Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Höfundur: Arnaldur Indriðason
Kamp Knox
Útgefandi: Vaka-Helgafell
Einn stærsti styrkur Arnaldar Indriðasonar hefur mér sýnst vera fundvísi hans á sögusvið og snertifleti samfélagsins og Íslandssögunnar við bjástur lögreglukvartettsins Erlendar, Elínborgar, Sigurðar Óla og Marion. Á þessum flötum verður oft til orka sem drífur vagninn þegar glæpamálin sjálf og spennan í kringum þau eru í daufara lagi, eins og færst hefur heldur í aukanna eftir því sem liðið hefur á sagnabálkinn. Sem engan skyldi undra.
Íslensk erfðagreining. Einvígi aldarinnar. Kaldastríðsnjósnir. Hernámið og bygging Þjóðleikhússins. Lífskjör útigangsmanna í Reykjavík. Allt hefur þetta dýpkað og breikkað bækur Arnaldar.
Og nú er það herstöðin á Miðnesheiði og kjarnorkuógnin. Braggalífið. Já og uppruni Bláa lónsins.
Sviðið er Reykjavík og Reykjanesskagi 1979. Erlendur er kominn í rannsóknarlögregluna og fæst undir handleiðslu Marion Briem við morð á flugvirkjanum Kristvini sem psoriasissjúklingur finnur í lóninu við Svartsengi. Jafnframt er hann að grafast fyrir um orsakir mannshvarfs frá eftirstríðsárunum sem tengist, eða ekki, hinu sögufræga/illræmda braggahverfi sem bókin dregur nafn sitt af.
Kunnuglegt, ekki satt?
Þetta er að mestu aldeilis dæmigerður Erlendar- og Arnaldarkrimmi. Hinn grámyglulegi og félagsfælni spæjari með næma eyrað er eins og hann á að sér. Atburðarásin rótföst í raunveruleikanum þó tengsl hennar og rannsóknarinnar við kjarnorkubröltið gefi henni smá lyftingu.
Ég held samt að lesendur þurfi að vera einbeittir aðdáendur til að njóta Kamp Knox að verulegu ráði. Það eru þreytumerki í fléttusmíðinni, finnst mér. Lopateygjur í frásögninni. Þó það séu vitaskuld örlög framhaldssögusmiða að þurfa sífellt að endurtaka sig til að fullnægja þeim sem eru að koma nýir að sögunni þá er mannshvarfaþráhyggju Erlendar gerð full-ítarleg skil hér fyrir minn smekk.
Og eru ekki skoðanaskiptin um herstöðvarmálið, sem eru þónokkur í bókinni, óþarflega innihaldsrýr? Já og myndin af könunum dauf. AC/DC-plakatið á vegg eins rauðhálsins gladdi mig reyndar, þó strandhögg þeirra Ástrala í Vesturheimi hafi verið á byrjunarreit ‘79. Hefði giskað á Lynyrd Skynyrd eða Creedance frekar. Skrítið smáatriði sem kætir mann frekar en pirrar.
Stíllinn er að vanda áreynslu- og stælalaus, en ég hef nú séð höfunda skammaða fyrir bókmálslegt málsnið á samtölum fyrir minni sakir en Arnaldur lætur eftir sér hér.
Og hvað er þetta með kynið á Marion Briem? Reyndar skilst mér að í einhverri fyrstu bókanna þar sem Marion kemur við sögu missi Arnaldur út úr sér kyngreinandi beygingu eða persónufornafn, en það er til marks um hvað mér er mikið sama að ég nenni ekki fyrir mitt litla líf að leita það uppi.
Kamp Knox er ágætis innlegg í framhaldssöguna um Erlend. Bætir engu við og er ein og sér heldur rislágur krimmi. Ekki byrja á þessari ef þið eruð ókunnug Arnaldi. En, kæru aðdáendur, þetta er alveg eftir uppskriftinni. Örugglega nóg til frammi.