Kappakstursökuþórar hafa það orð á sér að vera leiðinlegir í viðtölum, þurrir á manninn og gefa lítið af sér. Það verður þó seint sagt um Sebastian Vettel sem vann fjórða heimsmeistaratitil sinn í röð þetta keppnistímabilið í Formúlu 1. Hann skaut keppinautum sínum ref fyrir rass, sigraði í síðustu níu mótunum og bætti í leiðinni met Michaels Schumacher um flesta sigra í röð á einu tímabili.
En lífið hefur ekki verið dans á rósum fyrir Vettel síðan hann þreytti frumraun sína í Bandaríkjunum árið 2007. Hæfileika sína hefur hann ræktað og uppskorið með gríðarlega mikilli vinnu, aga og dómgreind, eins og Þjóðverjum er einum lagið.
Það er samt ekki svo að hann sé um leið orðinn besti ökuþór allra tíma. Til þess þarf hann meiri tíma. Goðsögnin Jackie Stewart hefur til dæmis bent á að til þess að stimpla sig endanlega inn sem einn af þeim bestu þurfi Vettel að skipta um lið og byrja aftur frá grunni í Formúlu 1. Drengurinn er samt sem áður kominn í hóp fjögurra bestu, með fjóra titla á bakinu.
Lesið nýja Kjarnann til að upplifa gagnvirka umfjöllun um Sebastian Vettel.