Þegar geimfarar Apollo 8 slitu sig frá sporbaug jarðar var fókusinn allur á stjörnurnar – á tunglið sem þeir nálguðust eins óðfluga og stálhylki sem ferðast á 40.000 kílómetra hraða leyfði. Það hafði enginn velt fyrir sér hvaða áhrif það hefði að líta til baka á jörðina rísa úr sjóndeildarhring tunglsins; lítla bláa kúlu hangandi í tóminu – svo litla að það er hægt að fela hana á bak við þumal. Ekkert nema næfurþunnt lag af andrúmslofti sem heldur í henni lífinu. Tugir geimfara hafa lýst sömu upplifuninni – fullkominni samkennd. Skilningur á að við séum öll agnarsmá, klesst saman í einu lífkerfi. Stríð, pólitík, menning, meira að segja sjálfið – allt sé þetta marklaust í heildarmyndinni. Þeir kölluðu þetta yfirsýn.
47 árum síðar og 400.000 kílómetrum neðar, undir þykkri skýjahulu, ligg ég tímabundið örkumla á bílastæðinu fyrir utan húsnæði Söngskóla Reykjavíkur við Snorrabraut. Það var stormur og ég hafði haldið á tveimur innkaupapokum fullum af gosi og morgunkorni. Í þessu varnarlausa ástandi gat ég ekki stöðvað eigin gleraugu frá því að fjúka af nefi mínu og út í móðuna. Ég féll á fjóra fætur, lögblindur og örvæntingarfullur, fálmandi í ökkladjúpum drullupolli eins og stereótýpískur nörd í eitís gamanmynd. Weetospakkinn gegnsósa af drullu. Á meðan löbbuðu sálarlausir samborgarar mínir fram hjá mér og létu eins og ég væri jafn ósýnilegur og Ástþór Magnússon með tóman meðmælalista fyrir utan Rúmfatalagerinn.
Er ég píri gríðarlega fötluð augu mín út í tómið sé ég drapplitaðan Volkswagen Polo keyra hægt fram hjá mér. Inni í honum situr kona á miðjum aldri í hnýttum rykfrakka. Hún reynir að bægja sér frá því að horfa í augun á mér en þau læsast samt eitt andartak og það er eins og þau segi við mig: „Þinn sársauki varðar mig ekki“. Svo keyrir hún í burtu. Ég er einn eftir í móðunni. Það eina sem ég heyri er ómur falskra barna sem berst til mín með gnauðandi vindinum.
Þegar athugasemdakerfi við fréttir af innflytjendamálum fyllast af óttamarineruðu, ranghugmyndafylltu hatri er vinsæl klisja að tala um nettröllin. Sama með hómófóbíuna, kvenhatrið og aðra fáfræði sem felur á sig á bak við misskilda túlkun á málfrelsi. Nettröllið er til í tómi – ómennsk óværa: „Fólk mundi aldei segja þetta í raunheimum.“ Internetið hámarkar þá ímynd sem við viljum spegla af okkur – þar höfum við tóm til að móta okkur. Sterkari skoðanir sem óma í aðeins straumlínulagaðri bergmálsklefa. Það sem internetið gerir ekki er að gera þig að annarri manneskju. Ástæðan fyrir því að fólk segir þessa hluti ekki í „raunheimum“ er ekki sú að það hætti skyndilega að hugsa þá þegar við förum út úr húsi, heldur af því að við sem þjóð erum svo komplexuð og full af nagandi sjálfsefa að við segjum eiginlega aldrei neitt upphátt. Muldrum bara ofan í úlpurnar okkar og þykjumst ekki sjá Hrafn Jónsson þegar hann liggur á fjórum fótum ofan í drullupolli að leita að gleraugunum sínum.
Þetta er ástæðan fyrir því að við leggjum svona mikla fæð á Sigmund Davíð, langt umfram aðra spillta stjórnmálamenn og skíthæla. Það er ekki af því að hann er milljarðamæringur. Það er ekki vegna þess að allur hans stjórnmálaferill er grundvallaður á popúlísku kjaftæði. Ekki öll lygasýkin. Ekki einu sinni út af norður-kóreska einræðisbrjálæðinu sem fær hann til að vilja soga til sín stofnanir og embætti eins og bólugrafni strákurinn sem stal af mér öllum Jordan-körfuboltamyndunum mínum í Grandaskóla í skiptum fyrir nokkra John Paxsona.
