Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Ég fór bara að sofa í gær. Ég var sennilega í pínu fýlu. Ég horfði á hálfa bíómynd, bíllinn fór af stað, ég meikaði ekki meira, tók af mér heddfónana og fór að sofa. Það síðasta sem ég heyrði var að Flexi sagði „Kani!“ með þjósti. Ég fékk svo að vita í dag að hann hefði fallið með einum slag. Halli greyið fékk óverðskuldað á daskinn.
Ég vaknaði við umrót rétt um tíu í morgun. Ég hafði heyrt ávæning af því að Halli ætlaði að leiða þá sem vildu í borgarkirkjugarðinn. Ég vaknaði fyrir slysni, búinn að sofa nógu lengi og reif mig upp. Því betur. Við héldum fimm á vit ævintýranna, ég, Halli, Jón, Þráinn og Baldur. Við höfum spilað hér áður og þekktum því leiðina niður í siðmenninguna. Svo sem ekki miðbæinn en nánastu verslunargötuna í það minnsta. Það var það eina sem ég hafði séð af Vínarborg. Þangað til í dag.
Við fengum okkur kaffi á lókal konditorí. Það var alveg ljómandi og ég enn að vakna. Eftir það fundum við út úr samgöngum og tókum sporvagninn til kirkjugarðsins. Þar röltum við svo inn til að hitta meistarana. Við þurftum ekki að labba lengi. Þarna lágu þeir í hnapp, Strauss, Brahms og auðvitað meistari Beethoven. Og mitt á milli þeirra minnisvarði um Mozart sem var grafinn í fjöldagröf og öllum týndur. Fyrirfram hefði ég ekki talið að þetta yrði svona áhrifamikið en þetta var eiginlega alveg osom. Sennilega hefur það eitthvað með uppeldið að gera því á æskuheimlinu var heilmikið gert með þessa kalla, og þetta varð heilmikil andakt. Ekki skemmdi fyrir að Halli er útlærður í þessu öllu saman og gat sagt okkur svona upp og ofan. Skammt frá voru allir hinir Straussarnir og svo allskonar menn sem ég get ekki nefnt núna en leiðangursstjóri fræddi okkur um jafnóðum. Vissulega bara risastórir steinar á grasbölum en í senn yfirþyrmandi hluti af sögunni. Þetta var gaman.
Og svo heimsóttum við Falco. Austurríska poppstirnið sem lét lífið sviplega rétt fyrir aldamót. Rock Me Amadeus og Der Kommisar eru kannski svona fljótt á litið ekki á pari við níundu sinfóníuna en heimamenn eru ekkert endilega sammála. Afskaplega stíliserað leiði sem sennilega kemur ekki til með að standast tímans tönn, en engu að síður gaman. Ég notaði tækifærið og klæddi mig í sokka sem ég hafði keypt skammt frá bakaríinu. Ég er fullbúinn fyrir þessa fáu daga sem eftir eru.
Jón Geir trommari, kominn upp við vegg.
Eftir þessa stórkostlegu menningarferð tókum við sporvagninn til baka og síðan neðanjarðarlestina niður í bæ. Við stigum upp hjá voðalegri kirkju sem við skoðuðum í svip, bæði að innan og utan. Og þá vorum við orðnir svangir. Halli átti þennan dag skuldlausan og leitaði uppi mat á Trip Advisor. Rif. Aftur rif. Og núna bestu rif í heimi. Við fórum á rifjastaðinn í Vín og þar voru rif. Ég pantaði mér metra af rifjum. Jájá, það var á matseðlinum. Metri. Og ég át hann allan. Strákarnir fóru aðeins flóknari leið að þessu sama en við höfum sennilega étið fimm metra í heildina. Og almáttugur hversu gott þetta var. Rifin í gær voru djók miðað við þessa meistarasnilld. Ég væri alveg til í að koma aftur hingað bara vegna rifjanna. Við bræður héldum svo upp á venjú og hinir komu í humátt.
