Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Höfundur: Karl Ágúst Úlfsson
Aþena, Ohio
Útgefandi: Undur og stórmerki
Þegar vera á fyndinn, allavega svona í umtalsverðu magni, er vænlegt að beina gríninu að töluverðu leyti að sjálfu sér. Það er auðvitað ekkert sem Karl Ágúst Úlfsson veit ekki um þá list, svo hann er vissulega aðalskotspónninn í þessum skyndimyndum, örsögum úr lífi hans og fjölskyldunnar í tveggja ára dvöl í „Hinni sönnu Ameríku“, fjarri solli og menningu stórborganna á ströndinni.
Eða kannski ekki hann, heldur hann sem ÍSLENDINGURINN, þessi sem hefur gleypt allar klisjur um ágæti eigin lands, menningar og siða hráar og reynir af kappi að innleiða þær eða í það allraminnsta óskapast yfir þeim frávikum sem hann sér á sinni menningu og (ó)menningu umhverfisins. Mataræði, samskiptahættir, hátíðisdagar, veður. Allt verður kverúlantinum að yrkisefni. Hann lætur eins og hann sé að skammast yfir hinum, en svo er það hann sem situr eftir sem vitleysingurinn.
Því þetta fer vitaskuld nánast aldrei vel. Þverhausinn sem Karl hefur skapað (og er alveg örugglega ekki hann sjálfur svo neinu nemi) þarf undantekningarlítið að éta ofan í sig fordómana og vitleysuna, stundum án þess að taka eftir því. Þetta er iðullega mjög fyndið. Karl er á heimavelli í kverúlöntum eins og Spaugstofuáhorfendur (les: íslendingar) vita, hvort sem það eru besservissar með aldarfjórðungsreynslu af leigubílaakstri, útsmognir prúttmeistarar eða önugir föndurkennarar. Eða svona landar á þurru landi.
Eftir því sem líður á bókina víkur „formúlan“ sífellt meira fyrir fjölbreyttari nálgun. Gaman er að lesa pistla um málefni ritunartímans (1992–4) – langt síðan þær stöllur Nancy Kerrigan og Tonya Harding hafa komið nálægt meðvitund manns, svo ekki sé minnst á Roseanne Barr og Tom Arnold og heimilisógæfu Clinton-hjónanna.
Gaman hvað Karli er uppsigað við markaðs- og auglýsingaskrummenningu Ameríku, þó lýsingarnar á yfirgengleikanum megi sífellt betur heimfæra á okkur hér. Og langt er síðan einhver hefur skrifað jafn æsingarlausa hneykslan á tungumálsendursköpuninni sem var að fara í gang þessi árin í nafni „pólitískrar rétthugsunar“.
Undir lokin tekur það síðan yfir, barnið sem kemur undir og síðar í heiminn á ritunartímanum. Þannig á það að vera.
Textarnir eru skrifaðir sem útvarpspistlar, semsagt ekki ætlast til að þeir séu gleyptir í einu lagi, og eftir að hafa gert nákvæmlega það þá verð ég að segja að ég mæli ekki með þannig neyslu. Til þess eru þeir of keimlíkir í uppbyggingu og innihaldi. Á hinn bóginn er skammtastærðin þannig að þetta er kjörgripur til að hafa á náttborðinu og jafnvel enn afviknari stöðum, þar sem áreynslulaust og gleðivekjandi lesefni á borð við Aþena, Ohio kemur í góðar þarfir.