Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Klukkan er 5.34 og ég er rauðvínsfullur. Ég ligg í kojunni minni í síðasta skipti á þessum túr og bíð þess að rútan leggi í hann. Áætluð brottför er klukkan sex.
Þetta var síðasti dagurinn á túrnum. Við erum búnir að vera á flakki síðan í lok október og mér líður eins og ég hafi verið á Leifsstöð í öðrum líftíma. Þetta hefur verið lengsti túr Skálmaldar frá upphafi, sá viðburðaríkasti og sá sem hefur tekið mest á. Ég er sennilega jafn glaður yfir því að nú séum við á heimleið og yfir því hversu stórkostleg sigurgangan hefur verið. Þetta er jafnframt síðasta bloggfærsan sem ég geri og ég játa að því er ég feginn. Yfirleitt hefur verið fremur auðvelt að berja sirka þúsund orð niður eftir hvern dag en þetta tekur í. Vonandi get ég lesið yfir þetta í ellinni og glaðst, en ég sé ekki fyrir mér að ég bloggi meira í nánustu framtíð. Ef ég fer ekki með rangt mál voru þetta 38 tónleikar sem ætti að þýða að ég hafi sett niður tæplega 40.000 orð. Ég ætti mögulega að hætta þessum afsökunum og skrifa eitthvað af þessum sögum sem ég er með í höfðinu niður á blað.
Ég rumskaði klukkan ellefu og þá með dúndrandi höfuðverk. Sá var algerlega sjálfskapaður því ég sofnaði allt annað en allsgáður. Ég keyrði mig þá niður í koddann og náði að hvíla mig til tvö við allskonar misgáfulegar draumfarir. Þá hoppaði ég niður úr kojunni, tók mið á tónleikastaðinn og reyndi að finna klósett. Það gekk ekki betur en svo að ég endaði með að læsa mig inni á einhverjum lyftugangi og þurfti að banka mjög svo sneypulegur á dyrnar til að komast til baka. Ég uppskar svolítið af glottum frá samferðamönnum mínum. Ég pissaði þó sem betur fer ekki á mig.
Bibbi sést hér, að huga að internetinu í símanum. Já eða skrifa sms.
Slurkur af strákunum hafði farið niður í bæ. Við hinir söfnuðumst saman á tónleikastaðnum, í einhverju bakverelsi sem var ekki upp á marga fiska. Mannskapurinn safnaðist svo saman og við áttum sándtékk. Það var svo sem venjulegt nema hvað við þurftum að gera ráð fyrir öllum hinum sveitunum sem spiluðu með okkur í dag. Jábbs, 13 banda festival skyldi það vera. Reyndar var spilað á tveimur sviðum og því ekki með þrjú bönd á undan okkur á stóra sviðinu, en það þýddi engu að síður að við þurftum að gera ráð fyrir þeim sem á undan komu. Lítið mál svo sem og við kláruðum okkar eins og venjulega.
Eftir tékk röltum við allir rakleiðis niður í bæ, Skálmöldin, Flex og Robert. Við áttmenningar fundum okkur indverskan matsölustað þar sem við áttum alveg sérlega notalega stund og fengum gríðarlega góðan mat. Við höfðum jafnvel tíma eftir að til að fara á kaffihús, sviðstíminn á okkur var óvenju síðbúinn vegna allra lókalbandanna, klukkan 20.40. Við röltum svo bara uppeftir og gerðum okkur klára.
Það var hugur í okkur fyrir þetta gigg. Allir gersamlega frávita af langþreytu og heimþrá en sem fyrr algerlega staðráðnir í að skilja sviðið eftir í ljósum logum. Og það gerðum við. Svo sannar-fokking-lega. Ég ætla að láta vera að fara út í smáatriðin en austurrískur moshpyttur er eitthvað sem ég hef ekki séð fyrr. Þetta var fullkomlega frábær endahnútur á frábært ferðalag.
Við kvöddum krakkana snemma því hinar rúturnar tvær yfirgáfu staðinn strax eftir gigg. Sumstaðar voru tár á hvarmi, en viðskilnaðurinn við Rússana var vissulega erfiðari en við Eluveitie. Þau hittum við jú aftur í febrúar fyrir tveggja vikna túrinn sem framundan er. Þetta eru allt saman gullfallegir krakkar og svona við kveðjustundina losnaði um allskonar hömlur sem voru fyrir okkur allan túrinn. Mig grunar að það verði stórkostlega gaman að hitta þau aftur eftir nokkrar vikur.
Og svo fóru þau öll og við einir eftir á planinu. Nei, reyndar ekki. Anton, hljóðmaður og umboðsmaður Arkona býr í Prag. Rútan okkar er leigð þaðan og þaðan er Robert. Hann fær því að fljóta með okkur. Okkar stopp er München hvaðan við tökum flugið heim. Anton og Robert halda svo áfram til Prag. Við vöktum mislengi en við Anton langlengst. Hann er núna hrjótandi í kojunni gengt mér, kojunni sem hefur verið laus allan túrinn. Vinir mínir og félagar sofa allt í kringum mig en Robert er vaknaður. Tjaldið er dregið fyrir kojuopið mitt en ég heyri að hann er að mala sér kaffi. Síðasti spottinn er framundan, kannski 200 kílómetrar og þaðan tökum við flugið. Jebbs, þetta er búið.
Þetta hafa verið ótrúlegar vikur. Álagið hefur aldrei verið meira en sigrarnir heldur aldrei stærri. Ég játa á mig alveg stórkostlega þreytu og ég veit að samferðarmenn mínir eru algerlega sammála. Eftir rétta 10 tíma ætla ég í sturtu heima hjá mér og eftir það kviknakinn í sófann minn. Og þar ætla ég að vera í eins og viku. Ég reyndar lýg því því að strax á mánudagsmorgun ætla ég að rífa mig upp á rassinum og fara í sónar. Eða kannski öllu heldur með Agnesi í sónar. Bjórbumban á mér myndi nú svo sem örugglega þola sónar, en þetta verður örugglega meira gaman svona.
Þetta ferðalag breytti lífi mínu, svo einfalt er það. Draumurinn stækkar hratt, og raunar miklu hraðar en ég hefði nokkurn tímann þorað að vona. Skálmöld er ótrúlegt fyrirbæri sem knúið er áfram af stórkostlegri staðfestu þessa hóps sem hér hrýtur kringum mig. Hér fórna menn hlutum fyrir þessar sakir og enginn efast. Ef allt saman klárast á morgun veit ég að ég hef í það minnsta minningar til að hlýja mér við í ellinni.
Það er við hæfi að rútan keyri nú af stað í síðasta sinn þar sem ég lýk færslunni. Ég næ að leggja mig í rúma tvo tíma áður en við svo trillum dótinu okkar inn á flugstöðina. Heima bíður mín frí, jól á Húsavík hjá mömmu minni og auðvitað óttablandin gleði með óléttunni.
Þetta eru mín síðustu orð frá Evrópu-túr Skálmaldar 2014. Takk öll þið sem nenntuð að lesa þetta rant mitt og þola allar heimsins tilfinningar. Meistarasnillingunum á Kjarnanum flyt ég mínar bestu þakkir, kveðjur og óskir um allt sem gott er, því þeir hafa gert okkur litla bróður lífið óskaplega mikið auðveldara með umsýslu á þessum færslum okkar. Takk.
Ég ætla að leggja mig. Ég á það skilið.
SR