Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Gunni og Þrábi voru aðeins að fá sér þegar ég lagði mig rétt fyrir ferjuferð. Þetta var í fyrradag, því við áttum frídag í gær. Þeir sváfu líka í ferjunni, ekki mjög tignarlega, með höfuðtól báðir og hangandi fram á bringuna á sjálfum sér. Baldur svaf heila tvo tíma í sófa, mun tignarlegri, en þó alls ekki. Ég borðaði Full English Breakfast þarna um borð og kláraði. Óskiljanlegt með öllu auðvitað klukkan fimm að nóttu. Ég skreið svo í koju þegar við höfðum stigið á hina hvítu en myrkvuðu Dover-kletta.
Ísinn.
Ég held að Robert hafi stoppað einu sinni á leið sinni til London og sofið. Ég rumskaði í það minnsta þegar rútan var sett í gang aftur en svo ekki fyrr en síminn minn hringdi við eyrað á mér í kojunni. Ég svaraði þessu mjög svo framandi númeri en heyrði ekki nema eitthvað ógreinilegt og sundurslitið muldur. Ég skellti auðvitað bara á og setti símann á sælent. Sennilega ekki mjög ábyrgðarfullt fyrir mann sem á von á barni í öðru landi. Svo hélt ég áfram að sofa. Böbbi og Flexi voru ekki par ánægðir með það.
Ég vissi ekkert fyrr en ég vaknaði á áfangastað, í einhverju úthverfinu hvar við eyddum nóttinn eftir, í kyrrstöðu. Um leið og ég reis úr koju stigu þeir svilarnir inn í rútuna, bæði kaldir og pirraðir. Þannig hafði það gerst að þeir tvemenningar höfðu vaknað talsvert löngu á undan mér til þess eins að finna Robert í flágellu. Hann hafði ætlað að troða rútunni eftir götuslóða sem hafði verið skipt tímabundið með þartilgerðu skammtímahliði. Robert bað þá að stökkva út til að rífa til hliðið sem þeir og gerðu. Að því loknu reif umferðin í Robert og hann neyddist til að keyra á undan þeim. Mér skilst að í svipinn hafi þetta ekki virst sem stórkostlegt vandamál, en veskis-, síma- og yfirhafnalausir svilarnir, tveimur tímum seinna, voru ekki alveg á sama máli. Símtalið sem ég fékk þarna um morguninn var sum sé úr einhverjum símaklefanum sem engu skilaði, en eftir allskonar streð náðu þeir loks á internetkaffi sem skaffaði þeim samband við Veru, kærustu Baldurs, sem síðan hringdi í hann. Hann gat gefið upp götuheiti sem þeir síðan römbuðu á. Sá er ritar vill minna á nýtilkomin klaufabárðahúðflúr þeirra svilanna. Robert er frá Tékklandi líkt og þeir bræður. Kaldhæðnin á holdið teiknað.
Gunni átti afmæli í gær og hann réð því ferðinni. Hér í Lundúnaborg bjó hann fyrir nokkru síðan, eyddi tveimur og hálfu ári og var mikið í mun að sýna okkur hvar hann hafði alið manninn. Það var vægast sagt gaman. Þeir sem ekki hafa notið þess að hlusta á bíspertan Mývetning lýsa því sem skiptir máli eiga afskaplega mikið eftir. Þannig gekk hann um götur, benti á hús og sagði frá, með brjóstkassann út í loftið og skimandi eftir því hvort við værum ekki örugglega allir að hlusta. Sem við vorum. Þetta var frábært. Hápunkturinn var sennilega hinn ameríski dæner sem afmælisbarnið hafði eytt mýmörgum pundum á, og grætt önnur. Við borðuðum einhver ósköp, og ég sennilega mest. Hamborgari á fjórum hæðum er eitthvað sem ég álít nú sem sigraða þraut, þraut sem þarf ekki að þreyta aftur.
Síðar hittum við Helgu systur okkar Baldurs, og Sam Pegg (Helga Pegg!) sem eru búsett hér í borg, og til viðbótar gamlan kennara Gunna sem var algert glæsimenni. Eftir pöbbarölt og almenna skemmtun enduðum við með því að borða meira. Það er eiginlega óskiljanlegt. Síðan tókum við lestina í rútuna og sváfum.
Ég svaf lengst. Ég held að allir hinir hafi farið í bæjarferð, utan Böbba sem gisti hjá Valla bróður sínum, og Marellu hans. Ég svaf og las á víxl þar til klukkan var að verða þrjú. Þá var Robert búinn að færa rútuna niður á tónleikastaðinn og var að rífast við heimamenn. Þetta er reynslan, tónleikar í Bretlandi eru mjög oft vesenismál. Eftir talsvert karp náðum við að losa bílinn af græjum og þá um leið lét Robert sig hverfa. Strákarnir komu beint niður á venjú með smekkfulla poka af vínylplötum og öðru góðgæti. Eftir það tók við bið sem teygði sig óþægilega langt. Rússarnir voru óþarflega lengi að græja sín mál en það hafði svo sem engin úrslitaáhrif. Í fyrsta skipti á túrnum lentum við á húsmönnum sem höfðu ekki hugmynd um hvernig lífið virkar. Þannig vorum við alls ekki tilbúnir þegar húsið opnaði 7 mínútum of seint og þá eins og 23 mínútur í gigg. Hafi það hafi ekki verið nógu knappt hafði plötuútgáfan okkar hér úti skipulagt 4 viðtöl sem við þurftum að taka fyrir gigg. Við skiptum okkur í fjóra hópa og rusluðum þessu af meðfram því sem við klæddum okkur í tónleikagallann. Ég hlakka svolítið til að sjá útkomu viðtalanna. Aumingja svarthærði stelpugarmurinn sem horfði á mig fara í svitastorkinn svartklæðnaðinn átti þetta alls ekki skilið.
En svo tók við það sem við höfum svo oft séð. Þegar blæs á móti er Skálmöldin best. Við hófum leika fyrir kannski hálfan sal af fólki og drógum svo fólkið til okkar. Þegar upp var staðið var kominn mikill hiti í hópinn, pytturinn orðinn grjótharður og allt eins og við viljum hafa það. Þetta var móralskur sigur, sennilega sá erfiðasti á túrnum hingað til og þess vegna sérlega gefandi. Fokkjá!
Helga, Pegg, Valli og Marella sóttu tónleikana, sem og Christina og Guðbrandur (jú, það eðalfólk sem gaf okkur kaffikvörnina, sjá fyrri færslur þessa bloggs), og einhverjir fleiri. Þetta var allt saman sérlega ágætt og kvöldið endaði á einhverjum pöbbnum þarna nálægt. Núna er klukkan 1.16 og við erum búnir að vera á ferðinni í sirka hálftíma. Við sitjum allir í betri stofunni, Robert er að keyra og Cat horfin til baka í Rússarútuna. Við spilum í Manchester-borg á morgun og þangað er 321 km. keyrsla að því að Böbbi segir mér. Hér er glatt á hjalla. Þrási fann slóvenska pressu af Dynasty-plötunni með Kiss á flakki sínu í dag. Pressu sem hann á ekki. Nördarnir í búðinni höfðu víst verðlagt þennan fjársjóð sem venjulega, ameríska pressu. Amatörar. Amatörar og vínylkauðar. Ég er nýsturtaður og í þokkalega hreinum fötum. Þetta er allt saman svo ágætt.
Meistaralegt dagsins: Helga, Pegg, Valli og Marella.
Sköll dagsins: Tímahrak af völdum þeirra sem vinna ekki vinnuna sína