Einn dagur í kosningar. Ég hef ekki enn ákveðið mig. Í alvöru. Líklegast kýs ég Bjarta Framtíð, því ég held að öll mannúðarsjónarmið flokksins eigi vel við öll þau stóru mál sem blasa við næstu ríkisstjórn.
En svo eru það litlu málin. Sem maður á víst ekki að nefna. En ég myndi samt sem áður kjósa þann flokk sem lofar mér því að hætta í siðferðislega feluleiknum.
Þið vitið partíleikurinn sem fólk fer í þegar það ræðir um til dæmis um áfengi í matvörubúðir. Þegar það fer að tala um okkar minnstu bræður og systur og rannsóknir og reynslu erlendis.
Ég hef setið á móti Kára Stefánssyni þegar hann ræddi þessu mál af miklum þrótti og í eitt augnablik þá sannfærðist ég. Við eigum ekki að stilla upp Cheeriosi og líkjörum saman - það er ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem ekki ráða við sig.
En svo 20 mínútum eftir þá varð mér allt þetta ljóst. Kári er nefnilega, þrátt fyrir öll fínu tækin sín og framtíðarlega húsið sitt: gamall kall. Hann er þurs í samtímanum og þess vegna dýrkum við hann. Kári veit ekki að nær allir sem hafa aldur til á Íslandi eru á Facebook og á Facebook geturðu með 2 - 3 smellum og nokkrum broskörlum látið keyra heim til þín áfengi og eins mikið af fíkniefnum og þú vilt.
Þetta er raunin. Þetta er nútíminn. Þetta er staðreyndin. Að stimpla uppstillingu áfengis við hlið brauðs sem freistingar er siðferðislegur feluleikur. Og þeir stjórnmálamenn sem eru hallir undir það eru eflaust ekki sammála því sjálfir - en þeir vilja virðast siðvandir og prúðir í augum kjósenda. Um það snýst málið.
Bjór á að fást ískaldur á bensínstöðvum. Rauðvín hlandvolgt innan um appelsínurnar í Nettó. Ég á að geta keypt litla minatúra af Jagermeister við hliðina tyggjóinu í Bónus. Eða bara banna áfengi alveg og fangelsa fólk fyrir að selja það eða neyta þess. Því að gera annað er siðferðislegur feluleikur.
Og þetta var högg fyrir okkur sem kusu Bjarta framtíð síðast. Við héldum að þið ætluðuð ekki að taka þátt í þessum leik. En þið gerðuð það, helvítin ykkar og vonandi hafiði lært eitthvað. Eins og mér reyndar sýndist með búvörusamninginn.
Mig langar svo ótrúlega mikið að nefna fíkniefni líka. Hefur það ekki sýnt sig að núverandi stefna í málefnum fíkniefna er vitleysa. Nefnum bara kannabis, eruði alveg viss um að það þurfi að vera ólöglegt. Er það ekki skaðminna en bjór og franskar? Hefur það ekki sýnt sig að það geti verið ágætis staðgengill verkjalyfja, svefnlyfja og tjah jafnvel og bara jafnvel krabbameinslyfja. Svo held ég að enginn tengi kannabis við ofbeldi.
En bönnum það, og leyfum hitt - því við erum í siðferðislegum feluleik og Þórarinn Tyrfingsson er einn af leikjameisturunum.
Tölum um fleira. Tölum um MMA. Þið vitið ofbeldisfullu íþróttina sem Gunnar Nelson keppir í og bróðurhluti Íslendinga situr límdur við skjáinn á meðan. MMA er ofbeldisfull íþrótt og ég dýrka hana. Í hvert skipti sem Egill Helgason gagnrýnir hana eða bara einhver þá skammast ég mín. Því ég veit alveg upp á mig skömmina. Það er ekkert að því að fólki finnist MMA ömurleg og dýrsleg og pakkleg íþrótt - hún er það!.
Það þurfta ekkert allir að samþykkja allt. En að banna íþróttina af því einhverjum finnst hún ekki nógu fín er tjah - siðferðislegur feluleikur.
Menn og konur æfa íþróttina út um allt land. Þau sparra (berjast á æfingum) harkalega í hverri viku. Af hverju þurfum við að neyða þetta fólk til að fara til Bretlands, eða Danmerkur eða Bandaríkjanna til að keppa?
Af hverju er það svona mikilvægt að sýnast vera svona miklir pjúrítanar í augum heimsbyggðarinnar? Af hverju getum við ekki bara horft á hestaíþróttir eða skíði á meðan aðrir horfa á MMA og kannski er gott að taka það fram að bæði hestaíþróttir og skíði eru miklu miklu hættulegri sport en nokkurn tíma blandaðar bardagalistir. En hey það hentar siðferðislegu feluleikurunum að horfa á þetta svona.
