Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Að þessu sinni er fjallað um Ástrík og víkingana.
Ástríkur og víkingarnir
Höfundar: René Goscinny og Albert Uderzo
Þýðandi: Hildur Bjarnason
Froskur útgáfa
Að skrifa gagnrýni um Ástríksbók er sérkennileg reynsla. Svolítið eins og að skrifa um kókómjólk, svo samofnar bækurnar, persónurnar og húmorinn í þeim var orðin mér strax í æsku. Ekki bara sérkennileg, heldur dálítið ónotaleg. Vill maður kryfja að sem maður elskar? Langar einhvern að vita hvað er nákvæmlega í kókómjólkinni? Jæja, sjáum til.
Ég fletti enn gömlu bókunum, allavega þeim sem eru í mestu uppáhaldi (Bændaglímunni, Gotunum, Rómverska flugumanninum) og skemmti mér. Að einhverju leyti af þáþrá, en líka bara í krafti þess að þetta er frábært. Persónugalleríið, vinkillinn á mannkynssöguna, húmorinn.
Já hann er líka dýrmætur, léttirinn yfir því að það sé hægt að vera lítill, einangraður og pínu vitlaus en samt ósigrandi.
Nokkrar af hinum „klassísku“ Ástríksbókum komu aldrei út á sínum tíma, en útgáfuröðin á Íslandi stýrðist sennilega af einhverjum samprentskenjum sem okkur voru huldar. En nú hefur bókaútgáfan Froskur tekið til við að fylla í skörðin og hafi hún heitar þakkir fyrir. Fyrst í röðinni verður „Ástríkur og víkingarnir“, eða „Astérix et les Normands“ eins og hún heitir í frummálinu. Þær verða ekki mikið klassískari, víkingabókin er sú níunda í röðinni, kemur út 1966 á milli Ástríkur í Bretlandi og Ástríkur í Útlendingahersveitinni.
Og er alveg stórskemmtileg. Frændi Aðalríks höfðingja sendir honum í fóstur landeyðuhneigðan son sinn og á sama tíma sigla að ströndinni víkingar sem hafa náð tökum á öllu nema óttanum. Þeir kunna semsagt ekki að hræðast og hafa fyrir vikið þennan eiginleika í hávegum og vilja fyrir alla muni eignast hræðsluna eins og allt annað. Þegar skræfan frá Lútesíu og hinir óttaheftu norðanmenn mætast þá hlýtur eitthvað að gerast.
Ætli Gaulverjarbær sé ekki eins vondur staður til að komast til manns og hugsast getur? Og glórulaus staður til að læra að óttast. Það eru væntanlega ekki alvarleg söguspjöll þó ég ljóstri því upp að þetta fer allt vel eins og alltaf og aldrei þessu vant fær fær atónal söngvaskáldið Óðríkur að taka þátt í lokaveislunni, enda ein af hetjum sögunnar þegar upp er staðið.
Þrátt fyrir að eftirlitið með þýðingunum sé víst orðið mun strangara en það var á gullaldartíma Þorbjörns Magnússonar og Þorsteins Thorarensen þá nær Hildur Bjarnason að vera ágætlega sniðug, t.d. í nöfnum Víkinganna, sem öll enda á –ráð. Gaman líka að matarvenjum þeirra, en það eru hinir aðskiljanlegustu réttir sem allir eru í rjómasósu. Ég hef ekki hugmynd um hvernig á þessu stendur eða hvað grínið á að fyrirstilla, en það er bara samt sniðugt að sjá hina ribbaldalegu norðmenn háma í sig rjómalagaða dýrindisrétti, og skola þem niður með miði úr höfuðkúpum fallinna.
Þetta er mögulega heimspekilegasta Ástríksbókin og dálítið frumlegur vinkill í henni á hið forna minni um mikilvægi þess að kunna að hræðast. Merkilegt nokk þá er hún stórskemmtileg líka. Vonandi endist Froski útgáfu orka og erindi til að fylla í öll hin skörðin. Söfnurum og aðdáendum skal samt bent á að talið er útilokað að leyfi fáist til að endurútgefa hinar klassísku þýðingar, svo haldið fast í gömlu dýrgripina og/eða verðleggið eftir því.