The gates to heaven are about to open for cinema lovers,“ sagði finnski leikstjórinn Peter von Bagh við setningu Il Cinema Ritrovato kvikmyndahátíðarinnar. Hann hefur verið listrænn stjórnandi hátíðarinnar frá árinu 2001 en hátíðin var haldin í 28. sinn í Bologna á Ítalíu fyrir skemmstu. Il Cinema Ritrovato er átta daga hátíð gamalla endurgerðra kvikmynda. Þangað mæta fulltrúar allra helstu kvikmyndasafna og stúdíóa heims, framleiðendur, forverðir, kvikmyndafræðingar og ekki síst áhugafólk, til þess að sjá gamlar myndir, bestu sýningareintökin, og stafrænar (digital) og hliðrænar (analog) endurbætur á einstökum myndum. Andrea Krämer, kvikmyndaforvörður í Berlín, sem vinnur náið með þýska leikstjóranum Wim Wenders að viðgerðum á myndum hans, segir að á hátíðina komi allir þeir sem koma að varðveislu, viðgerðum, söfnum og sýningum kvikmynda og að hátíðin sé án efa stærsti viðburður ársins í filmuheiminum. Hátíðin skapi vettvang og tækifæri fyrir fagfólk og áhugafólk til að hittast, horfa á myndir og ræða strauma og stefnur fortíðar og framtíðar í kvikmyndagerð, og þar með framtíð kvikmynda sem menningararfs.
Dagskrá hátíðarinnar samanstóð af 360 myndum, sú elsta frá 1895, og opnum fyrirlestrum um verkefni kvikmyndasafna og stúdíóa. Dagskránni var skipt í nokkur þemu. Eitt þemað í ár var um stríð og frið og friðarmyndir sem voru gerðar stuttu áður en fyrri heimsstyrjöldin braust út fyrir 100 árum voru sýndar. Á efnisskránni voru einnig m.a. pólska nýbylgjan frá 1960 (leikstjórar eins og Wadja og Has), japanskar myndir frá fjórða áratugnum (leikstjórar eins og Mazoguchi og Ozu) og ítalskar stuttmyndir frá 1960. Ákveðnir leikstjórar eða leikarar eru alltaf teknir fyrir og í ár voru það m.a. Werner Hochbaum, Germanie Dulac, William Wellman, Riccardo Freda og gamanleikkonan Rosa Porten.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_24/47[/embed]
Meistari Chaplin mikill áhrifavaldur
Þá var sérstök hátíðardagskrá í tilefni af 100 ára afmæli Tramps, hins ógleymanlega karakters Charlie Chaplins. Kvikmyndaverkstæðið í Bologna sá um viðgerðir á Chaplin-safninu og sýndi afrakstur þess á hátíðinni. Einn af gestum hátíðarinnar var bandaríski leikstjórinn Alexander Payne, sem m.a. leikstýrði myndunum Sideways og The Descendants. Alexander Payne sagði gestum hátíðarinnar af einlægni frá því hvernig Chaplin hefði haft áhrif á sig sem ungur maður, jafnvel orðið til þess að hann fór út í kvikmyndagerð, og endaði á að segja: „Það að tala um Chaplin er eins og að tala um trúarbrögð. Nema ég trúi á Chaplin.“
Gamlar bíómyndir öðlast „nýtt“ líf
Markmið hátíðarinnar er öðrum þræði að sýna afrakstur vinnu kvikmyndasafna og verkstæða við endurbætur á kvikmyndum og miðla því sem felst í því að búa til og varðveita kvikmyndir. Bandaríski leikstjórinn Martin Scorsese, sem er tíður gestur á hátíðinni, hefur beitt sér fyrir varðveislu á gömlum kvikmyndum sem veitt hafa honum innblástur í sinni sköpun í gegnum samtökin The Film Foundation. Scorsese kom að endurgerðinni á öllum þremur myndum James Dean: Rebel Without a Cause í leikstjórn Nicholas Ray, Giant í leikstjórn George Stevens og East of Eden í leikstjórn Elia Kazen, en myndirnar er búið að skanna í hárri upplausn og gera við stafrænt hjá Warner Bros með stuðningi Film Foundation. Þær voru sýndar með viðhöfn á hátíðinni í nýju endurbættu útgáfunum og eru nú eins nálægt upprunalegu myndunum og hægt er með nútíma tækni.
