Ég á ótal börn með enn fleiri mönnum. Sú staðreynd er ekkert leyndarmál, þvert á móti hefur hún aflað mér alþjóðlegs alræmis. En engar áhyggjur, ég er sjúklega fín mamma og hreint úrvals barnsmóðir. Ég leyfi börnunum mínum að umgangast feður sína jafn mikið og mig, algjörlega ótilneydd. Augljóslega þarf ég þess ekki en ég er bara eitthvað svo fín stelpa. Örlát og réttsýn. Ég tek líka ákvarðanir um tómstundaiðkun barna minna og annað slíkt í samráði við pabbana, þótt allir viti að úrslitavaldið liggur hjá mér, lögheimilisforeldrinu. Sem ég, mamman, er. Eðlilega. Svo rukka ég ekki einu sinni meðlag, spáið í mér.
Nú haldið þið kannski að það sé bara eðlilegur hlutur, í ljósi þess að ég og feðurnir deilum uppeldinu jafnt sem og öllum kostnaði, en ég skal segja ykkur að svo er hreint ekki. Sýslumaður harðneitar að krossa í slíkan kassa svo ég verð, lögum samkvæmt, að skrá annað hvort einfalt eða tvöfalt meðlag. Ég vel síðan bara að innheimta það ekki. Öðlingurinn ég. Reyndar fæ ég barnabæturnar óskertar fjórum sinnum á ári og enginn fylgist með því hvort ég eyði þeim í börnin eða Jörjakka, en hvað um það. Ég er samt óvenju fín týpa. Einu sinni flutti ég með börnin til Raufarhafnar og pabbi þeirra gat ekkert sagt við því þar sem ég er jú lögheimilisforeldrið, en ég, þessi eðalpía, borgaði undir þau farið til hans einu sinni í mánuði þrátt fyrir að kerfið geri ráð fyrir að hann borgi slíkt. Því ég má taka ákvörðun um að flytja með börnin þvert yfir landið og ef hann og börnin vilja endilega halda því til streitu að hittast ætti hann, lögum samkvæmt, að standa undir þeim kostnaði.
Þessir barnsfeður gera sér enga grein fyrir sinni einstöku lukku. Ég leyfi börnunum að
elska þá alveg
jafn mikið
og mig, þrátt fyrir alla þeirra augljósu galla. Kannski er það
hrein firra að vera svona ligeglad og framúrstefnuleg. Vinkonur mínar
eru margar hverjar alveg gáttaðar á mér.
Aldrei gætu þær til dæmis aðfangadag án barnanna sinna, segja þær. Börn eiga jú að vera
heima hjá sér á jólunum.
Dæma mig ögn fyrir að komast ógrátandi í
gegnum slíka raun. Allt þetta
umber ég fyrir sakir barnanna og almenns réttlætis. Ég hlýt að
vera einhvers konar feminísk neohippuð
móðir
Teresa. Nóbelinn strax.
Kannski hætti ég samt einn daginn að vera svona næs. Hún er jú langt í frá sjálfgefin, öll þessi ljúfmennska. Að leyfa börnunum að fara í svona langar heimsóknir, eða “umgengni”, til feðra sinna. Því börn búa ekkert hjá feðrum sínum, þau fara þangað í “umgengni”. Kannski þornar á endanum brunnur gæsku minnar og ég ákveð að rukka meðlag. Þið vitið, ef mig vantar allt í einu bara pening eða ef feðurnir pirra mig mjög. Því meðlag er hægt að rukka aftur í tímann. Takk snilldar kerfi fyrir að halda svona mikið með mér.
