Portishead var leiðandi afl í tónlistarstefnu sem oft er nefnd trip hop, var ríkjandi í Bretlandi snemma á tíunda áratug síðustu aldar.ljómsveitin Portishead á sér marga aðdáendur hér á landi og hefur hún verið að með hléum í rúm tuttugu ár. Sveitina stofnuðu þau Geoff Barrow og Beth Gibbons í Bristol árið 1991 og nefndu hana eftir smábæ suður af borginni. Upptökustjóri fyrstu breiðskífu sveitarinnar, Dummy, sem kom út árið 1994, var gítarleikarinn Adrian Utley og gekk hann til liðs við sveitina í upptökuferli hennar.
Kjarninn setti sig nýverið í samband við Adrian Utley, sem var staddur í hljóðveri sínu í miðborg Bristol, og spurði hann meðal annars um væntanlega tónleika á tónlistarhátíðinni All Tomorrow‘s Parties sem fram fer á Ásbrú dagana 10.–12. júlí næstkomandi. Þar kemur Portishead fram ásamt tónlistarmönnum á borð við Mogwai, Shellac, Swans, Liars, Sóleyju, Kurt Vile, Devendra Banhart, Slowdive, HAM og Low.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_19/54[/embed]
Er þetta í fyrsta skiptið sem þú heimsækir Ísland?
Já, ég hef aldrei áður komið til Íslands en mér hefur lengi þótt landið mjög heillandi og við hlökkum mjög mikið til að koma þangað. Ég hef séð töluvert af íslenskum kvikmyndum sem hafa gefið mér einhverja mynd af því hvernig landið er. Myndirnar sem ég hef séð af Íslandi minna mig töluvert á vesturhluta Skotlands, nema hvað Ísland minnir mig aðeins meira á landslagið á tunglinu. Ég veit hins vegar ekki hvernig það er að spila á Íslandi en þar sem hátíðin er haldin af All Tomorrow‘s Parties getur þetta ekki verið neitt minna en frábært.
Verðið þið með stóra hljómsveit á tónleikunum á Ásbrú?
Við verðum með sömu hljómsveit og við höfum alltaf spilað með fyrir utan einn nýjan hljómborðsleikara.
Hvernig er tónleikaprógrammið byggt upp hjá ykkur?
Við ætlum að spila lög af öllum plötunum okkar. Sum lög getum við þó ekki spilað á tónleikum, þar sem hljóðvinnsla þeirra er of flókin fyrir lifandi flutning. Við spilum ekkert nýtt efni, því miður, af því við erum ekki með neitt tilbúið.
Þið eruð að spila á nokkrum tónlistarhátíðum í sumar. Eruð þið vandlát þegar kemur að því að velja hátíðirnar sem þið spilið á?
Já, við erum vandlát á allt sem við gerum. Við gerum nánast ekkert án þess að vera sátt við það.
Vill hanga með Sigur Rós
Þið hafið verið töluvert mikið viðloðandi All Tomorrow‘s Parties í gegnum tíðina. Hver er munurinn á hátíðinni og öðrum hátíðum að þínu mati?
Þetta er svo frábær hátíð. Barry Hogan og Deborah Kee Higgins eru virkilega gott fólk og andrúmsloftið í kringum þau og hátíðina er svo gott og áhugavert. Tónlistin er alltaf góð og hátíðin er ekki rekin með gróða að leiðarljósi. Við höfum þrisvar verið gestgjafar og við völdum öll atriðin á hátíðinni. Hátíðin á Íslandi er örlítið ólík þeim sem við höfum spilað á áður þar sem við erum bara að spila en ekki að velja böndin. Við vitum þó að andrúmsloftið verður mjög einstakt og við hlökkum mjög mikið til þess að koma að spila.
Hvernig líst þér á hin tónlistaratriðin á hátíðinni á Íslandi?
Ég þekki ekki öll böndin sem eru að spila og ég verð að segja að ég er ansi svekktur yfir því að missa af Neil Young & Crazy Horse, þar sem við verðum ekki komin þegar þeir spila. Ég er mjög spenntur fyrir því að sjá Mogwai, Shellac, Liars og Swans og svo hef ég aldrei séð The Haxan Cloak spila á tónleikum. Mér finnst hann vera frábær og hlakka mjög mikið til að sjá tónleikana hans. Ég ætla að reyna að sjá allt sem ég get á meðan við verðum á landinu og vonandi náum við að hitta meðlimi Sigur Rósar og hanga aðeins með þeim.
Bristol hefur lengi verið suðupottur fyrir spennandi og áhugaverða tónlist. Hvernig upplifir þú tónlistarlífið þar?
Mér hefur alltaf fundist tónlistin héðan vera mjög fjölbreytt og frábær en borgaryfirvöld hafa aldrei sýnt senunni hérna neinn sérstakan áhuga og hefur það oft vakið upp gremju í manni. Við höfum aldrei átt almennilegt tónlistarhús og tónleikastaðir eru alltaf að loka. Borgaryfirvöld reyndu lengi að góma myndlistarmanninn Banksy sem er héðan og mála yfir verkin hans en þau eru aðeins farin að slaka á núna þar sem hann þénar mikið með list sinni. Það er frekar fúlt hvað það er lítið gert til þess að styðja við bakið á listalífinu hér í borginni en engu að síður er það alltaf mjög frjótt og það er alltaf eitthvað spennandi í gangi. Ég flutti hingað vegna tónlistarinnar og sama má segja um Geoff, sem er ekki heldur frá Bristol. Burtséð frá því hvort senan fær stuðning eða ekki virðist hún lifa mjög heilbrigðu og góðu lífi.
Þetta er brot úr ítarlegu viðtali við Adrian Utley sem birtist í síðasta Kjarna. Lestu hann í heild sinni hér.