Ned Price, yfirmaður forvörslu hjá Warner Bros, kynnti endurgerðina á myndunum þremur, sem framleiddar voru á árunum 1955 til 1956. Út frá kvikmyndatækni er ferill James Dean sérstakur, þótt stuttur hafi verið og bara um þrjár myndir að ræða. Á þessum árum var umbylting í filmu- og linsutækni þar sem litfilmur, breiðtjaldstækni (CinemaScope) og fjölrása stereo voru að ryðja sér til rúms, en tæknin enn ófullkomin. Price fór yfir spurningar og álitamál sem verkstæðin og stúdíóin þurfa að skoða í viðgerðarferlinu, tæknilegar og ekki síður siðferðilegar spurningar - hversu mikið á að fylgja upprunalegu filmunni, hvaða tækni var til staðar á þeim tíma sem myndin var gerð, hversu langt á að ganga þar sem skemmdir og litaskekkjur eru o.s.frv. Svörin geta verið mjög misjöfn eftir verkstæðum, þjálfun þeirra sem koma að viðgerðinni, og auðvitað spilar fjármagn inn í. Samkvæmt fulltrúa Cineric, eftirvinnslufyrirtækis sem staðsett er í New York og var á hátíðinni, er hægt að miða við að viðgerð á hverri mínútu af mynd kosti um 2000 dollara.
Þá var ný útgáfa þýsku stórmyndarinnar Das Cabinet des Dr. Caligari kynnt og sýnd, en þetta er fjórða endurgerðin af myndinni. Hátíðin hefur sýnt allar endurgerðirnar í gegnum tíðina, þá síðustu fyrir 20 árum, en þessi nýja ku vera sú sem kemst næst upprunalegu útgáfunni miðað við það efni sem til er í dag. Þegar ákveðið er að laga kvikmynd, eins og í tilfelli Dr. Caligari, er reynt að finna frumeintökin eða eintök sem eru eins nálægt þeim og mögulegt er. Anke Wilkening, kvikmyndaforvörður hjá Murnau Stiftung, sagði frá ævintýralegu ferðalagi myndarinnar frá því hún var frumsýnd í Berlín árið 1920. Frumfilman var í nokkur ár varðveitt í Ríkiskvikmyndasafni Þriðja Ríkisins en eftir síðari heimsstyrjöldina voru þær fluttar til Moskvu. Þar lágu þær fram á áttunda áratuginn þegar þeim var skilað til Austur-Berlínar og enduðu svo eftir sameiningu Þýskalands í skjalasafni lýðveldisins. Á flakkinu týndist hins vegar fyrsta rúllan af sex og er nú talin glötuð. Í ljós kom að engar eftirprentanir höfðu verið gerðar af upprunalegu filmunni síðan fyrir síðari heimsstyrjöldina og við fyrri endurgerðir höfðu verið notuð ófullkomin sýningareintök, sem voru þá afrit af afritum. Til að fylla upp í göt og skemmdir þurfti að finna dreifingareintök sem afrituð voru af filmunni eins nálægt upptökum og hægt var, og rakti Wilkening elstu eintökin m.a. til Suður-Ameríku og Museum of Modern Art í New York. Var notast við þau við endurgerð fyrsta hluta myndarinnar. Filmurnar voru skannaðar og myndin hreinsuð og litaleiðrétt á verkstæðinu í Bologna, og fullir eftirvæntingar sáu gestir hátíðarinnar nýju stafrænu endurgerðina af Dr. Caligari.
Filmusjúkir fjölmenna á hátíðina
En það eru ekki bara stafrænt endurgerðar stórmyndir sem sýndar eru á hátíðinni. Mikil áhersla er lögð á að sýna sjaldgæfar myndir af upprunalegum dreifingarfilmum og þöglar myndir sýndar með undirleik píanós eða sinfóníuhljómsveitar. Meirihluti dagskrárinnar er sýndur af 35mm filmum og margir gestir hátíðarinnar, sem eru um 2.000 talsins, koma einmitt eingöngu á hátíðina til þess að upplifa það. Peter von Bagh hrósaði sérstaklega fulltrúum Sænsku kvikmyndastofnunarinnar á hátíðinni í ár fyrir hugrekki, en á sænska kvikmyndasafninu var nýlega opnað verkstæði fyrir filmur á meðan verið er að loka mörgum af helstu verkstæðum heims, og samhliða því samþykkti sænska ríkið að fjármagna tíu ára verkefni til að koma öllum sænskum kvikmyndaarfi á stafrænt form. Þá sagði Peter von Bagh aðstandendur hátíðarinnar vera að venjast þeirri tilhugsun að sífellt fleiri gömlum myndum væri varpað með svokölluðum DCP (Digital Cinema Package) og því að flestar kvikmyndahátíðir í heimi sýndu ekki lengur neinar myndir af 35mm filmum, eða „real movies“, eins og hann kallar annað en stafrænar útgáfur. Vissulega íhaldssöm viðhorf, en það er sannarlega hægt að taka undir orð Peters von Bagh frá setningu hátíðarinnar – á hátíðinni opnast himnarnir fyrir kvikmyndaunnendur.