Að öllum líkindum þekkja flestir fráskildir foreldrar þann veruleika sem hér birtist. Þið hin sem vitið ekki alveg hvaðan á ykkur stendur veðrið, velkomin í Mæðraveldið. Það er undraland þar sem ekkert er alveg eins og það virðist vera. Hér ríða húsum risavaxnar Lísur sem illa ráða við stærð sína og traðka því niður eigin afkvæmi og feður þeirra sem enga grein gerðu sér fyrir því að skilnaður við barnsmóður væri kanínuhola niður í þvíumlíkt rugl. Lísurnar eru þó ekki endilega vondar, þær eru bara allt of stórar. Þær urðu þannig við að drekka úr annars aflögðum brunni hinna ódrepandi staðalímynda og kunna ekki að minnka sig aftur. Allt borgarskipulag hér í Mæðraveldinu er enda hannað með tilliti til hinna ofvöxnu Lísa. Á víð og dreif standa vegvísar að því er virðist kynlausra orða á borð við umgengnisforeldri og lögheimilisforeldri, orða sem þegar betur er að gáð eru kirfilega steypt í ævagamlan grunn kynjaðrar hefðar sem seint haggast. Vegvísar þessir leiða menn inn í óskiljanlega hringiðu torga sem láta Vallahverfið í Hafnarfirði skammast sín. Á aðaltorginu blikkar síðan risavaxið neonskilti sem á er letrað HAGUR BARNSINS og þótt það hafi upprunalega verið sett þarna til að vísa þeim villtu veginn þjónar það í dag fremur því hlutverki að blinda vegfarendur og hylja hinn skýra ásetning sæluríkisins. Það er ákveðinn retró fílingur í loftinu hér, smá sixtís stemming og margir njóta þess. Börnin héðan ramba þó fremur ringluð út í lífið, enda ríma reglur og hefðir hér í Mæðraveldinu illa við það sem tíðkast í veröldinni sem við tekur og við köllum í daglegu tali nútíma.
Síðastliðinn mánudagur, 25. apríl, var alþjóðadagur foreldraútskúfunar. Honum er ætlað að vekja athygli á því ofbeldi sem felst í því að hindra, beint eða óbeint, umgengni barns og foreldris. Mörg slík mál hafa á undanförnum misserum poppað upp í fjölmiðlum, við súpum hveljur og hneykslumst á vanhæfu kerfi sem leyfir slíku að viðgangast og svo gerist ekkert. Potturinn er víða hreinlega í maski hvað réttindi barna til jafnra og eðlilegra samskipta við foreldra sína varðar. Að því sögðu vona ég og trúi að slík erkitilfelli séu undantekningin. Ég þekki afar fáar konur sem vilja ala upp föðurlaus börn. Ég þekki hins vegar ótal konur sem vilja föður á kantinum, hlýðinn vissu hlutverki í uppeldinu en þægur á básnum sínum. Hann á ekki að heimta of mikla ráðdeild, því mamman veit hvað er barni sínu fyrir bestu. Ef föður og barni dugar ekki sá takmarkaði tími sem móðir og sýslumaðurinn vinur hennar telur hæfilegan til eðlilegrar tengslamyndunar er föður hollast að geta sannað sitt einstaka foreldraágæti eins og um starfsviðtal væri að ræða, annars getur hann gleymt því að vera metinn til jafns á við móður hvað hæfni varðar.
Þessi pistill er því til vinkvenna minna og frænkna, til mín og minna, til allra Lísanna sem ljóst og leynt viðhalda úreltu kerfi sem engum þjónar nema þeirra eigin mæðraegói en skaðar sjálfsmynd barns sem á rétt á báðum foreldrum sínum. Egói sem kannski er ekki einu sinni þeirra eigið, heldur arfleifð samfélags sem gerði ráð fyrir að eðli kvenna ákvarðaðist af móðurástinni, karllægs skipulags sem tamdi konur með umönnunarkröfunni og hélt þeim þannig stilltum á sínum stað. Þannig er umrætt ójafnrétti bara enn ein birtingarmynd þeirrar kynjuðu skekkju sem aflagar samfélag okkar. Mæðraveldið er skilgetið afkvæmi feðraveldisins.
Feður eru á engan hátt verr í stakk búnir til að mynda sterk og náin tengsl við börn sín og gegna mikilvægu umönnunarhlutverki í lífi þeirra. Þeim er bara úthlutaður svo lítill tími til þess arna, gerðir hornreka í samfélagi sem að öðru leyti æpir á jafnrétti í hvívetna. Hlutverk þeirra er að kitla afkvæmi sín um helgar. Hagur barnsins.