Leikstjórinn Steingrímur Dúi Másson er að vinna að gerð sjónvarpsþátta sem bera nafnið Rúnturinn. Þar er fylgst með menningarfyrirbrigðinu "rúntinum" í bæjum vítt og breytt um landið. Þeir rúntar sem yrðu fyrir valinu voru rúnturinn á Akranesi, Akureyri, Blönduósi, Egilsstöðum, Hólmavík, Höfn, Ísafirði, Keflavík, Reykjavík and Vestmannaeyjum.
Það sem gerir þættina mjög áhugaverða eru hlutverk umsjónarmannanna Ólafs Jónssonar og Hákonar Viðars, þar sem þeir þóttust hafa mikinn áhuga á bílum og rúntinum sem þeir höfðu í raun ekki.
Nostalgía frá tíunda áratugnum
Steingrímur sagði Kjarnanum frá þessu nostalgíu verkefni frá tíunda áratugnum, sem nú er að vakna til lífsins á ný. "Rúnturinn er 10 þátta sjónvarpsþáttaröð í framleiðslu Friðriks Þórs Friðrikssona í leikstjórn undirritaðs. Verkefnið fjallar um tvo unga menn þá Hákon Viðar og Ólaf Jónsson sem ferðast um landið á ryðguðum amerískum van og kynna sér rúntinn með því að taka þátt í honum. Upphaflega var um að ræða heimildarmynd sem tekin var upp sumarið 1999.
Þar sem myndin var gerð í svokölluðum observational stíl þá voru myndavélarnar látnar ganga viðstöðulaust en í verkið fóru fimm helgar í tíu bæjum á Íslandi. Þess vegna, er tökum lauk, vorum við með gríðarlegt magn af uppteknu efni sem ég vissi að mikill hluti færi til spillis ef ég héldi fast í upprunalegu hugmyndina að 90 mín heimildarmynd. Þar með varð hugmynd að sjónvarpsþáttaröð til. Síðan lagðist verkefnið í dvala og önnur verkefni tóku við en ég gat bara aldrei afskrifað það í huga mér, það var alltaf einhver hugsun um að verkefnið þyrfti að klára fyrst og fremst til að koma því frá mér sem menningararfi og heimild um séríslenska jaðarmenningu."
Viðmælendurnir eiga sviðið
Steingrímur Dúi segir að þættirnir verði einstakir að því leyti að nálgun á viðfangsefnið sé algjörlega á jafningjagrundvelli. "Við leyfum viðmælendunum að eiga sviðið og í raun stjórna atburðarásinni sem er ein af grundvallarreglum observational heimildarmyndarinnar. Við gengum jafnvel svo langt í því að reyna að samsama okkur þessari menningu að umsjónarmennirnir drekka stundum í myndinni til að falla inn í fjöldann.
En aðalatriði þáttanna er auðvitað hið frábærlega skemmtilega unga fólk sem við hittum á rúntinum og sem í raun leiðir áhorfandann um rúntmenningu bæjanna í hverjum þætti fyrir sig. Hver þáttur verður 25 mín og bæjir sem koma við sögu eru: Akranes, Akureyri, Blönduós, Egilsstaðir, Hólmavík, Höfn, Ísafjörður, Keflavík, Reykjavík and Vestmannaeyjar."
https://vimeo.com/116081287
Hugmyndin kviknaði á Blönduósi
Af hverju fóruð þið út í þetta?
"Upphaflega þegar ég hitti Friðrik Þór og viðraði hugmyndina fyrir honum sagði hann „þetta er svona let´s make a movie dæmi, gerum þetta!“ Uppruna hugmyndarinnar má rekja til þess eitt sumar er ég var 17 ára gamall og vann sem leiðsögumaður í Víðdalsá þá heillaði rúnturinn mig á Blönduósi, sérstaklega fannst mér hann áhugaverður vegna þess hversu lítill bærinn var en rúnturinn á móti öflugur og skemmtilegur. Þannig togaði þessi hugmynd í mig lengi að það yrði að gera heimild um þetta fyrirbæri. Þegar Friðrik Þór sagði já, var hægt að framkvæma hugmyndina.
16 ára ferli
Hvað er langt síðan þið hófuð verkefnið og hvers vegna ákvaðstu að byrja eftirvinnsluna núna?
"Það eru komin 16 ár síðan. Ég lauk MA námi í menningarstjórnun ekki alls fyrir löngu frá Háskólanum á Bifröst og fjallaði um fyrirbærið rúntinn og þetta verkefni í lokaverkefninu. Huti af því var að hefja klippingu á Rúntinum auk þess að greina verkefnið og menninguna í kringum rúntinn.
Friðrik Þór hefur auðvitað alltaf viljað klára og ég finn fyrir þörf til að koma þessu af mínum herðum, til að klippa á naflastrenginn á milli mín og Rúntsins. Helstu rökin fyrir því að leggja í þá vinnu að ljúka við 16 ára gamalt verkefni er margþætt en fyrst ber að nefna menningarlegt gildi verkefnisins sem ég tel að sé ótvírætt og eigi erindi við íslenskan almenning. Í öðru lagi er heimildin mjög hreinskiptin og hefur að vissu leyti engan afgerandi stíl þannig að efnið er að mörgu leyti tímalaust og eldist vel, í þriðja lagi er þetta afar skemmtilegt efni og verður áhugavert í sjónvarpi og í fjórða lagi þá vil ég losna við verkefnið af mínum herðum, eins og áður hefur komið fram, og framleiðandinn vill sjá verklok."
Hægt er að skoða verkefnið nánar og leggja því lið hér.