Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Við hlustuðum á Iron Maiden í sjö tíma streit í nótt. Við hlustuðum bara á góðu lögin og aldrei á sama lagið tvisvar. Þegar klukkutími var á áfangastað stöðvaði Robert rútuna til að leggja sig. Þá vorum við allir orðnir fullir og sumir mjög. Baldur fór í koju klukkan fimm, Halli sirka klukkutíma síðar og ætli klukkan hafi ekki verið sjö þegar Böbbi var búinn að bursta tennurnar og datt inn í rútuna. Það var nú ekkert mjög tignarlegt en djöfull var það fyndið. Ótrúlegt en satt, þarna vorum við hvorki búnir að hlusta á Number of the Beast né Run to the Hills. Maiden. Bara Maiden.
Ég rumskaði svo þegar Robert ræsti bílinn til að klára aksturinn. Ég veit nákvæmlega ekkert hvað klukkan var þá og svo vaknaði ég bara klukkan þrjú. Flexi hafði skutlað sér eitthvað niður í bæ, sem og Robert sem er fæddur hér og uppalinn. Hann gerir þó ekki mikið með þá staðreynd og verður alltaf frekar foj þegar þetta ber á góma. Hann lítur alls ekki út eins og Tékki og hagar sér heldur ekki þannig. Svo ég alhæfi nú aðeins. Ég hef ekkert séð af Prag í þetta skiptið nema húsasundið þar sem rútan er. Og kem svo sem ekki til með að gera það heldur, klukkan er 21.52, Eluveitie á fyrsta lagi og við áætlum brottför klukkan eitt. Alveg týpískur túrdagur þar sem maður sér ekkert nema rútu og skítugan tónleikastað. Þannig er það nú bara.
Bibbi í símanum. Hann er búinn að taka við af hundinum, sem þarfasti þjónninn.
Við hengsluðumst eitthvað fram eftir degi. Allt var með seinni skipunum, stóra rútan skilaði sér gríðarseint sökum langs aksturs og ekkert var klárt í sándtékk fyrr en allt of seint. Rússarnir taka sinn tíma dag hvern og sá tími er helst til langur. Sérstaklega á dögum sem þessum þar sem tíminn er enginn. Við lentum því í gríðarlegu tímahraki og ekki hjálpaði til að sviðsmaðurinn var hálfviti. Sumir eru ekki starfi sínu vaxnir, aðrir eru leiðinlegir, en þegar menn eru dónar, vanhæfir og drullusokkar hef ég enga samúð. Hálfviti, það er það sem hann var. Við stigum því af sviðinu um leið og opnað var inn í sal og þá var varla búið að tengja allar snúrur.
En þá fór Skálmaldar-vélin í gang. Við klæddum okkur í fötin, börðum í axlir hvers annars og á svið. Og þetta gigg átum við. Salurinn algerlega pakkfullur og enginn átti séns. Flexi leysti þetta svo á sínum enda eins og Flexi gerir og allt sándaði eins og ljónið. Og krádið, maður minn. Tékkar vita alveg hvernig skemmtun fer fram. Allir í rosalegum gír og hvert einasta lag gersamlega steinlá. Þetta er ástæðan fyrir því að maður er í hljómsveit.
Og Tékkar eru fallegir. Mennirnir eru svo sem bara eins og menn eru, en konurnar hljóta að vera geimverur. Þarna stóðu þær bara fyrir framan sviðið, lítt til hafðar, skælbrosandi hænur í holdum sem fylltu út í umbúðirnar. Blóðheitar, sveittar og til í að skemmta sér. Þetta var allt svo gott.
Giggið var alveg svaðalega heitt og ég varð ofboðslega sveittur. Beneath-svitaböndin sem ég bísaði af strákunum á Rokkjötnum komu sterk inn og ég strauk af enninu á mér með vinstri í hvert skipti sem ég spilaði opinn streng. Eftir að hafa pakkað í snatri þokuðum við okkur svo í sturtuna einn af öðrum. Hún var ljómandi, reyndar hálfstífluð svo sturtubotninn tók ekki við. Þetta varð því hálfgert örbað en ég reyndi að skúra mig eins og ég mest mátti. Og það af ástæðu.
Fyrirtækið sem við leigjum rútuna af er staðsett hér í Prag og þar sem svo hitti á að við kæmum hér laust eftir miðjan túr létu þau sig ekki muna um að koma og skipta á rúmunum okkar. Þvílík himnasending eftir allt sem rúmfötin hafa þurft að drekka í sig á síðustu vikum. Ég get hreinlega ekki beðið eftir því að skoppa þarna upp í á eftir, brakandi hreinn í enn hreinna rúm. Ég ætla að hlaða einhverju af flakkaranum hans litla bróður yfir á tölvuna mína og gera hreinlega í því að halda mér vakandi eftir að við leggjum af stað. Njóta. Litlu hlutirnir eru svo óskaplega mikilvægir.
Halli er hérna að deila út íslensku nammi. Þetta er nú maður sem auðvelt er að þekkja. Ég finn helling fyrir því hversu undarlegt er að hafa Gunna ekki hér með okkur, en það er hins vegar alls ekkert undarlegt að hafa Halla. Hann er búinn með þrjú gigg og það er bara eins og ekkert sé sjálfsagðara. Óskaplega er gott að hafa svona fólk nálægt sér sem leysir það sem út af stendur.
Ég spái rólegu kvöldi í kvöld, en þessar spár eiga það nú til að splundrast. Ég notaði tækifærið þegar ég hreinsaði út úr kojunni minni áðan fyrir skipti og tók til í dótinu mínu. Nú er stóra hólfið í bakpokanum orðið óhreinatau en litla hólfið er undir hreint. Sokkarnir sem ég keypti í Barcelona eru allir búnir og það er undarlegt. Ég er þónokkuð viss um að ég notaði þá alls ekki alla sjálfur. Þessi mistería leysist víst sennilega aldrei.
Á morgun hefst þriggja daga Póllands-leggur og hann er með örlítið öðru sniði en restin. Þannig túra þrjú þarlend bönd með okkur og við spilum þá fjórðu í röðinni af sex. Ég hlakka til, mig grunar að þetta geti orðið skemmtilegt. En ég spái því að við fáum alls ekki sándtékk, sem er svo sem í lagi því hlé milli banda verður 40 mínútur.
Klukkan er 22.23, við erum pakkaðir og klárir í brottför. Góður dagur og allt eins og það á að vera.
Meistaralegt dagsins: Iron Maiden.
Sköll dagsins: Flexi segist vera búinn að fá leið á Manager.