Þegar við spiluðum hér í fyrra fóru tímasetningar út um þúfur. Tónleikarnir voru sum sé auglýstir hálftíma eftir að við byrjuðum að spila. Og svo ég drepi á bloggi síðasta árs:
„Á gigginu sjálfu voru nokkur vinveitt andlit, þar á meðal Stefán nokkur Jónsson, Jabbar blaksins eins og hann hefur verið kallaður. Stefán er Aðaldælingur og er á flakki um álfuna einn síns liðs, frétti af ferðum okkar og tímasetti dvöl sína hér í samhengi við það. Afbragðsmenni og gaman að hitta hann. Að því sögðu voru ekki mikið fleiri í salnum þegar við hófum leika, kannski á að giska 7 manns. Það heldur skánaði þegar á leið og örugglega um 100 manns þegar giggi lauk, en langfámennastu tónleikar okkar til þessa. Þetta kom mönnum á óvart því forsala hafði gengið ágætlega og von á húsfylli. Þetta skýrðist þó áðan þegar í ljós kom að tónleikarnir, sem við byrjuðum klukkan 19.30, voru auglýstir klukkan 20.00. Við hittum ansi marga sársvekkta sem misstu af okkur vegna þessa.“
Þetta var ekki vandamál núna. Við klárðum þetta gigg með stórheitum frammi fyrir fullum sal. Við vorum graðir, spiluðum af festu og svolítið hratt. Það var alls ekkert verra því við vorum í stuði. Flautugargansmaður Arkona, hann Vladimir, óskaði eftir að fá að lýsa giggið okkar og gerði það alveg ljómandi vel held ég. Þetta var allt saman ljómandi vel heppnað.
Eftir giggið drakk ég meira. Ég blandaði geði við gullfallegan pöpulinn, drakk og skálaði. Eftir að öllu lauk varð svo svona mini-partý hjá túrmeðlimum. Baldur bauð upp á restina af hákarlinum sem fór misvel í fólk. Við drukkum eins lengi og við gátum en svo héldu rútur af stað.
Klukkan er núna 2.48 og við vorum rétt í þessu að stoppa á bensínstöð. Böbbi, Jón og Flexi eru í koju en við hinir erum þéttir hér frammí. Ég veit ekki hversu lengi ég endist en þeir hinir þrír eru í stuði og hlusta á þungarokk. Staðreyndin er að við eigum ekki nema eitt gigg eftir, annað kvöld í Salzburg. Þangað eru skilst mér sirka 300 kílómetrar sem Robert afgreiðir örugglega á sirka fjórum tímum. Nú styttist, nú styttist heldur betur. Eins gott að við klárum þetta með offorsi á morgun. Ég fékk af því fregnir að Eluveitie-parið hafi beðið um að fá að spila aftur með okkur á morgun og svo gæti einni farið að Baldur öskri eins og eitt viðlag með Arkona. Hefðin segir að maður eigi að flippa á lokadegi túrsins. Lokablogg síðasta túrs segir til dæmis:
„Að þessu sögðu einkenndist dagurinn af fíflaskap eins og verða vill í lokasýningapartýjum. Þegar við stigum á svið var til að mynda búið að þekja helstu mónitora og græjur með síðum úr grófum, og heldur óhefðbundnum, klámritum. „Gamla klámtrikkið“ eins og ég kýs að kalla það. Eftir því sem á kvöldið leið dunduðu menn sér við álíka fíflaskap, einhverjir beruðu kynfæri sín hliðarsviðs, þeir sem spila með In Ear (mónitorakerfi sem stungið er í eyrun líkt og heddfónum) fengu allskonar skilaboð og truflandi hljóð til sín frá tækniliðinu og svona er hægt að telja áfram. Það var galsi í öllum, svo mikið er víst.“
Sjáum til hvað gerist á morgun. Þetta var í það minnsta góður dagur.
Meistaralegt dagsins: Grafir og rif.
Sköll dagsins: Staðurinn var afskaplega illa tækjum búinn. Ég fékk ekki minn eigin mónitór og heyrði því afskaplega takmarkað í mér á sviðinu.