Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Þetta var meistaralegur dagur, alveg meistaralegur. Ég vaknaði örugglega tvö, en það gæti hafa verið fjögur. Nei það var tvö. Ég var síðastur á fætur, rétt eftir Þrába og þá voru allir komnir í skóna. Björn heitir maður og skrifar fyrir hið virta tímarit Metal Hammer þeirra Þjóðverja. Hann hefur fylgt túrnum eftir í þrjá daga og ætlar að skilja eftir sig þriggja síðna grein um allt saman. Sá er afskaplega ágætur og strákarnir höfðu haft við hann allskonar samskipti síðustu daga, Jón Geir fór framarlega í að hella hann fullan í gær og/eða fyrradag, hann hafði komið til Íslands nokkrum sinnum og ég veit ekki hvað og hvað. Hann er sjálfur frá Stuttgart sem er ekki nema örfáa tugkílómetra frá hvar við erum nú og hafði boðist til að sýna okkur Ludwigsburg. Og það þáðum við í dag. Þetta var svo sem ekki flókið eða innihaldsmikið en dagurinn var afskaplega góður. Hann fór með okkur á mjög svo þýskan jólamarkað hvar ég fékk mér tvær tegundir jólavíns í morgunmat. Við röltum svo um og enduðum á litlum bruggbar sem sörveraði bæði bjór og gúmmelaði. Og svo héldum við upp á venjú í síðbúið sándtékk.
Við höfðum aðeins 40 mínútur sem var afleiða þess að hávaða má ekki hafa hér fyrr en eftir ákveðinn tíma á daginn á þessum tiltekna stað. Við leystum það verkefni á rauntíma og það eina sem tafði okkur var einhver örlítil vöm tæknimanna staðarins sem annars voru nú alveg með á nótunum. Við fengum svo svolítinn mat sem bragðaðist ágætlega og héldum okkar strik. Eitt viðtal tókum við milli tékks og giggs við mann sem talaði grunsamlega góða íslensku. Sá heitir Gaston Ragnar, getinn af íslenskri móður og lúxenbúrgskum föður. Þegar ég segi grunsamlega meina ég fullkomna því ég hefði alveg getað tekið hann fyrir hreinræktaðan Reykvíking, en hann hefur þó aldrei búið á Íslandi. Sérlega skemmtilegur maður sem við eyddum talsverðum tíma með í kvöld. Viðtalið var skemmtilegt, útvarpsviðtal fyrir stöð sem ég er auðvitað búinn að gleyma hvað heitir. Og svo skutluðum við okkur í gallann.
Giggið var frábært. Auðvitað svolítið þýskt og þessvegna ekki endilega allir hoppandi um gólfin. Ég átti smá samtal eftir allt saman við áðurnefndan Björn, hvers vegna þýskarinn hefði sig ekki meira í frammi á svona tónleikum. Björn vill meina að þau séu spillt. Hér gerist svo margt, í hverri einustu borg eru tónleikar á öllum götuhornum hvert einasta kvöld og þeim finnst þau aldrei vera að missa af neinu. Og attitúdið er: „Skemmtu mér helvítið þitt, ég gæti alveg verið annars staðar akkúrat núna!“ Og það gerðum við í kvöld.
Þetta var sennilega eitt best spilaða gigg sem við höfum átt á túrnum. Við vorum bara on it. Allt steinlá og við funheitir á sviðinu. Áhorfendur voru skítkaldir í upphafi, en það þurfum við jú að díla við alla daga og fylgir því að vera fyrsta band á svið. (Í febrúar förum við svo aftur á túr með Eluveitie, þá sem annað band af þremur og getum ekki skýlt okkur með þessari afsökun, en þetta er nú samt svona.) Fyrsta lag kvöldsins er og verður allt stíft, kalt og erfitt. Eftir það höfum við 45 mínútur af fæting til að ná öllum með okkur. Og það gerðum við með bravúr í dag. Þetta endaði frábærlega og við vorum glaðir, sveittir og fullnægðir eftir allt saman, og áhorfendur líka. Skálmöld upp á sitt besta við fremur erfiðar aðstæður. Ég held að ég eigi eftir að muna þetta gigg.
