Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Rennes
Klukkan er 22.07. Ég er blautur. Þetta var heitasta giggið á túrnum hingað til, við vorum rétt að segja að klára, hlóðum draslinu í kerru í snarhasti og nú heyri ég að Arkona er að hefja leika. Það er alveg með ólíkindum hversu mikið ég get svitnað á 45 mínútum og það vinnur ekki með neinum í svona úthaldi þar sem sturtur eru lúxusaðstaða. En þetta var gaman. Mjög gaman. Eins og reyndar öll giggin hingað til.
Við vorum rólegir í gær. Ég fór í koju og spilaði svolítið af nýjum tölvuleik sem ég hlóð niður í símann minn yfir góða netið í gær. Hann heitir Bard’s Tale og eftir hálftíma spilun var bæði komin drykkjuvísa og brjóst. Held að þetta gæti orðið ágætis leið til að drepa tíma og heilafrumur. Fínt að hafa fleiri en eina leið til þess. Ég kláraði Litlu dauðana, nýju bókina hans Stefáns Mána í dag, tók slurk eftir Bárðarbálk svona rétt áður en ég sofnaði og restina áðan. Hún hélt mér. Hún ríghélt mér alveg. Lesning sem ég get mjög auðveldlega mælt með. Teiknimyndasögumegin er ég svo sirka hálfnaður með Sweet Tooth eftir Jeff Lemire. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst, en mig grunar að þetta sé alger snilld. Ég er sennilega menningarviti með tilfinningaröskun, ég veit aldrei almennilega hvað mér finnst í raun.
Það er mikil dýpt í þessari mynd. Óvissa jafnvel. Myndasmiður er Baldur Ragnarsson gítarleikari.
Þetta var föstudagur númer tvö á túrnum og því rúm ein vika liðin. Þetta er jafnvel ennþá átakaminna en mig hafði grunað, ekki að ég hafi búist við blóðugum hnúum og fávitagangi, en við erum bara orðnir svo djöfull sjóaðir. Dagarnir rúlla sinn vanagang og allir getum við talað saman á eðlilegum nótum. Sú viðbót að túra með Flexa sinn, okkar eigin hljóðmann, er risastór og tekur hitann af okkur þegar við þurfum að díla við misjafnar aðstæður og misjafnt fólk. Hann er atvinnumaður og að auki mikill vinur okkar. Eins og flís við rass, svoleiðis er það nú bara. Við áttmenningar, Skálmöld, Flex og Robert erum sennilega eitt magnaðasta kombó sem ég hef unnið með í svona vinnu. Það er ekkert til sem heitir vesen og ef það verður vesen er það tæklað löngu áður en vírusinn nær að breiða úr sér. Það sem skiptir öllu máli eru svo tónleikar dagsins og þeim höfum við slátrað öllum. Enda þótt við finnum sterkari byr í seglin en áður þurfum við að muna að við erum minnsta bandið af þeim þremur sem hér eru að túra og okkar verkefni hvert kvöld er að láta þau stóru hafa fyrir hlutunum og helst láta þau líta illa út. Við ætlum að vera bestir. Við höfum stystan tímann af öllum, við spilum 45 mínútur á kvöldi, Arkona 55 og Eluveitie 90, en við notum hverja sekúndu til þess að stimpla okkur inn hjá fólki. Og það gengur vel. Varningssalan gengur betur en við höfðum reiknað með og viðbrögðin eru frábær allstaðar. Þetta járn þarf að hamra út í hið óendanlega.
