Ég bý í Bústaðahverfinu. 108 4life. Gekk í Réttó, kenni þar núna og myndi deyja fyrir Víking (ok nei, en þið skiljið). Mér þykir undurvænt um Kúluna sem kom mér í gegnum grunnskóla með sínum hundrað og fimmtíu króna pulsutilboðum með súperdós og faldi mig samvinnufús í útihlaupum í leikfimi. Eins ber ég óeðlilega heitar tilfinningar til hitaveitustokksins sem liggur gegnum hverfið, heldur mér hjólandi allan ársins hring í snjóleysi sínu og veit öll mín leyndarmál.
Auðvitað reyni ég svo eins og frekast er hægt að versla í heimabyggð og þar leynist líka allskyns snilld. Besti pítsustaður landsins kúrir í hinum fornfræga verslunarkjarna Grímsbæ, Vesturbæjarísbúðin hímir áttavillt en hreint ágætlega sótt á Grensásveginum ásamt prýðis kjötbúð og dýralækninum sem framdi fokdýran keisaraskurð á kettinum mínum í fyrra. Samviskusöm versla ég við öll þessi fyrirtæki þrátt fyrir að vantreysta aðeins kjötbúð við hliðina á dýralækni.
Fiskikóngurinn á Sogaveginum er yfir meðallagi hress og myndi fús selja mér fisk ef fjölskyldan æti slíkt. Stundum kaupi ég samt af honum humar, það gleður í góðra vina hópi. Efst á Réttarholtinu er uppáhalds staðurinn minn, á hitaveitustokknum góða bak við íþróttahúsið. Þar sé ég til allra átta og yfir gjörvallt ríki mitt. Þarna hjúfra Gerðin sig, hógvær og yfirveguð þvers og kruss og Fossvogurinn chillar dálítið of streit en slakur, enda fullviss um eigið ágæti andspænis öllu auðmjúkari hlíðum Kópavogs. Allt er gróðursælt og gott, friður og fermetraverð er hér í hámarki. Verði manni þó á að snúa höfðinu aðeins of langt til hægri er úti um fílinginn.
Þar blasir nefnilega Mordor við, hin illræmda Skeifa sem Íslendingar hafa löngum sameinast um að hata og baktala, allir sem einn. Sé umræðuefni af skornum skammti manna á milli og vandræðaleg þögn vofir yfir má alltaf treysta á að hata bara Skeifuna saman. Klikkar aldrei. Hver hefur ekki tapað geðheilsunni um stund á skrítnu gatnamótunum inn hjá Bónus eða næstum fórnað lífinu fyrir þurrís í Partýbúðinni á föstudags eftirmiðdegi?
Rétt eins og aðrir hef ég í gegnum árin lagt mig fram við að hata Skeifuna af töluverðum ákafa. En það endemis skipulagsslys, ekki hönnuð fyrir gangandi vegfarendur og almennt eitthvað svo ókúl og glötuð. Ömurleg ósköp að þetta risavaxna bílastæði skuli vera óhjákvæmileg örlög manns, því einhvers staðar verður maður jú að að kaupa mjólk og hjólbarða, ramma inn og trimforma sig.
Um daginn gerðist þó eitthvað innra með mér og samband mitt við Skeifuna breyttist. Ég stóð í rétt tæpan klukkutíma í anddyri ónefnds veitingastaðar í Skeifunni miðri og beið eftir hægasta skyndibita heims. Þar sem ég fylgdist með iðandi bílaumferðinni og örfáum skelfdum gangandi hræðum skjótast á milli Elko og Rúmfó fann ég ísinn bráðna í hjarta mínu. Ég áttaði mig á að í raun hata ég Skeifuna alls ekki. Eiginlega elska ég hana. Í gegnum árin hefur hún séð fyrir öllum mínum þörfum án þess að vænta neins nema illmælgi í staðinn, hún hefur yfirveguðboðið hinn vangann og séð um að halda búðum á borð við Innrömmun Sigurjóns og Sönn rafeindaþjónusta írekstri ef einhvern tímann ég skyldi þurfa á þeim að halda.
