Karolina Fund-verkefni vikunnar er Gekk ég aleinn, geisladiskaútgáfa á vegum Kúbus-hópsins, sem reynir að safna nægu fé til að gefa út lög Karls Ottós Runólfssonar í nýjum útsetningum. Kúbus hefur vakið athygli fyrir nýstárlega aðferðafræði, meðal annars á nýlegum tónleikum þar sem áðurnefnd lög voru leikin með frumlegri sviðsframkomu en unnendur klassískrar tónlistar eiga að venjast.
Ingrid Karlsdóttir fiðluleikari og Melkorka Ólafsdóttir flautuleikari sátu fyrir svörum fyrir hópinn.
Hvernig varð Kúbus-hópurinn til?
Ingrid: Mig langaði til að vera í tónlistarhópi þar sem maður hefði frelsi til að gera tilraunir með tónleikaformið, þar sem ólíkar listgreinar gætu mæst og myndað nýja heild. Við hittumst fyrst í Berlín árið 2010, ég, Júlía Mogensen og Grímur Helgason, og lögðum þar fyrstu drögin, fengum svo til liðs við okkur Guðrúnu Dalíu Salómonsdóttur og okkar fyrsta verkefni sem hópur var flutt á tónleikum haustið 2013.
Við bjuggum í sitt hvoru landinu á þessum tíma og því tók það okkur nokkur ár að láta þetta smella. Stuttu eftir fyrstu tónleikana okkar þar sem við fluttum Kvartett um endalok tímans fyrir fullu húsi í Tjarnarbíói flutti Melkorka aftur til landsins frá Japan og hún slóst í hópinn.
Hvernig hafið þið verið að gera tilraunir með tónleikaformið?
Melkorka: Fyrir tónleikana í Iðnó unnum við með Friðgeiri Einarssyni leikstjóra í ferli sem var í raun meira í ætt við vinnu í leikhúsi, spunavinnu og hugmyndavinnu. Tónleikarnir voru hálfkóreograffaðir. Við vorum með lágmarks leikmuni og hreyfðumst til á sviðinu.
Ingrid: Já, við í rauninni nýttum okkur einföld element sem yfirleitt sjást mest í leikhúsi. Við höfum líka unnið mikið með lýsinguna, og unnið frá upphafi með ljósamanninum Jóhanni Bjarna Pálmasyni.
Er nýsköpun á klassík þverstæða?
Kúbus hefur verið lýst sem nýsköpunarverkefni í klassískri tónlist, er þetta ekki þverstæða, nýsköpun á einhverju klassísku?
Melkorka: Nei, ég held að þessi skilgreining, klassísk tónlist, sé svoldið villandi. Það sem heftir miðlun tónlistar sem telst til þessa forms er einmitt þessi þörf fyrir boxið. Það er svo algengt að fólk segi eitthvað á þessa leið: „Æ ég veit ekkert um þetta“ og þá gefur það því heldur ekki sjens. Það er eins og við þurfum að taka það út úr boxinu svo fólk þori að hafa skoðun, eða bara ekki skoðun, svo það þori yfirleitt að gefa þessu sjens. Ætli það sé ekki ein ástæða fyrir því að setja tónlist af þessu tagi í nýtt samhengi til að koma svolítið aftan að fólki, ef svo má segja. Hefðin í kringum klassíska tónleika er líka að sumu leyti heftandi, og kannski ekki í takt við nútímann og því á þessi nýsköpunarstimpill vel við.
Ingrid: Mér finnst mjög gaman að heyra að það sé talað um Kúbus sem nýsköpunarverkefni. Ég tel það ekki vera þverstæðu, allavega ekki í okkar tilfelli. Efniviðurinn sem er útgangspunkturinn hjá okkur er klassískur en að mínu mati, það sem við höfum gert og viljum gera, er að nýta hinn klassíska efnivið og setja hann í nýtt samhengi. Ef maður horfir til annarra listgreina, eins og leikhússins, þá sér maður þetta vera gert aftur og aftur. Verk eftir Shakspeare, Kafka, Ibsen og fleiri meistara brotin upp og færð í nútímalegt samhengi, því hinn klassíski efniviður á alltaf erindi og er tímalaus en það erum við sem njótum listarinnar eða fremjum hana sem hættir til að festast í viðjum vanans.
Menningararfur sem þarf fram í dagsljósið
Hvernig kom það til að þið réðust í að vinna með verk Karls Ottós Runólfssonar?