Nú finnur maður að nýjabrumið er að hverfa. Dagarnir verða ósjálfrátt svipaðir enda þótt allir reyni að finna sér eitthvað til að brjóta upp grámann. Við fylgjumst vitanlega með því sem gerist heima hjá okkur nánustu og þær fréttir, hvort sem þær eru góðar eða slæmar, verða alltaf pínu súrar, sérstaklega þegar þær eru stórar. Ég fæ ekkert nema góðar fréttir af barninu sem ég ætla að eignast á næsta ári en það er á stundum erfitt. Ég er að missa af, ég er að missa af svo ógeðslega miklu. En í mér er enginn efi því hér er ég að lifa annan draum. Ég er svo lukkulegur að allir sem standa mér næst skilja þessa þrá mína og með samvinnu gengur allt óskaplega vel. En þarna hinum megin við hafið er hjartsláttur sem ég er ekki enn búinn að finna. Hjartsláttur sem ég á. Það er súrt. Fréttir af veikindum ástvina, og jafnvel talsvert erfiðari málum, eru svo auðvitað enn flóknari. Maður verður svo óskaplega vanmáttugur og vill vera til staðar. En mín trú er sú að við gerum best hér. Hér fylgjum við því eftir sem við trúum á, látum drauma rætast með ástríðu, elju og vinnusemi og komum betri menn heim.
Og þannig er það nú bara.
Þráinn Árni Baldvinsson úr Torfunesi í Kinn, gítarleikarinn geðþekki, bregður hér á leik.
Tónleikastaðurinn hér í Rennes er óskaplega ágætur. Minni en staðurinn í gær, enda var sá staður nú bara eitthvað frík. Hér var starfsfólkið gott og maturinn sérlega geðslegur. Sviðið auðvitað ekki stórt og við þurftum að fara í miklar æfingar til að koma okkur fyrir. Þegar upp var staðið var Jón Geir sviðsvinstri, en það held ég að hafi hreinlega aldrei gerst frá upphafi. Gunnar við sviðshægri og báðir voru þeir í svona innskotum á pallinum hans Merlin. Þetta orsakaði það að Jón Geir og Gunnar sáust ekkert allt giggið, því trommusettið hans Merlin var á milli þeirra. Æi, þetta er eitthvað skrýtið. Við erum samt hættir að láta þetta pirra okkur og vinnum með þær aðstæður sem við höfum. Sekkjapípa, Hurdy Gurdy og risastór trommupallur gerir hljómsveit ekki að betri hljómsveit en Skálmöld. Og við sýnum þeim það í hvert skipti, hvert einasta kvöld.
Talandi um sekkjapípur. Sekkjapípan hans Vladimir gafst upp á honum í gær, eða raunar þráðlausa kerfið fyrir hana. Þetta er svona kerfi sem notað er í staðinn fyrir snúru til að tengja hljóðfæri við magnara eða hljóðkerfi. Þegar maður spilar á bassa eða gítar er ekkert mál að skipta þessu kerfi út fyrir venjulega snúru í hallæri en það kemur manni gríðarskammt að ætla að troða snúruenda í sekkjapípu. Í gær lét hann sig hafa það að beina pípunni í sönghljóðnema en það gekk afleitlega. Þar sem ég á kerfi sem er ekki alveg ósvipað kerfinu hans lánaði ég Arkona wirelessið mitt í kvöld. Vladimir svaraði því með rússneskri kurteisi. Heima myndum við kalla það svipleysi, en ég þekki hann orðið það vel að ég veit að hann var ánægður með þetta. Til að róta hlutum ekki of mikið til og frá notaði ég svo sjálfur snúru í kvöld. Það skipti svo sem ekki öllu þar sem sviðið var lítið, en ég flækti mig þó alveg ógeðslega oft og varð pínu kjánalegur. Vonandi redda Rússarnir rafmagninu á morgun. Þeir guldu reyndar greiðann án þess að vita af því því gormurinn slitnaði af sneriltrommunni hans Jóns á miðjum tónleikum. Snerillinn hans Andre, Arkona-trymbils, var sem betur fer í seilingarfjarlægð og þannig bjargaðist það. Þetta er nú sem betur fer stemningin á öllu hér og það er óskaplega gott.
Klukkan er 22.40 og Jón Geir var að brölta hér upp í rútuna. Robert er sofandi en hinir eru inni að mingla við pöpulinn. Robert boðaði brottför klukkan 2.00 og þá höldum við til Parísar. Við höfum aldrei spilað þar. Þangað er ekki nema 240 kílómetra akstur, minnir mig, svo það verður létt. Ég væri alveg til í smá rauðvín. Eða vískí jafnvel.
Meistaralegt dagsins: Litlu dauðarnir.
Sköll dagsins: Tæknivandræði.