Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Höfundur: Finnbogi Hermannsson
Illur fengur
Útgefandi: Skrudda
Efnislega sver þessi litla bók sig í ætt við hina stórmerku hefð sagnaþáttarins. Sannsögulegt efni (held ég) búið í hæfilega listrænan búning með Íslendingasögurnar sem fyrirmynd. Brynjólfur frá Minna-Núpi og Gísli Konráðsson mega heita mótunarmenn formsins, Magnús Jónsson frá Syðra-Hóli, Jón Helgason ritstjóri og fleiri sporgöngumenn.
Finnbogi Hermannsson er ekkert víðsfjarri þessum skóla, en færir sig þó talsvert nær aðferðum nútímaskáldsögunnar í meðferð sinni á sannri (að mestu, að ég held) sögu af sauðaþjófafjölskyldu sem fær að athafna sig árum saman næsta óáreitt á Skarðsströndinni á millistríðsárunum.
Þetta eru stórskrítnar aðstæður. Allir vita hvað hyskið (afsakið orðbragðið) á Hleinabergi aðhefst, en allar aðgerðir stranda á einstaklega lötum og/eða vanhæfum sýslumanni. Eða kannski bara spilltum, þó sú skýring bókarinnar á aðgerðaleysi hans í málinu að hann hafi munað svona mikið um atkvæði heimilisfólksins, hljómi í hæpnara lagi.
En allavega, þegar Hleinabergsmenn færa út kvíarnar og brjótast inn í kaupfélagið grípa sveitungar til ísmeygilegra ráða til að koma þeim undir manna hendur í höfuðstaðnum. Þar hefst kjarni frásagnarinnar. Reyndar flæmist hún síðan á aðra bæi í sveitinni með lausleg tengsl við meginþráðinn.
Aðallega fylgjumst við með Hleinabergsfólkinu á leið í gegnum kvörn réttvísinnar og smám saman skiljum við meira af atferli þeirra. Já og fáum mynd af réttarfari tímabilsins, smáþef af borgarlífinu með augum heimóttarlegra sveitamanna og síðar lítilsháttar innsýn í lífið á Litla-Hrauni í árdaga fangelsisins.
Þetta er allt gott og blessað, og gott fyrir sinn hatt. En hangir ekki alveg saman.
Ég veit það ekki, kannski hefði línulegri frásögn í anda sagnaþáttahefðarinnar hentað efniviðnum betur. Ég hefði alveg verið til í skýrari greinargerð fyrir uppruna þessa fólks, sem og útlistun á glæpum þess sem ekki væri bundin í klafa endurlits og annarra kenja formsins.
Alla vega þvælist frásagnarhátturinn svolítið fyrir Finnboga - erfitt er að ná skarpri sýn á hvað eru aðalatriðn, og útundansérhlaup á aðra bæi virka fyrst og fremst se útúrdúrar.
Tilþrif í að lita málfarið og fyrnska í orðavali er heilt yfir viðeigandi í svona efni og frásagnargerð, en stundum þykir mér Finnbogi þó seilast of langt í sérviskunni.
En þetta er mergjuð saga sem liggur til grundvallar. Stríðið milli fortíðar og nútíðar fær á sig skemmtilegan fáránleikablæ þar sem sauðaþjófnaður er ýmist séður með augum gamla samfélagsins þar sem hann var verstur glæpa, og hins nýja þar sem alvarleiki hans er síst meiri en að brjótast inn og stela kaffibaunum af kaupfélaginu.
Sagan sú kemst til skila, þrátt fyrir kenjar sögumannsins.