpulinn. Hér býr fallegt fólk með fallegar skoðanir sem gaman er að ræða. Ég á þónokkra pólska vini á Íslandi og þetta mentalítet rímar algerlega við þá meistarasnillinga. Þetta land getur af sér gott fólk. Við eigum eftir tvö gigg hér í landi á þessum túr, í dag og á morgun, en ég vona svo sannarlega að við komum hingað til Kraká strax á næsta ári.
Varsjá á morgun. Klukkan er 1.43 og við erum að leggja af stað. Allir í koju nema ég, litli skítur og Jón Geir. Og vitanlega Robert. Til Varsjár eru sirka fimm tímar segir Robert mér. Og nú færist rútan. Ég ætla að sjá til hvort ég set í mig meira af vítamíninu eða þruma mér í koju.
Meistarlegt dagsins: Besta gigg heimsins.
Sköll dagsins. Ég fór inn á staðarklósettið til að pissa eftir að Eluveitie voru búin að spila. Þar inni var drulla upp á miðjan skósóla en ég huggaði mig við þá staðreynd að ég væri í nokkuð þéttum Converse-skóm. Þegar ég öslaði út sá ég að vinstri skóreimin var laus.
Viðbót klukkan 1.50: Flexi er með flensu og kvartaði undan kulda í kojunni. Robert leysti það mál með að sækja lítinn rafmagnsofn í eitthvert leynihólf. Sá er nú staðsettur á miðjum ganginum hvar við sofum. Og núna rétt í þessu skreið Böbbi úr neðstu koju rétt til að bjarga lífi sínu sökum ofsahita. Okkur verður misheitt í nótt. Ég er heitfengur og sef í efstu koju. Ætli ég setji ekki í mig svolítið af vítamínum og fresti kojuferð aðeins.