Flex, eða Flexi. Þetta er hann. Þið þekkið hann orðið úr pistlunum. Hann er maðurinn sem fær þetta til að hljóma vel.
Og svo duttum við íða. Björn fór mikinn og er afskaplega hrifinn af Skálmöld. Hann er þrjátíuogtveggja ára gamall, þekkir sitt rokk og hefur gaman af því að vera til. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en í dag en hann var maðurinn sem sendi mér spurningar fyrir viðtal sem birtist í áður nefndu tímariti Metal Hammer. Það viðtal er mér eftirminnilegt því það var mjög skemmtilegt og innihaldsríkt, spurningar frá manni sem hafði greinilega kynnt sér málin og hafði skoðun. Það rímaði svo aftur við persónuleikann. Hann var vissulega skemmilegur túrgæd í dag en ekki síður góður drykkjufélagi í kvöld. Hann hafði uppi háleit plön um að ná síðasta strætó heim, en hann er frá Stuttgart sem er í allra næsta nágrenni. Við klúðruðum því viljandi fyrir honum með íslensku áfengi og skemmtilegum félagsskap. Við Halli kvöddum hann úti á plani fyrir stuttu síðan ásamt Gaston Ragnari sem ætlaði á fá far með leigubílnum. Leigubílnum sem Metal Hammer borgar. Gott kvöld og góður dagur með miklum meisturum.
Einn enn langar mig að nefna. Hér mætti maður að nafni Ron Merz. Sá er einn af ótrúlega mörgum Barna Loka sem mætir á gigg á þessum túr. Börn Loka er aðdáendaklúbbur Skálmaldar sem rekinn er heiman frá, félagsskapur sem við höfum lítil afskipti af en hefur verið rekinn með stórkostlegheitum af mjög góðu fólki frá upphafi. Þar eru í meirihluta Íslendingar en þónokkuð margir útlendingar líka. Ron þessi hefur verið sýnilegur í klúbbnum á lokuðu Facebook-svæði í allnokkurn tíma og við höfum raunar hitt hann áður. Ég man bara ekki alveg hvar. Í þetta skipti mætti hann með gjafir því hann heldur úti hljómsveit sem hann nefni Bloodred og þarna gaf hann okkur tveggja laga demóplötu hverjum. Við áttum gott spjall og þar fer drengur góður. Ég ætla að tékka á plötunni hans á eftir.
Klukkan er 1.30, helstu samferðamenn dagsins farnir heim og við allir í rútu. Nei, Baldur er úti að tala í símann. Ég er búinn að heyra tvær tímasetningar fyrir brottför, tvö og þrjú. Það gildir einu svo sem. Halli og Þráb eru í koju, Jón Geir er á brókinni og því vonandi á sömu leið, Flexi og Böbbi spila Manager og Robert er sofandi. Flexi er að agitera fyrir Kana. Ég er til, svo mikið er víst. Baldur fékk óvæntar gjafir frá Rússunum, eina Jack og eina rauðvín. Hann segist aukinheldur vera klár í að ganga í Hallastað í Kananum. Hann getur samt ekkert held ég. Þetta veltur á Böbba núna, hann er í einhverjum væl yfir þreytu. Almennt eru skeytin góð úr herbúðum Skálmaldar og ekki yfir nokkru að kvarta.
Meistaralegt dagins: Seinni drykkurinn sem við fengum okkur í jólaþorpinu hét „Heiβe Oma“. Það útleggst sem „Heit amma“.
Sköll dagins: Peberoni er ekki pepperoni. Flexi fékk pitsu „með grænum, litum súrpiprum“.