Muniði þegar ólympískir hnefaleikar voru lögleiddir á Íslandi og siðferðislegu feluleikarar þess tíma höfðu ofsalega miklar áhyggjur en gátu svo sætt sig við niðurstöðuna því menn voru með höfuðhlífar. Sem verja menn fyrir helstu höfuðhöggunum….
Vissuð þið að það er búið að fjarlægja höfuðhlífarnar úr alþjóðareglum ólympískra hnefaleika - því rannsóknir sýndu fram á að hlífarnar hefðu bara engin áhrif þegar það kemur að höfuðmeiðslum. Ekki nokkur. Og út um allt land keppa núna menn í hnefaleikum án höfuðhlífa.
Hvað þýðir það - jú hópur íslenskra þingmanna talaði lengi um eitthvað sem þau höfðu ekki hundsvit á. Komust að niðurstöðu sem var ekki byggð á neinu. Klöppuðu hvor öðru á bakinu í siðferðilega feluleiknum og fengu sér svo kleinur.
Og á meðan ég man - Af hverju eru ekki spilavíti hérna út um allt? Finnst ykkur það úrkynjað? Og ekki til marks um gott samfélag - það má bara vel vera. En raunveruleikinn er sá að þúsundir Íslendinga veðja í hverri einustu viku eða spila póker eða blackjack eða baccarat á netinu. OG við viljum hafa þá þar, því þá getum látið eins og við séum á móti veðmálastarfsemi.
Ég vil flokk sem hættir því að hugsa um hvernig hann þurfi að hegða sér svo hann verði kosinn á næsta kjörtímabili.
Ég vil ekki endilega flokk sem ætlar að endurræsa Ísland en ég þarf á því að halda að einhver uppfæri stýrikerfið.
Og ég held að við verðum að losna upp úr þessum tag-team vinstri hægri fasa. Við getum ekki gefið hægri mönnum stjórnina í fjögur ár og svo vinstri mönnum í fjögur. Ég er nákvæmlega ekkert spenntur fyrir þessu kosningabandalaginu sem fundaði á Lækjarbrekku (hver dramatúrgaði það btw, hefðu átt að funda á Múlakaffi eða eitthvað).
Ég er spenntur fyrir einhverju nýju stjórnarmynstri og ég held að fleiri kjósendur séu það líka. Það er ekki verið að kjósa ríkisstjórn til eilífðar. Fólk hlýtur að geta fundið sameiginlegar áherslur til fjögra ára, sama í hvaða flokki það er.
Gefðu mér til dæmis ríkisstjórn VG og Sjálfstæðismanna, Bjartar framtíðar og Viðreisnar. Bara til að við kjósendur fáum allavega trú á stjórnmálum aftur. Svo þetta sé ekki bara sama endemiskvakið og síbyljan. Að Alþingi verði táknmynd sátta en ekki uppsprettan í sundrung þjóðarinnar.
En plís bara kjósið.
Kjósið Sjálfstæðisflokkinn því Bjarni er svo góður að baka. Framsókn því þeir ætla að lækka skatta. VG því Kata er svo nett, Alþýðufylkinguna því Þorvaldur syngur svo vel og svo framvegis.
Bara mæta á kjörstað og leggja sitt af mörkunum.
En ekki láta glepjast af orðum eins og stöðugleiki. Þetta er misþyrming á tungumálinu.
Á kjörtímabilinu hafa tveir ráðherrar þurft að segja af sér út af hneykslum. Annar ráðherra var á góðri íslensku böstaður við að vera á framfærslu einkafyrirtækis og hann greiddi götur þess í útlöndum.
Þetta ár hefur verið stjórnarfarsleg óreiða. Ekkert hefur gerst. Deilur milli stjórnarflokka of miklar. Á kjörtímabilinu var algjört ráðaleysi í málefnum ferðamanna, algjört ráðaleysi í málefnum flóttamanna og hælisleitenda og fullkomið ráðaleysi í utanríkisstefnu þjóðarinnar.
Ákvarðanir hefa verið teknar algjörlega upp úr engu - fiskistofa, aðildarviðræður.
En þessi ríkisstjórn hún tók margar réttar ákvarðanir, flestar þeirra voru teknar í fjármálaráðuneytinu. En hún ber ekki ábyrgð á lágu heimsmarkaðsverði á olíu og streymi ferðamanna. Það bara kemur þeim ekki við. Og það ég treysti um það bil öllum til að taka sömu ákvarðanir í fjármálaráðuneytinu og bakarinn með stóru hrammana gerði.
Kjósið það sem þið viljið, en bara ekki í nafni stöðugleika, ég held að það sé meiri stöðugleiki á framboðsfundi Íslensku þjóðfylkingarinnar.