Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Höfundur: Þórarinn Eldjárn
Fuglaþrugl og naflakrafl (Með Sigrúnu Eldjárn)
Það gleður þennan áfergjulesara ljóðskáldsins Þórarins Eldjárns alltaf þegar það rennur upp fyrir honum að hann er þrátt fyrir allt ekki þrjú skáld heldur eitt. Það verður ákaflega skýrt þegar hann lætur sér ekki nægja að senda frá sér eina bók, heldur sýnir á sér tvær hliðar í einu. Sem reynist svo ein.
Ó- og líttbundnu ljóðin, háttbundnu kvæðin og barnavísurnar eru þegar að er gáð sama marki brenndar.
Hvert er þá það mark?
Hvað skal segja? Nákvæmni. Hófstilltur húmor. En kannski fyrst og síðast viðhorf hins leitandi og fróða sælkera til tungumálsins. Skoðun á möguleikum einstakra orða. Oft leit að földum möguleikum eða notkunarkostum. Þórarinn er skáld orðnautnarinnar.
Hann fer oft þá leið að taka hversdagslegt fyrirbæri - ýmist i raunheimum eða málheimum. Tuggur og klisjur - og skoða þær með tækjum ljóðskáldsins. Sýður þær niður – kveður þær niður.
Og mikið er gaman þegar frumleg hugsun og snjöll mynd rúmast í fullkominni ferskeytlu. Þannig lagað gerir enginn betur en Þórarinn:
Bruna hratt með barðahví
bílar svartan dregil.
Kókett Esjan kíkir í
Kollafjarðarspegil
(Tautar og raular)
og
Rjúpan fer í fötin senn,
fína hvíta dressið.
Bráðum koma byssumenn,
byrjar jólastressið.
(Fuglaþrugl og naflaskrafl)
Nýju bækurnar tvær eru ortar á þessum heimavelli skáldsins. Fuglaþrugl og naflakrafl, að minnnsta kosti sú sjöunda í röð hinna vinsælu barnaljóðabóka Þórarins og Sigrúnar systur hans. Kannski er einhver þreyta farin að segja til sín í þessum yrkingum, allavega þykir mér hún ekki rísa í sömu hæðir og það besta sem áður hefur birst. Of mörg ljóðin einkennilega endaslepp, t.d. ljóðið um sjóræningjann sem á tvennt af öllu sem til stéttarinnar heyrir (páfagaukum. krókum og staurfótum) en ekkert skip. Af hverju ekki?
Önnur eru snjöll á þennan sér-þórarinska hátt (þó mögulega gangi brösuglega að útskýra snilldina fyrir markhópnum). Hér er afi að kenna börnunum að stauta með gamla laginu:
Hann er bráðum búið spil
en býsna seigur enn:
Með banprjónsaðferð býr hann til
bókstafstrúarmenn.
Tautar og raular - fullorðinsbókin - skiptist síðan í fjóra hluta: Einn lítt- eða óbundinn, annan með vísum í mis-stífu sambandi við hefðina, prósaljóð og þýðingar.
Allt er þar gott, sumt ágætt og einstaka leiftur af snilld. Prósaljóðin vekja hjá þessum lesanda ljúf hugrenningatengsl við sundurgerðarsmásagnasafnið Margsaga. Aðeins þýðingarhlutinn gefur tilfinningu fyrir því að verið sé að tína samaan og sópa upp. Aðallega vegna söngtexta sem þar eru og njóta sín ekkert endilega mjög vel í lestri, hvorki Þökk sé þessu lífi né hin undurfagra Haustvísa Tove Jansson.
Á hinn bóginn er ekki hægt annað en að kíma og kætast yfir sokkaljóði Garrison Keillor:
...
Rannsóknir staðfesta sjálfsleit hvers sokks,
að sæki þeir flestir í einveru loks.
Í sumum er beiskja eftir samband við fót,
sumir í klaustri þrá meinanna bót.
Í sumum er ólgandi athafnaþrá
en öðrum þeim finnst bara traðkað sér á. ...
Í frumortu hlutunum eru yrkisefnin af ýmsu tagi. Smá heimsósómi, örlítil mæða og slatti af sjálfsháði. Allt matreitt að hætti hússins. Eins og við fastagestirnir viljum hafa það. Hvað sem tautar og raular.