Nú hef ég verið búsett í Austur-Evrópu í bráðum fjögur ár. Hér hef ég marga fjöruna sopið skal ég segja þér. Borðað skrítinn mat, drukkið mikið af köldu og dísætu rauðvíni og farið á misheppnuð deit. Séð mikið af vondu hári. Gengið á ósýnilega veggi og grunlaus svívirt óskráðar reglur. Fengið síðan ómaklegar sektir frá karmalöggunni.
Ótengt því eða ekki þá hefur ást mín og aðdáun á Íslandi og Íslendingum farið ört vaxandi með hverju ári. Föðurlandsheilkenni þetta er eins og hálfgerð geðhvörf, en það lýsir sér í óbeit á heimalandinu í upphafi ferðalags sem snýst síðan hægt en bítandi alveg við og verður að ofsafenginni ást á heimalandinu þannig að allt annað í heiminum bliknar í samanburðinum. Fjarlægðin gerir fjöllin vissulega blá en svo hafa áfangastaðirnir auðvitað áhrif á relatívið. Þannig er tíðnin örugglega miklu lægri meðal Íslendinga sem ferðast til Svíþjóðar en t.d. Rúmeníu eða Kasakstan.
Íslenska vatnið, rokið, bingókúlurnar, spillingin, mamma og pabbi, Vínbúðin, frændhyglin, húmorinn, 680 króna kaffibollinn, Gísli Marteinn, náttúran, að skafa bílinn, vinirnir, túristarnir, sund, Korputorg, hjarðhegðunin, sá sem þjáist af heilkenninu elskar þetta allt saman skilyrðislaust, hvort sem það er gott, hlutlaust eða handónýtt. Ekki það að hann sjái ekki hlutina í skýru ljósi, hann sér raunar betur eftir ferðalagið, en í þetta skiptið samþykkir hann hlutina eins og þeir eru og sýnir á köflum óverðskuldað umburðarlyndi. Hefur húmor fyrir ruglinu. Örugglega svipað því að gifta sig. Maður veit alveg að tilvonandi maki kemur alltaf of seint og hrýtur en samþykkir það og myndi jafnvel ekki vilja breyta því.
Eitt er það sér í lagi sem einkennir okkur Íslendinga. Ég hafði svosem heyrt af því áður en sé það svart á hvítu horft héðan frá austur-evrópsku bæjardyrunum. Það eru raketturnar í rassgatinu á okkur Íslendingum. Mér finnst þetta ekki einkenna jafnaldra mína hér í austrinu. Hér finnst mér mun hófstilltari markmið sett per mannsævi. Á Íslandi geta allir verið aðal. Haslað sér völl, hver á sínu sviði. Það ætlar enginn að vera „bara einhver”, allir fá sitt hlutverk og það er svo dásamlegt.
Allt sem þarf er bara að velja rétta hlutverkið og það getur verið hvað sem er eins og dæmin sýna: Sigga Kling, Stjörnu-Sævar, Hjarta-Tómas og Talninga-Tómas, Maggi Texas og Maggi Mix, Marta smarta, Gaui litli, Almar í kassanum, Gunnar í Krossinum, Gillzenegger, Gísli á Uppsölum, Solla á Gló, Læknirinn í eldhúsinu, Vilborg pólfari, Kína-Unnur, RAX, Berglind Festival, Fjallið, Geiri á Goldfinger, Kolla í Jurtaapótekinu, Kári, Bogi, Suðu-Sigfús og Fröken Reykjavík.
Kosturinn við að búa í svona litlu samfélagi er hve stutt er á toppinn, svo stutt að allir sem vilja geta tekið sunnudagsbíltúr uppeftir og skoðað sig um. Það er líklega enginn staður í veröldinni sem orðatiltækið „að vera stór fiskur í lítilli tjörn” á betur við en Ísland. Við fæðumst stórlaxar en ekki loðna. Enginn skilur hvernig eilífðarsmáblómin rötuðu í þjóðsönginn því erum duglegt og sjálfstætt fólk, þrátt fyrir að fílósófía Bjarts í Sumarhúsum varðandi skuldasöfnun hafi ekki náð fótfestu. Allir með mikilmennskubrjálæði eða er það meðalmennskubrjálæði? Stundum hittum við beint í mark eins og á EM 2016. Stundum skorum við sjálfsmark og fáum rautt og leikbann eins í hruninu. You win some, you lose some. Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til. Og þótt þú tapir skaltu ekki dirfast að draga í land.
Nú erum við raketturassgötin að undirbúa einhverja rosalega flugeldasýningu, byggjandi hótel í miðbænum eins og við eigum lífið að leysa og svo springur hún kviss bamm búmm og eftir standa rjúkandi rústir en ég meina þá rífum við okkur bara upp aftur. Svona er Ísland og Ísland er land þitt. Love it or leave it. Ég finn fyrir skilyrðislausri ást og umburðarlyndi. Ég stend og fell með ruglinu. En ég er með föðurlandsheilkennið. Ef þú ertu ekki þar ættirðu kannski að kíkja til Moldavíu og koma til baka, það er örugglega einhver rakettan að byrja með beint flug.