Melkorka: Það kom í rauninni frá Guðrúnu Dalíu, píanistanum okkar sem hefur verið heilluð af sönglögunum hans um tíma. En þessi hugmynd, að fá Hjört Ingva Jóhannsson til að útsetja fyrir okkur, var einmitt leið til að færa þau nær. Stundum lenda þessi „klassísku“ sönglög í því að vera of „hefðbundin“ í flutningi. Það er svo rosalega mikið litróf, bæði í textunum og tónlistinni sem hægt var að vinna með í útsetningunum, í flutningnum, leikgerðinni og ljósunum.
Ingrid: Þetta er menningarfur sem okkur langar að draga enn frekar fram í dagsljósið og nú í nýjum og ferskum búningi Hjartar Ingva.
Hvernig datt ykkur í hug að fara þessa leið, að hópfjármagna verkefnið?
Melkorka: Það var í rauninni raunhæfasta leiðin. Við höfum sótt um alls konar styrki en fengið fá já. Karolina Fund er bara alveg frábært fyrirbæri, nýlega fóru heildaráheit í gegnum vefinn yfir 300.000 evrur.
Ingrid: Sammála. Og það eru frábærir aðilar sem standa á bakvið það sem eru endalaust tilbúnir að ausa úr reynslubanka sínum.
Melkorka: Hugsjónafólk.
Nú eruð þið enn í miðju söfnunarferlinu, hver sýnist ykkur vera munurinn á því að fjármagna verkefni með hópfjármögnun og til dæmis að sækja um styrki fyrir því?
Ingrid: Þetta er mun meiri vinna.
Melkorka: Flest okkar kláruðu nám fyrir svolitlu síðan og þekkjum vel hvernig það er að reyna að búa til verkefni og láta þau verða að veruleika, ef maður stendur utan við ákveðnar stofnanir. Það er meira en að segja það. En Karolina Fund hjálpar með slíkt.
Þetta er kannski meiri vinna, eða öðruvísi vinna. Stór hluti vinnunar er í raun markaðssetning sem maður þyrfti líka að vinna ef maður fengi styrk. Svo finnst mér reyndar líka á einhvern hátt skemmtilegra að gera þetta svona.
Eins og í okkar tilfelli, þá erum við að safna fyrir plötuútgáfu og þeir sem styrkja okkur fá plötu, eða meira til, svo þetta er í rauninni bein leið milli þess sem framkvæmir/framleiðir og til þess sem nýtur afurðarinnar. Það er meiri þátttaka og tenging við samfélagið.
Ingrid: Maður er virkari í því að prómótera verkefnið og maður verður virkilega að standa og falla með því. Svo er maður í meira návígi við „audiencið“.
Þriðjungur kominn
Hvernig hefur söfnunin gengið?
Melkorka: Við erum í 32%. Svo það er kominn þriðjungur á rúmri viku, sem vonandi gefur fyrirheit um að þetta gangi eftir.
Áður en þið fórið af stað með ykkar söfnun höfðuð þið styrkt önnur verkefni. Hver haldið þið að sé ástæðan fyrir því að fólk styrki svona hópfjármögnun?
Melkorka: Ég hafði bara styrkt tvö, en ég fann að þetta gæti orðið svolítil fíkn að styrkja svona. Það er svo gaman að fylgjast svo með því hvernig verkefnið gengur. Fólk á einhvern veginn smá part í þessu þegar það kemur að þessu svona. Fylgist með fæðingunni og verður jafnvel stolt þegar verkefnið verður að veruleika.
Ingrid: Svo kannski hugsar fólk líka að það væri synd ef þetta myndi ekki ganga. Það hefur trú á okkur og verkefninu. Eða ég vona það allavega.
Melkorka: Já, maður er svo ánægður með einkaframtakið og þakklátur fyrir að fólk drífur í að skapa og búa til verkefni. Það eru svo mörg skemmtileg og áhugaverð verkefni á Karolina Fund.
Ingrid: Ótrúlega mikil gróska.
Munu halda tónleika í stofunni þinni
Hvað getur fólk fengið að launum fyrir að styðja verkefnið ykkar?
Melkorka: Það getur fengið diskinn, eða miða á útgáfutónleikana, eða jafnvel einkatónleika eða nýja útsetningu eftir Hjört. Og líka mikið þakklæti.
Ingrid: Mig langar svo að einhver leggi í einkatónleika.
Hvernig myndi það virka?
Ingrid: Við myndum koma og halda tónleika í stofu viðkomandi. Flytja öll lögin og að auki óskalag valið af viðkomandi sem Hjörtur myndi útsetja fyrir hópinn.
Við verðum samt með ókeypis stofutónleika í Stofunni næstkomandi sunnudagskvöld.
Melkorka: Já, þeir eru einmitt hugsaðir fyrir þá sem eru forvitnir um verkefnið og til að vekja athygli á söfnunni.
Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta gert það á verkefnasíðu þess á Karolina Fund.