Melkorka Ólafsdóttir lærði á flautu í Tónskóla Sigursveins, Tónlistarskóla Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands, þar sem aðalkennari hennar var Bernharður S. Wilkinson. Síðar nam hún við Konservatoríin í Amsterdam og í Haag, Guildhall School of Music and Drama í London og í École Nationale de Musique et Dans í París, þar sem hún kláraði Premier Prix og Prix Perfectionmente með hæstu einkunn.
Melkorka er að safna fyrir útgáfu geisladisks með einleiksfantasíum Georgs Philipp Telemann. Hún, og verkefnið hennar, eru Karolina Fund-verkefni vikunnar hér á Kjarnanum.
Melkorka Ólafsdóttir lærði meðal annars á flautu við Konservatoríin í Amsterdam og í Haag, Guildhall School of Music and Drama í London og í École Nationale de Musique et Dans í París, þar sem hún kláraði Premier Prix og Prix Perfectionmente með hæstu einkunn.
Óteljandi leiðir til að skapa
Getur þú sagt okkur frá tónlistinni þinni. Hvað drífur þig áfram í tónlistarsköpun hvernig þróaðist hún?
„Já, ég held að það hafi allir þörf fyrir að skapa. Hvort sem það er eitthvað sem fólk er meðvitað um eða ekki. Það er hægt að fara svo óteljandi margar leiðir í því, sumir leggja eitthvað listform fyrir sig, aðrir nostra við áhugamál, enn aðrir eru mjög skapandi í störfum sem teljast kannski ekki augljóslega bjóða upp á slíka hugsun.
Í rauninni skiptir kannski ekki rosalega miklu máli hvaða miðil fólk velur sér fyrir hana eða að hvaða marki maður skilgreinir sjálfan sig eftir henni. Það er frekar að það snúist, meðvitað eða ómeðvitað, um val, um það hvort maður ákveði að leita að einhverskonar stærra samhengi í lífinu en því sem liggur beint fyrir framan mann. Hvort maður leiti hugsanlega að einhverju andlegu ríkidæmi frekar en veraldlegu. Þá er list og sköpun leið til að komast þangað, en það eru líka óteljandi aðrar leiðir.
Þetta er aðallega spurning um að vera opinn fyrir því að undrast, að sjá hlutina á annan veg en þann augljósa og að festast ekki í einverri einni leið. Þegar maður festist er sjóndeildarhringurinn of takmarkaður, það tekur frá manni svo stóran hluta af því sem lífið hefur upp á að bjóða. Fyrir mér er sköpunarþörfin einhver algjör grunnþörf og ef ég næri hana ekki þá finn ég fyrir því. Tónlistin, eða hvaða listaform sem er, er leið til þess að opna. Til að opna augu og huga og hjörtu fólks. Líka til að minna á hvað við erum tengd.
Þar af leiðandi er listin líka óumræðanlega mannbætandi. Kannski finnst þér ég ekki alveg vera að svara spurningunni......en samt er þetta svarið; það er þessi þörf sem drífur mig áfram, og þessi sama þörf hefur líka leitt til þess að tónlistarsköpunin þróast. Því ef maður er alltaf að setja sig í stellingar til að spyrja og sjá hlutina í nýju ljósi, þá er maður líka alltaf að ýta sjálfum sér út í óvissuna og leita á ný mið. Þannig vex maður, með því að prófa sig áfram og gera tilraunir og skora sjálfan sig á hólm. Það krefst þess að taka áhættur, en maður kemst líka ekkert áfram nema að taka áhættur. Ég var músíkalskt barn, en mér fannst líka gaman að teikna og skrifa ljóð. Kannski var það einhverskonar tilviljun að ég lagði tónlistina fyrir mér en ekki eitthvað annað. En tónlistin hefur verið minn besti vinur og styrkur. Það getur vel verið að sköpunarþörfin leiði mig eitthvað annað einhverntíma, þá er líka bara að vera opin fyrir því."
Fantasíurnar eiga sérstakan stað
Hvað er á döfinni næst hjá þér? Mun verkefnið lifa áfram eða tekur næsta við?
„Diskurinn sem ég er að gefa út núna er frekar mikilvægur og stórt skref fyrir mig. Ég er svakalega feimin í svona hlutum, að koma mér á framfæri, meira en þú gætir ímyndað þér. Ég lærði hjá kennara í París sem var algjör gúru fyrir mér, við fórum í gegnum allar Telemann Fantasíurnar saman. Fantasíurnar eiga alveg sérstakan stað hjá mér og ég veit eiginlega ekki um betri tónlist fyrir flautu.
Ég tók frekar stóra ákvörðun á síðasta ári, að flytja heim til Íslands þrátt fyrir að vita að hér myndi verða erfitt fyrir mig að lifa á því að spila tónlist.
Ég tók frekar stóra ákvörðun á síðasta ári, að flytja heim til Íslands þrátt fyrir að vita að hér myndi verða erfitt fyrir mig að lifa á því að spila tónlist. Ísland er mjög lítið land, en ég var komin á stað þar sem mig langaði hvergi annars staðar að vera. Svo ég ákvað að taka að mér annars konar vinnu, verkefnastjórn í Hörpu. Starfið er mjög tengt mínu sérsviði en þó ólíkt. Þess vegna fannst mér að ég yrði að skilja eitthvað eftir mig, eftir þessi rúmu 20 ár sem ég hef varið í sérhæfinguna. Svo að vissu leiti er Telemann diskurinn kveðjusöngur fyrir ákveðið tímabil, án þess þó að það þurfi að vera of dramatískt. Ég held áfram að spila, eða a.m.k. að skapa, þörfin stjórnar mér en ég ekki henni. Ég er alveg búin að átta mig á því að ég ræð minnstu um þetta sjálf. Því ber að fagna, þannig vil ég lifa lífinu."
Útgáfuhóf plötunnar verður haldið í Mengi 16. desember kl 17:00
Hér er hægt að skoða verkefnið og styðja Melkorku í hennar vegferð.
Sagt verður frá völdu verkefni sem leitað hefur að fjármögnun í gegnum Karolina Fund á hverjum laugardegi á Kjarnanum.