Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Síðasta Þýskalandsgiggið á enda, frídagur á morgun og svo Ljubljana á þriðjudaginn. Nákvæmlega núna er vika í að við löbbum út úr Leifsstöð. Ég hlakka til.
Ég át tvo ostborgara af McDonalds-gerð í gær. Það var í sjálfsvörn og reyndar voru þeir gjöf. Samferðamenn mínir átu flestir meira, og sumir jafnvel mun. Í þungarokkskreðsunni tíðkast grænmetisát og margir sem túra með okkur kenna sig við þá stefnu. Einn af þeim er Evo, annar gítarleikari Eluveitie. Ég veit ekki hvernig þetta stuðgrín kom upp en mér skilst að einhver úr bandinu hafi skorað á hann að borða tíu svona ostborgara. Hann svaraði því til að hann skyldi gera svo ef þau myndu kaupa 100. Og það gerðu þau. Strax eftir gigg voru 100 ostborgarar frá McDonalds flæðandi um allt og allir fengu meira en nóg vitanlega. Þegar ég kvaddi aumingja Evo í gær var hann búinn með átta og var alveg að drepast. Samferðafólk hans sá þó til þess að þessir tveir sem út af stóðu væru ávallt í augsýn. Það var létt yfir hópnum, hlátur og fíflaskapur sem gladdi mig. Gærkvöldið hjá okkur fór svo bara á þá leið að við spiluðum Kana í erg og gríð. Ég hljóp í sjoppuna áður en við lögðum af stað og keypti þrjár rauðvín. Þær virðista allar hafa verið vondar, en þessi gríska númer tvö var langverst. Tvær þeirra drukkum sum sé yfir spilunum, ég, Böbbi, Baldur og Flex. Hinir voru í koju. Sirka hálf5 var Böbbi orðinn aðframkominn af þreytu svo við létum gott heita. Hálftíma síðar stoppaði Robert fyrir þvaglát og svo fór ég að sofa.
Þegar ég vaknaði klukkan tvö höfðu nokkir okkar farið í bæjarferð. Ég, Baldur og Þrási sváfum það af okkur. Ég skoða þessa borg síðar. Núna er klukkan 22.54, við Flexi einir í rútu, jú og Robert sem er sofandi. Ég er að drekka síðustu rauðvínsflöskuna en Axel er að búa til ofurstafla af samlokum með hnetusmjöri og sultu. Það verður veisla á eftir. Sultan er gervilega rauð og úr plastdós, smjörið alveg hnausað og gróft og þessi tvö samlokubrauð eru vægast sagt grunsamlega hvít. Já og hafa síðasta söludag þann 17. desember. Við getum þá tekið þau með heim ef við náum ekki að klára. Strákarnir eru inni að drekka bjór og spjalla við fólk, sumir eru á ágætis interneti og hafa nýtt tímann til að hafa samband heim. Við erum nú almennt frekar rólegir sýnist mér.
Þarna er blogg að verða til. Þetta eru aðstæðurnar!
Giggið var ósköp ágætt. Það voru svo sem ekki margir mættir og miðasalan sennilega dræm. Við spiluðum hér á þessum sama stað árið 2011 og þá voru mun færri mættir. Kannski er þetta bara ekki góður staður til að halda tónleika á. Ég á þó bágt með að trúa því því hér uppi um alla veggi hanga plaköt sem segja sögu síðustu ára. Flest auglýsa þau reyndar amerískar pönksveitir og starfsfólkið bæði hlustar á slíka tónlist og klæðist bolum í þær áttir. Kannski ég ætti frekar að koma hingað með Innvortis bara. Giggið var alveg sjóðandi heitt og ég var viðbjóðslega ógeðslegur þegar það var búið. Mig logsveið í svitahlaupin augun strax í fyrsta lagi og sullaðist þetta eftir strengjunum. Sem minnir mig á, það er best að ég skipti um strengi fyrir giggið á þriðjudaginn. Síðustu vikuna hef ég bara notað annan bassann minn, hinn er orðinn eitthvað örlítið tæpur og strengir farnir að slást í bönd. Sennilega er það kuldinn í kerrunni sem orsakar það. Hann dugar þó ágætlega sem varabassi ef eitthvað kemur upp á svo ég geymi viðgerðaraðgerðir þar til heim kemur. Ég treysti Gunna og Guðna bara betur en öðrum í þessum efnum. En já, sveittur.
Ég fór í sturtu og skipti um föt. Það er orðið alveg skammarlega langt síðan síðast svo langt að ég man ekki hvenær það var. Ég er betri svona og sennilega allir í kringum mig líka. Ég átti örstutt spjall við gesti og gangandi áður en ég flúði hingað upp í rútu. Ég er þreyttur og hugsi að ég sofi bara slatta í nótt.
Og svo er frí á morgun. Stóra rútan verður hér þar til annað kvöld en mér skilst að bæði við og Rússarnir keyri klukkan þrjú í nótt. Ég væri alveg til í að komast sem fyrst til Ljubljana og jafnvel ná að eyða hluta af frídeginum þar því það er falleg borg. En þangað er djöfull langt, kannski sirka tíu tíma akstur. Sjáum til, ég tek öllu sem kemur.
Hafi það verið óljóst langar mig aðeins að fara yfir hvernig hópurinn á þessu ferðalagi er samsettur. Þetta eru fjórir bílar, þar af einn sendibíll sem skutlast með trommupallinn hans Merlin og fullt af öðru drasli. Sá er keyrður af gömlum þýskumælandi meistara sem ég bara get ekki í augnablikinu munað hvað heitir. Við erum svo í einum bíl, sex Skálmeldingar, Flexi og Robert bílstjóri. Rússarnir eru á afskaplega litlum bíl og þar eru þau 8, fimm meðlimir bandsins, Anton mixermaður og mangager, bílstjóri og svo stelpan sem sér um að selja boli fyrir okkur og þau. Þau eru nýlega komin með nýja bílstýru, sú er þýsk og alveg óskaplega hress og heillandi. Varðandi bolasölumál erum við á þriðju manneskju þar, Cat skildi við okkur rétt á eftir Gunna sennilega, við af henni tók Gabor sem er vinalegur og hávaxinn strákur. Hann er í smá fríi og núna leysir píslin hún Sandra hann af. Og svo eru það allir hinir í stóru rútunni. Látum okkur nú sjá. Þau eru átta í bandinu. Tæknimenn á sviði eru þrír, Chris trommutekk, Tibor gítartekk, sem einnig er túrmanager og meistari Marci sem er mónitormaður. Konan hans Merlin trommara, Kate, er hljóðmeistari fyrir salinn og Kris er ljósamaður. Jojo selur svo bolina fyrir þau og Angry Mike keyrir. Ef ég er ekki að gleyma neinum þá erum við 31 stykki. Ætli ég stefni ekki að því að verða búinn að læra öll nöfnin áður en við höldum heim.
Staðan er sú sama núna og áðan utan þess að Flexi er búinn að smyrja og er að skera blýþungar samlokurnar horn í horn. Þetta er girnilegra svona segir hann. Þetta verður rosaleg veisla sýnist mér.
Meistaralegt dagsins: Hnetusmjör.
Sköll dagsins: Augnsviði.