Við speglum Sigmund Davíð nefnilega í öllu því versta sem við sjáum í okkur sjálfum. Við notum hann sem frummynd sjálfsánægju og hroka – en líka lamandi ótta og minnimáttarkenndar. Í hvert skipti sem einhver mótmælir honum, bendir á misbrest, afhjúpar ósannindi þá grefur hann niður hælana, setur upp falskt glott og geltir til baka. Hann getur ekki stillt sig um að svara fyrir sig. Sjálfsmyndin er svo viðkvæm að hún þolir ómögulega að opna á þann möguleika að eitthvað sem hann hafi gert eða sagt sé mögulega rangt. Fjölmiðlar eru á eftir honum, misskilja viljandi allt sem hann segir, gera lítið úr góðum verkum hans. Reyna að láta smávægilegar eignir í skattaskjóli líta glæpsamlega út.
Það er engin auðmýkt – bara ótti. Hver einasti dagur hlýtur að vera eins og prótótýpíska martröðin þar sem hann er í skólanum, lítur niður og fattar að hann er ekki í buxum, og hann þarf að fara með munnlegt algebrupróf - á frönsku - og hvert sem hann snýr sér eru bananahýði fyrir hann að renna á og teiknibólur að setjast á. Og hann getur aldrei nokkurn tímann vaknað.
Hann, eins og okkur flest, skortir getuna að sjá sjálfan sig í víðara samhengi - sem part af einhverri heild. Það eina sem hann sér er risavaxið tunglið nálgast á 40.000 kílómetra hraða í formi eigin rassgats.
Í samanburði hefur Bjarni Benediktsson litið út eins og nokkuð rökfastur, en þó þreytulegur og niðurbarinn meðspilari; Mússólíní þessa hernaðarbandalags (sorrí Godwin). Á meðan fjölmiðlar voru í Benny Hill-eltingaleik við forsætisráðerra um alla Reykjavík að reyna að fá hann til að tjá sig um alla peningana sem voru geymdir í skattaskjóli (ekki af því var einhver skattalegur ávinningur af því, heldur af því að bankaþjónusta á að vera flókið og kostnaðarsamt alþjóðlegt ævintýri) hefur einhver hluti Bjarna kannski trúað því að hann væri sloppinn.
Að sjálfsögðu var Bjarni sjálfur með félag í skattaskjóli. Hann hefur aldrei hitt það siðferðislega vafasama viðskiptatækifæri sem hann hefur ekki flækt sig í, bæði vandræðalega og opinberlega.
Er það bara ég eða eru afsakanirnar byrjaðar að vera eitthvað lélegri og andlausari með árunum? Þegar maður er fjármálaráðherra gengur eiginlega ekki upp að rokka á milli þess að segja „Ég skil eiginlega ekki fjármál“ og „Ég á svo mikið af peningum að það er gjörsamlega ómögulegt fyrir mig að vita hvar þeir eru allir hverju sinni“.
Mesta letin liggur í því að ljúga einhverju sem svo augljóslega og auðsannanlega er ósatt. Hálftíma eftir að fjármálaráðherra tilkynnti okkur frá Key Largo í Flórída að hann hafi ekki haft hugmynd um að þetta ágæta félag væri skráð á einhverri geggjaðri hitabeltiseyju steig sérfræðingur hjá Deloitte fram og sagði að sú skýring væri álíka sennileg og að greindarskerti Hollendingurinn væri að púlla Edward Norton í Primal Fear á okkur öll. Ætli sannleikurinn liggi ekki einhversstaðar á milli spillingar og vanhæfni, eins og oftast.
Þeir sem hafa drukkið Ayahuasca, sem inniheldur skynbreytandi efnið DMT, lýsa upplifun sem ekki er ósvipuð þeirri sem geimfararnir lýstu – hugurinn opnast, hugmyndir um landamæri hverfa. Ótti hverfur og í staðinn opnast nýjar leiðir í átt að óhlutbundnum hugmyndum. Samkennd, yfirsýn, nema inn á við. Einhverjir skítugir hippar hafa predikað að þessi upplifun sé besta tækifærið til að bjarga heiminum frá yfirvofandi glötun. Þegar ég ligg í rúminu, halla aftur augum og hugsa til stjarnanna – til þeirra 536 geimfara sem hafa horft niður á okkur með raunverulegri yfirsýn, verður allt skýrt. Til þess að öðlast einhvers konar æðrulaust, sjálfsmeðvitað samfélag þurfum við sem heild að smala saman öllum ráðherrum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, Ásmundi Friðrikssyni, Arnþrúði Karlsdóttur, eignastýringardeild Landsbankans og öllum íbúum Kjalarness, moka í þau skynbreytandi efnum, þakka þeim fyrir samveruna, gefa þeim langt og innilegt faðmlag og skjóta þeim svo út í geim.