Skeifan hefur alltaf staðið hrein og bein fyrir sínu, algjörlega ónæm fyrir trendum tímans. Aldrei reynir hún að vera neitt annað en hún er og skammast sín ekkert fyrir outlettin sín eða verslanirnar sem enda á punktur is, svo ekki sé minnst á Breiðfirðingabúð sem tilgerðarlaus og trygg vakir yfir öllu en enginn veit hvað er (ég lýsi hér með eftir einhverjum sem hefur komið inn í Breiðfirðingabúð, pm takk). Satt best að segja er Skeifan ein af fáum heiðarlegum stöðum sem eftir eru á höfuðborgarsvæðinu. Engin samræmd ímyndavinna hefur átt sér stað hér, engin hipsteravæðing skotið rótum, engir Farmers Market álfar svífa um stræti og torg (því engin torg er að finna, bara umferðareyjur). Engar lundabúðir er hér heldur að finna enda hefur landnám túristans ekki enn átt sér stað í Skeifunni.
Þið sem barmið ykkur gegndarlaust yfir ferðamannaflóðinu sem ekki sér í íslenska grundu fyrir, kíkið á Kaffi Mílanó næst þegar kaffiþorstinn kviknar eða ykkur langar í eina Bæjarins beztu án þess að bíða í hálftíma biðröð. Hagkaup í Skeifunni redda öllum þínum pulsu þörfum, nú eða litli pulsuvagninn á planinu fyrir utan Vínbúðina þar sem einkar indæl afgreiðslukona sér þér bæði fyrir andlegri og líkamlegri næringu í þynnkunni á leið í einn afréttara (svo spyr Vínbúðin í Skeifunni alltaf um skilríki, sem er ómetanlegt).
Svona mætti lengi telja. Skeifan er óþrjótandi uppspretta af allskonar, sjúskaður suðupottur menningar og ómenningar. Umfram allt er þó Skeifan sannleikur. Í heimi sem dag hvern lýgur blákalt að okkur allskyns þvælu og gabbar upp á okkur hina ýmsu tilgerð er sá eiginleiki dýrmætur. Skeifan er hið sanna Ísland. Hættum að ljúga þvíað túristum að Skólavörðustígur og Seljavallalaug séu ekta Ísland. Þið vissuð ekki að Seljavallalaug væri til fyrir fimm árum, viðurkennið það. Og svona fimm prósent þjóðarinnar hefur barið lunda augum. Við lifum ekkert álambakjöti og þorski, við höldum þriðjudagstilboð Dominos hátíðlegt og leyfum KFC að hugga okkur þegar virkilega bjátar á í lífinu. Skeifan er okkar innra sjálf.
Hatur okkar á Skeifunni er því í raun sjálfshatur og afneitun smásálarlegrar þjóðar sem rembist blá í framan við að viðhalda upphæpaðri markaðssetningu sem menningarsinnuð og bóhemuð Ungfrú heimur og vonar að enginn bösti hana nýskriðna út úr torfkofanum sínum með munninn fullan af Metro.
En engar áhyggjur, innan skamms munum við meika yfir Skeifuna, fyrirhugaðar eru umfangsmiklar breytingar á næstu árum. Eflaust endar hún út úr hipsteruð með ítalskar ísbúðir á hverju horni og rándýrar en hráslagalegar lúxusíbúðir fyrir ofan hjólbarðaverkstæði sem líka er orðinn pop-up kokteilabar. Þá mun ég standa stolt en dálítið meyr á holtinu mínu, umkringd fermetraverði sem í dag er aðeins blautur draumur fasteignasala og rifja upp með afkomendum daga Breiðfirðingabúðar og zetubrauta með ævintýrablik í augunum.