Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Höfundur: Sigurjón Magnússon
Snjór í myrkri
Útgefandi: Ugla
Krimmar í dulargerfi eru vinsælt form þessi jólin. Eða þegar best lætur: skáldskapur sem nýtir aðferðir eða söguefni glæpasögunnar til að segja eitthvað markvert um samfélagið og mannssálina, eitthvað sem hvílir á höfundinum.Nýjasta skáldsaga Sigurjóns Magnússonar fellur að sumu leyti í þennan flokk. Hún ber reyndar undirtitilinn „Skáldsaga“, svona eins og til að taka af tvímæli um að hún sé a) ekki sannsöguleg og b) ekki „bara“ glæpasaga.
En Snjór í myrkri hverfist um glæp og að einhverju leyti rannsókn á orsökum hans og kringumstæðunum sem leiddu til hans.
Þetta er allt saman bæði frekar kunnuglegt, en með áhugaverðum vinkli þó. Rithöfundurinn og uppgjafakennarinn Daníel er í hálfgerðu ráðleysisástandi þegar forleggjarinn hans fær hann til að skrifa ævisögu ungrar tónlistarkonu frá Flateyri sem fannst myrt nokkru fyrr. Málið er óupplýst, en konan tengdist róttækum baráttuhóp fyrir réttindum innflytjenda og afnámi landamæra. Sem kannski og kannski ekki tengist aftur örlögum hennar.
Við heimildaöflun Daníels kemur vitaskuld ýmislegt fram um aðdraganda morðsins og ýmsa sem gætu hafa átt þar hlut að máli, þó hann sé þannig séð ekki að „rannsaka málið“. Og enn fremur kynnumst við hinum kuldalega Daníel og fáum innsýn í einangrun hans í lífinu sem að mestu virðist vera sjálfskaparvíti.
Vandi bókarinnar er að þó hún sé skýr og skrifuð i skemmtilega kaldhömruðum og fáorðum stíl þá er hún einhvernvegin alltaf að lofa einhverju sem aldrei er staðið við og ætlar sér aldrei. Glímu söguhetjunnar við „leyndardóminn“, afhjúpun sannleikans. Mögulega einhverri spennu. Glefsurnar af „krimmalegu“ plotti verða fyrir vikið alveg munaðarlausar, t.d. undarleg hliðarsaga um lagastuld, sem og lausn gátunnar sjálfrar.
Og það sem vð fáum í staðinn er einfaldlega ekki nógu áhugavert sjálft til að réttlæta þá ferð sem við fylgjum Daníel í. Sú hlið sögunnar - vegferð Daníels, samskipti hans við samstarfsfólk, ástkonur og viðmælendur, meðhöndlun hans á viðfangsefni sínu og ákvarðanir hans um hverju hann ljóstrar upp - nær heldur ekki flugi finnst mér. Það virðist líka vera Sigurjóni talsvert kappsmál að vera knappur, nákvæmur og orðfár.
Í þessari litlu bók, sem varla er mikið meira en nóvella þegar ríkulegar spássíurnar eru taldar frá blaðsíðunum 195, leynast tvær merkilegar hálfsagðar sögur og þvælast hver fyrir annari. Annarsvegar krimmi af norrænu gerðinni, þar sem pólitík og prívatástríður stíga sinn dans. Á hinn bóginn saga af glímu rithöfundar við umhverfi sitt, samskiptahæfileika og heiðarleika - eða skort á þessu.
Það sem er í bókinni er fínt. Það er bara varla nóg.